Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2011 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ríkið kaupir land og orkulindir Reykjanesbæjar


Fjármálaráðherra undirritaði í dag samning við Reykjanesbæ um kaup ríkisins á landi og orkuauðlindum Reykjanesbæjar. Er þar um að ræða hluta af landi Kalmannstjarnar og Junkaragerðis sem áður hafði verið afsalað til forvera seljanda, Hitaveitu Suðurnesja hf.,  ásamt tilheyrandi jarðhitaréttindum. Samningurinn er undirritaður  í dag með fyrirvara um samþykki Alþingis. Kaupverð ríkisins yrði greitt með skuldajöfnun á u.þ.b. 862 m.kr. skuld bæjarins við innheimtumann ríkissjóðs vegna fjármagnstekjuskatts, auk u.þ.b. 368  m.kr. í peningum.

Í frumvarpi til fjáraukalaga ársins liggur fyrir tillaga um að fjármálaráðherra verði heimilað að kaupa hluta af landi og jarðhitaréttindi í landi Kalmannstjarnar og Junkaragerðis á Reykjanesi af Reykjanesbæ. Fjármálaráðuneytið hefur á undanförnum mánuðum átt í viðræðum við forsvarsmenn Reykjanesbæjar um möguleg kaup ríkissjóðs auðlindum Reykjanesbæjar á þessu svæði.  Fyrir liggur  sameiginlegt mat sérfræðinga á vegum ríkis og sveitarfélags um verðmæti auðlindarinnar. Náðst hefur samkomulag við Reykjanesbæ um að ríkið kaupi land og jarðhitaréttindi á svæðinu á 1.23 milljarða króna.  Gangi kaupin eftir á ríkið þar með allar auðlindir sem nýttar eru af Reykjanesvirkjun


Í kjölfar laga nr. 58/2008 um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði var Hitaveitu Suðurnesja skipt upp í tvö félög í samræmi við áskilnað laganna. Við skiptinguna féllu flestar jarðeignir og fasteignir á þeim í hlut HS Orku hf. en veitukerfi og fasteignir þeim tengdum í hlut HS Veitna hf.

Með hliðsjón af þeim grundvallarsjónarmiðum sem lágu að baki lögunum að auðlindir yrðu að mestu í eigu og umsjón ríkis og/eða sveitarfélaga gerðu HS Orka hf. og Reykjanesbær með sér samning þar sem Reykjanesbær keypti af HS Orku hf. land og auðlindir á Reykjanestá.  Er þar um að ræða spildu úr landi Kalmannstjarnar og Junkaragerðis sem áður hafði verið afsalað til forvera seljanda, Hitaveitu Suðurnesja hf.,  ásamt tilheyrandi jarðhitaréttindum. Jarðhitaréttindi Reykjanesbæjar samkvæmt framangreindum samningi er nú að hluta til nýtt af  HS Orku hf. samkvæmt sérstökum samningi.  Orka virkjunarinnar er sótt í jarðhitaforðabúr sem er undir jörðunum Kalmannstjörn og Stað.  Staður er í eigu ríkisins. Reykjanesvirkjun er nú 100 MW og er áætlað að stækka hana um 40-50 MW til viðbótar. Starfsleyfi stöðvarinnar leyfir allt að 180MW uppsett afl.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum