Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2011 Dómsmálaráðuneytið

Innanríkisráðherra ræddi fjármál og stöðu kirkjunnar við upphaf Kirkjuþings

Kirkjuþing var sett í morgun í Reykjavík og liggja alls 36 mál fyrir þinginu. Við upphaf þingsins fluttu ræður þau Karl Sigurbjörnsson biskup, Pétur Kr. Hafstein, forseti kirkjuþings, Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Sólveig Anna Bóasdóttir, forseti guðfræði- og trúarbragðadeildar HÍ.

Setning kirkjuþings 2011 - Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra í ræðustól.
Setning kirkjuþings 2011 - Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra í ræðustól.

Í ræðu sinni greindi innanríkisráðherra meðal annars frá starfi nefndar sem hann skipaði síðastliðið sumar til að meta áhrif niðurskurðar fjárframlaga á starf kirkjunnar. Fram kom í máli hans að framlög til kirkjunnar hefðu síðustu ár lækkað í samræmi við almennan niðurskurð á flestum sviðum hjá ríkissjóði en að enginn slíkur samningur hefði verið gerður um skerðingu sóknargjalda – sú skerðing hefði verið ákveðin af fjárveitingavaldinu við undirbúning fjárlaga á hverju ári. ,,Frá því er skemmst að segja að við samanburð á skerðingu sóknargjaldanna og skerðingu á fjárveitingum til annarra ríkisaðila kom í ljós verulegur munur,“ sagði ráðherra meðal annars. ,,Sóknargjöldin höfðu lækkað að raungildi, miklu meira en nam almennri skerðingu og samdrætti, nokkuð sem hafði meiri áhrif en ella vegna fækkunar sóknarbarna á sama tíma.“ Ráðherra sagði það hafa komið sér á óvart hversu mikilli skerðingu sóknargjöldin hefðu sætt umfram almennan niðurskurð og það hlyti að krefjast sérstakrar skoðunar af hálfu fjárveitingavaldsins.

Kirkjuþing 2011 var sett í morgun.Þá ræddi ráðherra um stöðu kirkjunnar og þá spurningu hvort viðhalda eigi henni sem  þjóðkirkju og hvort hún hafi hlutverki að gegna sem stofnun. Hann sagði rétt að spyrja slíkra spurninga gagnvart öllum stofnunum öllum stundum. Ráðherra trúmála yrði einnig að spyrja um hlutverk – réttindi og skyldur – annarra safnaða og einnig lífsskoðunarfélaga. Á að veita lífskoðunarfélögum á borð við Siðmennt sömu réttindi og trúfélögum spurði ráðherra og sagði það eðlilegt, þar væri ekki gengið á rétt nokkurs manns né nokkurs trúarhóps.

Ræða þarf heildarhagsmuni

Einnig ræddi ráðherra spurninguna um aðskilnað ríkis og kirkju og sagði hann þann aðskilnað í sínum huga þegar hafa farið fram og bætti við: ,,Í stað þess að hrapa að ákvörðunum um grundvallarbreytingar skulum við taka rækilega umræðu um heildarhagsmuni. Þrátt fyrir allt þá er kirkjan – bæði bundin en einnig óháð trúarboðskap sínum – hornsteinn í okkar samfélagi; hún er menningarstofnun sem geymir mikilvæga arfleifð úr sögu og lífi íslenskrar þjóðar. Og enn er það svo að stærsta þakið sem við sameinumst undir á örlagastundum er þak Þjóðkirkjunnar.“

Meðal mála á kirkjuþingi má nefna tillögu um frumvarp um breytingar á þjóðkirkjulögum sem sent yrði milliþinganefnd og síðan rætt aftur á kirkjuþingi næsta ár. Einnig skýrsla úrbótanefndar sem kirkjuþing skipaði í júní á þessu ári til að vinna úr tillögum rannsóknarskýrslu kirkjuþings og tillögu að nýjum starfsreglum um biskupskjör þar sem gert er ráð fyrir að djákarn hafi kosningarétt og að hlutur leikmanna verði aukinn.

Upplýsingar um kirkjuþing og málaskrá má finna á vefsíðu þingsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum