Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fjallað um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir

Koldíoxíð.
Koldíoxíð.

 

Ríkisstjórnin samþykkti í gær tillögu umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur og Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra um að Ríkiskaup sjái um uppboð á þeim losunarheimildum sem Íslandi verður úthlutað í breyttu viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda, sem Ísland tekur í fyrsta sinn þátt í frá og með 2012 þegar flugstarfsemi verður felld undir kerfið. Frá og með 2013 bætist við staðbundinn iðnaður s.s. ál-, járnblendi- og steinullar- og fiskimjölsframleiðsla.

Þá var samþykkt að leita samkomulags um að Ísland geti boðið upp losunarheimildir sínar undir uppboðsmarkaði ESB.

Á fundinum í gær kom fram að nauðsynlegt er að breyta lögum svo hægt sé að innleiða nýja reglugerð Evrópusambandsins um tilhögun útboða losunarheimilda í íslenskan rétt. Var ákveðið að mynda starfshóp undir forystu umhverfisráðuneytisins þar sem einnig eiga sæti fulltrúar Umhverfisstofnunar, fjármálaráðuneytisins, Ríkiskaupa og efnahags- og viðskiptaráðuneytisins um skiptingu verkefna milli ráðuneyta og stofnana eins og þau eru tilgreind í reglugerðinni.

Loks var samþykkt að þar sem nauðsynlegum breytingum á lögum verður vart náð fram fyrir næstu áramót verði í fjárlögum fyrir 2012 aflað heimildar fyrir fjármálaráðherra til að selja þær losunarheimildir sem falla í hlut Íslands.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum