Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2011 Matvælaráðuneytið

Nýr kafli

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, kynnti í dag nýja efnahagsáætlun á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu.

Efnahagsáætlunin er gerð samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar um samstillta hagstjórn og er fyrsta áætlun sinnar tegundar á Íslandi. Áætlunin er unnin í framhaldi af samstarfsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og verður hún endurskoðuð tvisvar á ári – næst að vori 2012. Áætlunin var unnin í samráði við önnur ráðuneyti, ríkisstofnanir og aðila vinnumarkaðarins. Markast hún að þessu sinni að miklu leyti af annarri stefnumótun stjórnvalda sem þegar er komin fram og er því mikilvægt að efla slíkt samráð til framtíðar.

Í áætluninni er kynnt nýtt hagvaxtarmódel sem byggir á framboðsdrifnum sjálfbærum hagvexti. Hagvöxtur á Íslandi hefur lengi verið drifinn af einstökum stórum og tímabundnum verkefnum, sem leitt hefur til ofþenslu og óstöðugleika. Skortur á samhæfðri hagstjórn hefur ýtt enn frekar undir þessa þróun og stuðlað að einhæfni útflutningsgreina og erlendri skuldasöfnun. Nú er markmið til framtíðar að auka fjárfestingu og nýta þau tækifæri sem núverandi aðstæður hafa skapað fyrir fjölbreyttara atvinnulíf, nýsköpun og aukna framleiðni. Einungis með þeim hætti er hægt að brjótast út úr vítahring ofþenslu og samdráttar í kjölfarið sem svo mjög einkenndi efnahagsframvindu fyrri tíma. Efnahagsstefnan til næstu ára byggir því á að efla samkeppnishæfni atvinnulífsins, sem verði grunnur útflutningsdrifins hagvaxtar. Mikilvægt er að fjármálakerfið styðji við þá þróun, samhliða því að heimili, fyrirtæki og hið opinbera losni undan ósjálfbærri skuldsetningu.

Aðgerðir til að ná þessum markmiðum eru:

  1. Aukin fjárfesting með beinum aðgerðum stjórnvalda og bættu starfsumhverfi atvinnulífsins
  2. Sjálfbærni opinberra fjármála
  3. Samþætting menntunar og atvinnulífs - spornað við langtímaatvinnuleysi
  4. Lokið við skuldaaðlögun heimila og fyrirtækja
  5. Samkeppnishæft og sterkt fjármálakerfi
  6. Mótuð verði peningastefna til framtíðar og gjaldeyrishörft afnumin í áföngum

Efnahagsáætlunina í heild má lesa hér.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum