Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2011 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 12/2011: Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 14. júní 2011

í máli nr. 12/2011:

Logaland ehf.

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi, dags. 17. maí 2011, kærði Logaland ehf. útboð Ríkiskaupa nr. 15039 „Automated system for viral screening and measurement of ferritin in blood donors“. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:

„1. Að kærunefndi stöðvi þegar í stað innkaupaferli/gerð samnings á grundvelli útboðsins þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

 

2. Að kærunefndin felli úr gildi ólögmæta skilmála í útboðslýsingu þar sem krafist er að bjóðendur hafi „established implementation of a fully operational and bi-directional connection to Prosang, the Blood Bank Information System in at least two (2) Blood Banks in Europe.“ en þessi krafa er sett fram í eftirtöldum ákvæðum útboðsins:

Ákvæði 7. mgr. í gr. 1.2.1

Ákvæði gr. 2.3.4, þriðji reitur að ofan í töflu

Ákvæði gr. 5.3 (bls. 6 í viðauka)

 

3. Að nefndin láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu kaupanda gagnvart kæranda.

 

4. Að nefndin ákveði að kaupandi og/eða Ríkiskaup greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi.“

 

Kærandi lagði fram ódagsetta „Greinargerð með kæru“ og „Viðauka við greinargerð með kæru“, dags. 26. maí 2011. Kærða var kynnt kæran og önnur gögn kæranda og gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir útboðsskilmálum. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun á innkaupaferli. Með bréfi, dags. 8. júní 2011, krafðist kærði þess að kærunni yrði vísað frá en annars að kröfu um stöðvun samningsgerðar yrði hafnað og að kæranda yrði gert að greiða málskostnað í ríkissjóð.

 

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva hið kærða innkaupaferli.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.

 

I.

Í mars  2011 auglýsti kærði útboð nr. 15039 „Automated system for viral screening and measurement of ferritin in blood donors“.  Í útboðsgögnum var m.a. að finna eftirfarandi skilyrði í gr. 1.2.1 sem ber heitið „Qualification Criteria“:

„The tenderer SHALL have an established implementation of a fully operational bi-directional connection to Prosang, the Blood Bank Information System in at least two (2) Blood Banks in Europe.“

 

Kærandi sótti útboðsgögn hinn 16. mars 2011.

 

II.

Kærandi byggir á því að tiltekin skilyrði útboðsgagna séu ólögmæt. Samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, skal kæra borin undir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá því að kærandi vissi eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Í athugasemdum við 94. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 84/2007 er m.a. tekið fram að í opinberum innkaupum sé oft og tíðum sérlega mikilvægt að ekki sé fyrir hendi óvissa um gildi tiltekinna ákvarðana, jafnvel þótt vera kunni að ákvarðanir séu ólögmætar. Af ummælum í athugasemdunum má ráða að ætlast sé til þess að kærufrestur verði túlkaður þröngt og upphaf hans miðað við fyrsta mögulega tímamark.

Kærandi sótti útboðsgögn í hinu kærða útboði hinn 16. mars 2011 en kæra er dagsett 17. maí 2011. Með hliðsjón af framangreindu eru verulegar líkur á því að frestur hafi verið liðinn til að bera meinta annmarka á útboðsgögnum undir kæru­nefnd útboðsmála. Þar sem kærufrestur er að öllum líkindum liðinn telur kærunefnd útboðsmála ekki efni til að stöðva hið kærða innkaupaferli þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

 

 

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Logalands ehf., um að stöðvað verði innkaupaferli útboðs kærða, Ríkiskaupa, nr. 15039 „Automated system for viral screening and measurement of ferritin in blood donors“, er hafnað.

 

                                                  Reykjavík, 14. júní 2011.

                                                  Páll Sigurðsson

                                                  Auður Finnbogadóttir

                                                  Stanley Pálsson

                                                              

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík,                 júní 2011.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum