Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2011 Matvælaráðuneytið

Krakkar eiga ekki bara að spila tölvuleiki ... þau eiga líka að kunna
að búa til tölvuleiki!

Öll þekkjum við einstaka hæfileika barna til að læra tungumál. Og að sama skapi eru þau móttækileg og fljót að tileinka sér forritunarmál. Tungumál og forritunarmál eru nefnilega að því leyti sambærileg að þau byggja á samskiptum milli aðila á máli sem báðir skilja. Munurinn er hins vegar sá að í stað samskipta milli einstaklinga þá byggir forritunarmál á samskiptum manns og tölvu.

Skema er frumkvöðlafyrirtæki sem sérhæfir sig í rannsóknum og kennslu – með sálfræði, kennslufræði og tölvunarfræði að leiðarljósi. Fyrirtækið stendur fyrir fyrir námskeiðum fyrir yngri kynslóðina í leikjaforritun og vill einnig leggja sitt af mörkum til að stuðla að því að kennsla í forritun verði í boði í grunnskólum landsins. Auk er á stefnuskránni að rannsaka þau áhrif sem kennsla í forritun hefur á hina ýmsu þætti þroska og námsgetu barna.

Markmiðið er að setja upp námsgögn fyrir kennslu í forritun í grunnskólum landsins og að innan þriggja ára verði kennsla í forritun hluti af námi í að minnsta kosti 70% grunnskóla landsins. Takmarkið er ekki einungis að kenna forritun heldur jafnframt að gefa kennurum og börnum tækifæri á að útvíkka kennsluaðferðir og nýta forritunarumhverfið til að leysa verkefni í öðrum námsgreinum.

Ef þetta gengur eftir verða börnin betur í stakk búin til að bæði nota tæknina auk þess að hafa skilning á því sem hún hefur að bjóða. Vonandi mun betri almenn tölvukunnátta haldast í hendur við aukna sókn ungs fólks í tæknimenntun og að stelpur verða sterkari í tæknigeiranum en í dag.

Skema ehf. var stofnað í framhaldinu af því að hugmyndin “Börnin í Undralandi Tölvuleikjanna” hlaut titilinn “Fræ ársins 2011“ sem veitt voru af Háskólanum í Reykjavík, Össur hf, Samtökum iðnaðarins, Klak-nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins, Landsvirkjun og Eyri.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum