Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2011 Matvælaráðuneytið

Ársfundi NEAFC 2011 lokið

Nr. 60/2011

 

Ársfundi NEAFC 2011 lokið

Dagana 7.-11. nóvember 2011 fór fram 30. ársfundur Norðaustur Atlantshafs fiskveiði­nefndarinnar (NEAFC) í höfuðstöðvum nefndarinnar í London.

Á fundinum voru staðfestir samningar strandríkja um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum og kolmunnastofninum sem gerðir voru í október síðastliðnum. Einnig var gengið frá samningi um veiðar á karfa í Síldarsmugunni. Þar var aflamark lækkað milli ára úr 7.900 tonnum í 7.500 tonn. Hefja má veiðar 15. ágúst og verða þær opnar NEAFC aðildarríkjum þar til því aflamarki er náð.  

Á fundinum var einnig rætt um stjórn veiða á úthafskarfa á Reykjaneshrygg en fyrr á árinu náðu strandríkin, Ísland, Færeyjar og Grænland, ásamt Evrópusambandinu og Noregi samkomulagi um stjórnun veiða úr stofnunum sem gildir út árið 2014. Samkomulagið  miðar að því færa aflamark niður að ráðgjöf vísindamanna, sem hefur verið 20 þús. tonn undanfarin ár. Því samkomulagi mótmæltu Rússar og settu sér einhliða aflamark upp á 29.480 tonn fyrir árið 2011. Ekkert kom fram af hálfu Rússa á fundinum sem gefur til kynna að þeir gerist aðilar að samkomulaginu á næsta ári og því má búast við að þeir setji sér einhliða aflamark fyrir árið 2012.

Fundurinn samþykkti jafnframt ráðstafanir til verndunar ýmissa hákarlategunda sem Alþjóðahafrannsóknarráðið (ICES) hefur ráðlagt að engar beinar veiðar skuli stundaðar á.

NEAFC hefur á undanförnum árum gripið til margvíslegra ráðstafana til verndunar viðkvæmra hafsvæða. Veiðisvæði hafa verið kortlögð og stórum svæðum verið lokað fyrir veiðum með botnveiðarfærum. Auk þess eru í gildi umfangsmiklar takmarkanir á öðrum svæðum þar sem veiðar hafa ekki verið stundaðar í umtalsverðum mæli. Á fundinum var ákveðið að hefja vinnu við að fara yfir árangur veiðistjórnunar samtakana á undanförnum árum til verndunar viðkvæmra hafsvæða og er áætlað að ljúka þeirri vinnu á næsta ári. 

Í íslensku sendinefndinni voru Steinar I. Matthíasson sem jafnframt var formaður, Kristján Freyr Helgason og Helga Sigurrós Valgeirsdóttir frá sjávarútvegs- og landbúnaðar­ráðuneytinu, Ragnheiður Elfa  Þorsteinsdóttir frá utanríkisráðuneytinu, Þorsteinn Sigurðsson frá Hafrannsóknastofnuninni, Auðunn Ágústsson frá Fiskistofu, Gylfi Geirsson frá Landhelgisgæslunni og Kristján Þórarinsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum