Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2011 Matvælaráðuneytið

Fyrirtækjaaðskilnaður á rafmagnsmarkaði
- Skýrsla hagfræðistofnunar

Rafmagn
Rafmagn

Í núgildandi raforkulögum er kveðið á um aðskilnað sérleyfis- og samkeppnisstarfsemi og sjálfstæði stjórnar dreifiveitu. Iðnaðarráðuneytið fól Hagfræðistofnun HÍ að gera úttekt á því hvort fyrirtækjaaðskilnaður á sviði raforkumála eigi að öllu leyti við um markaðsaðstæður hér á landi og hvort hann sé til þess fallinn að skapa samkeppnisumhverfi sem sé neytendum raforkuþjónustu til hagsbóta. Skýrslan

Í maí 2008 samþykkti Alþingi lög nr. 58/2008, um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði, sem fólu m.a. í sér þá breytingu á 14. gr. raforkulaga nr. 65/2003, að dreifiveitu, þar sem fjöldi íbúa á dreifiveitusvæðinu er 10.000 eða fleiri, er óheimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem henni er nauðsynleg til að geta rækt skyldur sínar samkvæmt sérleyfum.

Jafnframt skal stjórn dreifiveitu vera sjálfstæð gagnvart öðrum fyrirtækjum sem stunda vinnslu, flutning eða sölu raforku. Framangreint ákvæði átti að koma til framkvæmda frá og með 1. júlí 2009. Að beiðni Orkuveitu Reykjavíkur hefur gildistöku 14. gr. verið frestað í þrígang, síðast með lögum nr. 148/2010 til 1. janúar 2012. Í þeim lögum var tekið fram að Iðnaðarráðuneytið myndi láta fara fram hagfræðilega úttekt á því hvort sá fyrirtækjaaðskilnaður sem mælt er fyrir um í viðeigandi gerðum Evrópusambandsins á sviði raforkumála (sbr. tilskipun 2003/54/EB og tilskipun 2009/72/EB) eigi að öllu leyti við um markaðsaðstæður hér á landi og hvort hann sé til þess fallinn að skapa samkeppnisumhverfi sem sé neytendum raforkuþjónustu til hagsbóta. Þann 30. september 2011 tilkynnti Orkuveita Reykjavíkur að fyrirtækinu yrði skipt upp í tvö fyrirtæki í samræmi við lög um aðskilnað sérleyfis- og samkeppnishluta. Í apríl 2011 fól Iðnaðarráðuneytið Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að gera þessa úttekt og er niðurstöður hennar að finna í meðfylgjandi skýrslu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum