Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2011 Matvælaráðuneytið

Hörpuráðstefnan vakti athygli víða

Ráðstefnan Ísland á batavegi - lærdómar og verkefni sem efnahags- og viðskiptaráðuneytið, Seðlabanki Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) skipulögðu og haldin var í Hörpu í lok október vakti verulega alþjóðlega athygli. Ráðstefnan var öllum opin meðan húsrúm leyfði og var aðsókn töluvert meiri en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir.

Ríflega þrettán þúsund manns víða um heim fylgdust með beinni vefútsendingu frá ráðstefnunni, en það eru margfalt fleiri en hafa horft á álíka beinar útsendingar á heimasíðu AGS. Áhorfendur voru langflestir í Bandaríkjunum en næst komu m.a. Þýskaland, Ísland, Bretland, Svíþjóð og Japan.

Innlit á heimasíðu með efni ráðstefnunnar voru ríflega sjötíu þúsund og fóru fram líflegar umræður á Twitter um ráðstefnuna og efni hennar. Áhrif ráðstefnunnar á orðspor Íslands gætir víða, á mörkuðum, innan alþjóðastofnana og í erlendum fjölmiðlum, enda var ráðstefnan umræðuvettvangur framúrskarandi fræðimanna (þ.m.t. Paul Krugman, Simon Johnson, Martin Wolf, Joseph Stiglitz, Jón Daníelsson og Friðrik Már Baldursson) um efnhagslega endurreisn Íslands og hið alþjóðlega samhengi hennar.

Margvíslegar skoðanir komu fram í frjórri umræðu. Allir framsögumenn gáfu vinnu sína.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum