Hoppa yfir valmynd
20. október 2011 Utanríkisráðuneytið

Afmælismálþing um íslenska þróunarsamvinnu með Paul Collier

UTR_afmaelisauglysing_3dx24_vef2
UTR_afmaelisauglysing_3dx24_vef2

Paul Collier hagfræðiprófessor við Oxford háskóla verður heiðursfyrirlesari á afmælismálþingi sem fram fer í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, á morgun, föstudag, frá klukkan 13:30 til 17:30. Utanríkisráðuneytið og Þróunarsamvinnustofnun Íslands standa að málþinginu ásamt Alþjóðamálastofnun og Félagsvísindasviði Háskóla Íslands, en árið 2011 markar 40 ára afmæli íslenskrar þróunarsamvinnu, 30 ára afmæli Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) og 10 ára afmæli Íslensku friðargæslunnar.

Paul Collier er einn virtasti fræðimaður samtímans í þróunarmálum og mjög eftirsóttur fyrirlesari. Erindi hans á málþinginu ber yfirskriftina: Nær Afríka sér á strik: og getum við veitt stuðning? Collier starfaði um árabil fyrir Alþjóðabankann og hefur haft mikil áhrif á stefnu bankans í þróunarmálum. Þekktasta verk hans er The Bottom Billion, Why the Poorest Countries are Failing and What Can Be Done About It (2008). Hún vakti heimsathygli og breytti viðhorfum margra til þróunarmála. Nýjar bækur eftir hann hafa einnig vakið athygli og umtal; Wars, Guns and Votes (2009) og The Plundered Planet: Why We Must – and How We Can – Manage Nature for Global Prosperity (2010). Í þeirri síðasttöldu eru umhverfis- og auðlindamál ofarlega á baugi og íslenska kvótakerfið kemur þar lítillega við sögu.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra flytur ávarp í upphafi málþingsins en aðrir fyrirlesarar eru Hermann Örn Ingólfsson sviðsstjóri Þróunarsamvinnusviðs utanríkisráðuneytis sem fjallar um sögu íslenskrar þróunarsamvinnu, Jónína Einarsdóttir prófessor við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands sem ræðir um rannsóknir Colliers, stefnumörkun, framkvæmd og kennslu, og Valgerður Jóhannsdóttir verkefnisstjóri MA-náms í blaða- og fréttamennsku við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands sem veltir fyrir sér hlutverki fjölmiðla í umræðu um þróunarmál.

Valgerður Sverrisdóttir fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður samstarfsráðs um þróunarsamvinnu stýrir umræðum í lok málþingsins. Fundarstjóri er Engilbert Guðmundsson framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum