Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Skapandi Evrópa – Áætlun ESB fyrir menningarmál og hljóð/myndræna iðnaðinn 2014-2020

Þann 23. nóvember sl. kynnti framkvæmdastjórn ESB nýja áætlun ESB fyrir menningarmál og hljóð/myndræna iðnaðinn fyrir tímabilið 2014-2020 sem hefur hlotið nafnið ,,Creative Europe – A new framework programme for the cultural and creative sectors 2014-2020”.

Þann 23. nóvember sl. kynnti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) nýja áætlun ESB fyrir menningarmál og hljóð/myndræna iðnaðinn fyrir tímabilið 2014-2020 sem hefur hlotið nafnið ,,Creative Europe – A new framework programme for the cultural and creative sectors 2014-2020”. Áætlunin sameinar þrjár áætlanir í eina. Þær eru menningaráætlunin (e. Culture programme 2007-2013), áætlunin fyrir hljóð/myndræna iðnaðinn (e. MEDIA 2007 Programme 2007-2013) og alþjóðlega áætlunin fyrir hljóð/myndræna geirann (e. MEDIA Mundus Programme 2011-2013).

Skapandi Evrópa endurspeglar grundvallarþætti Evrópu 2020 áætlunar ESB og er m.a. ætlað að auka fjárfestingar í menningu og skapandi greinum sem mun leiða til fjölgunar starfa, aukins hagvaxtar og félagslegs jafnaðar. Hlutur menningar og skapandi greina nema um 4.5% af vergri landsframleiðslu í Evrópu og um 3.8% af vinnuafli Evrópu, en 8.5 milljón manns starfa á þessum sviðum. Meginmarkmið nýju ætlunarinnar er að stuðla að verndun menningarverðmæta og dreifingu og miðlun efnis bæði innan sem og utan Evrópu. Með áætluninni er auk þess stefnt að auka samkeppni á sviðinu, m.a. með aðgerðum sem stuðla að aukinni getu aðila á mörkuðum og styðja við dreifingu menningar á alþjóðlegan markað.

 

Áætluninni eru ætlað að:

  • Standa vörð um og styðja fjölbreytta menningu og tungumál.
  • Styrkja samkeppnishæfni menningar og skapandi greina með það að markmiði að auka hagvöxt.

 Henni er jafnframt ætlað að:

  • Styrkja alþjóðlegt samstarf á sviði menningar og skapandi greina.
  • Kynna evrópska menningu og skapandi greinar fyrir nýjum áheyrandahópum bæði innan Evrópu sem utan.
  • Styrkja fjárhagslega getu á sviði menningar og skapandi greina.
  • Styrkja alþjóðasamstarf á sviði stefnumótunar á þessu sviði.

 Nýja áætlunin skiptist í þrennt. þ.e:

  • Menningarhluti (e. Culture Strand addressed to the cultural and creative sectors);
  • Fjölmiðlahluti (e. MEDIA Strand addressed to the audiovisual sector).
  • Nýr þverfaglegur hluti sem skiptist í tvennt.
    • Annars vegar verður komið upp ábyrgðarlánasjóði (e. cultural and creative sectors guarantee facility), sem verður stýrt af Evrópska fjárfestingasjóðnum (e. European Investment Fund). Sjóðurinn mun veita ábyrgðir (70%) til evrópskra fjármálastofnana sem hafa áhuga á að lána fjármuni til lítilla og meðalstórra fyrirtækja (e. SMEs) sem starfa á sviði menningar og skapandi greina. Reiknað er með að sjóðurinn geti stuðlað að allt að milljarði evra í bankalánum til fyrirtækja starfandi í skapandi greinum. Einnig er gert ráð fyrir fræðslu og þjálfun til þeirra fjármálastofnana sem nýta sér ábyrgðina, um sérstakar aðstæður menningar og skapandi greina til að stuðla að betri tengingum á milli þessara hópa.
    • Hinn hlutinn mun einnig fela í sér aðgerðir (s.s. rannsóknir, greiningar og gagnaöflun) til að styðja við bætta stefnumótun og nýjar aðferðir til að byggja upp áheyrandahópa og viðskiptamódel á sviðinu.

 Áætluninni er ætlað að ná til um milljón manna og styðja:

  • Um 300.000 listamenn og menningarsérfræðinga (e. cultural professionals) til að kynna verk sín fyrir nýjum áheyrandahópum.
  • Dreifingu yfir 1000 evrópskra kvikmynda, í Evrópu og utan álfunnar og þar með kynna evrópskar kvikmyndir fyrir nýjum áhorfendahópum.
  • Yfir 1000 menningarstofnanir og sérfræðinga til að sækja þjálfun og námskeið sem ætlað er að styrkja alþjóðlegt samstarf.
  • Um 2500 kvikmyndahús til að tryggja að minnsta kosti 50% kvikmynda sem sýndar eru séu evrópskar.
  • Yfir 5500 bókaþýðingar.

 

Fjármagn og innleiðing

Framkvæmdastjórn ESB leggur til að 1.8 milljarðar evra verði varið til hennar en það er um 37% aukning. Þar af munu um 900 milljónir evra renna til kvikmynda- og fjölmiðlamála (áður MEDIA áætlunin) og um 500 milljónir til menningarmála. Þá leggur framkvæmdastjórnin til að yfir 210 milljónir evra verði varið í nýja ábyrgðarlánasjóðinn. Að auki er lagt til að um 60 milljónum evra verði varið í stuðning við stefnumótun og nýsköpun.

Áætluninni er ætlað að vera einfaldari og aðgengilegri en forverar hennar. Henni verður áfram stýrt frá Brussel af Education Audiovisual and Communication Executive Agency (EACEA). Framkvæmdastjórnin mun auk þess stýra nokkrum verkefnum (t.d. European Capitals of Culture, EU cultural prizes, joint actions with international institutions).

Lagt er til að stuðningur við menningargeirann og skapandi greinar í tengslum við áætlunina verði falið svo kölluðum ,,one-stop shop”, sem þýðir að umsækjendur þurfi ekki að leita til margra aðila.

Skapandi Evrópa er opin fyrir þátttöku aðildarríkjanna 27, auk Íslands, Lichtenstein, Noregs og Sviss. Auk þess munu umsóknarríki ESB sem og lönd á vestanverðum Balkanskaga eiga kost á þátttöku. Þá munu lönd utan ESB, aðallega nágrannaríki þess, njóta góðs af vissum þáttum áætlunarinnar.

Næstu skref

Nú fer tillaga framkvæmdastjórnarinnar fyrir ráðið þar sem hún verður rædd af aðildarríkjunum 27. Ráðið og Evrópuþingið munu svo taka lokaákvörðun um áætlunina.

Nánari upplýsingar

http://ec.europa.eu/culture/creative-europe/index_en.htm

http://ec.europa.eu/culture/media/menntamalaraduneyti-media/media/index_en.htm

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum