Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2011 Matvælaráðuneytið

Mikilvægi nýsköpunar við að finna lausnir gegn hnattrænum áskorunum!

Sköpum nýja framtíð logo
Sköpum nýja framtíð logo

Nýsköpunarþing 2011 var haldið í dag og þar var fjallað um hinar stóru hnattrænu áskoranir sem mannkynið stendur frammi fyrir á ýmsum sviðum. Margar þessara áskorana má skilgreina sem samfélagsleg vandamál - en höfum hugfast að þær kalla á lausnir og ættu því með réttu að vera hvatning til  framkvæmda og nýsköpunar.

Á Nýsköpunarþinginu veltu sérfræðingar á sviði orkumála, matvæla, loftlagsbreytinga og öldrunar upp tækifærum fyrir Ísland til að sækja fram með nýsköpun á þessum sviðum. Ísland getur eitt og sér ekki leyst vandamál heimsins en engu að síður getum við lagt ansi veigamikil lóð á vogarskál framþróunar. Við Íslendingar búum t.d. við landfræðilega
sérstöðu og eigum ríkulegar náttúruauðlindir og hvoru tveggja gefur tilefni til samstarfs við aðrar þjóðir um lausnir gegn hnattrænum áskorunum.

Einkennandi fyrir hnattrænar áskoranir er að þær eru umfangsmiklar, steðja að mörgum löndum og kalla lausnir þeirra á samstarf landa og svæða meðal annars hvað varðar rannsóknir og nýsköpun. Meðal þeirra áskoranna sem heimurinn í heild stendur frammi fyrir tengjast eftirfarandi sviðum:

  • Heilbrigðismál; öldrun, lýðfræðilegar breytingar og velferð
  • Fæðuöryggi, sjálfbær landbúnaður og lífrænt efnahagskerfi
  • Trygg, hrein og skilvirk orka
  • Snjallir, grænir og samþættir flutningar
  • Loftslagsbreytingar og skilvirk nýting gæða, þar með talin hráefni
  • Öryggi og nýsköpun í samheldnu samfélagi

Á síðustu misserum hefur umræða um þessi mál stigmagnast og þjóðir um allan heim hafa tekið höndum saman um að leita lausna. Norðurlöndin eru t.d. með viðamikla rannsóknaráætlun um loftslagsbreytingar og Evrópusambandið hefur þessar samfélagslegu áskoranir í brennidepli við hönnun á nýrri rammaáætlun um rannsóknir og nýsköpun. Nokkur lönd hafa þegar sett á stofn aðgerðir gegn þessum áskorunum í tengslum við rannsókna- og nýsköpunarstefnu sína og hafa skipulagt aðgerðir til að sporna við þeim eða vinna með þær.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum