Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2011 Matvælaráðuneytið

Ráðherra skipar starfshóp

 

Nr. 61/2011

 

Ráðherra skipar starfshóp

 

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur skipað samráðshóp sérfræðinga varðandi innflutningsbann á hráum dýraafurðum og lifandi dýrum.  

Með lögum nr. 143/2009 var matvælalöggjöf Evrópusambandsins rg. 178/2002 innleidd í íslensk lög. Þrátt fyrir innleiðinguna, sem tók gildi 1. nóvember 2011, er áfram óheimilt að flytja inn lifandi dýr og hráar dýraafurðir til landsins, nema til komi undanþága sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hvort heldur um er að ræða innflutning frá ríkjum ESB eða öðrum löndum.  

Þær varúðarráðstafanir sem hér er gripið til byggja á 13. grein EES samningsins þar sem segir m.a. “...að leggja megi á innflutning, útflutning eða umflutning vara bönn eða höft sem réttlætast af almennu siðferði, allsherjarreglu, almannaöryggi, vernd lífs og heilsu manna eða dýra eða gróðurvernd, vernd þjóðarverðmæta, er hafa listrænt, sögulegt eða fornfræðilegt gildi, eða vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar og viðskipta.” 

Samráðshópnum er í samræmi við ofangreint ætlað að gera grein fyrir rökstuðningi og stefnumörkun Íslands í málinu auk þess að draga fram öll þau gögn önnur og rök, sem gagnast mega. Vinna hópsins mun nýtast í aðildarviðræðum við ESB til að verja hagsmuni í samræmi við samþykkir Alþingis um matvælaöryggi. Verkefnið snýr að því að Ísland geti gripið til nauðsynlegra ráðstafana til verndar íslensku búfé með takmörkun innflutnings á hráum búfjárafurðum og lifandi dýrum, komi til aðildar að Evrópusambandinu. 

Hópinn skipa fulltrúar frá Matvælastofnun, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði, Bændasamtökunum og auk þess án tilnefningar Ingimar Jóhannsson skrifstofustjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti sem verður formaður hópsins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum