Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2011 Forsætisráðuneytið

Stefnumótun í mannréttindamálum undirbúin

Innanríkisráðuneytið undirbýr nú stefnumótun á sviði mannréttindamála í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Tveir hópar móta stefnuna: Nefnd skipuð fulltrúum fagráðuneytanna sem annist meðal annars úrvinnslu ábendinga í tengslum við fyrirtöku á alþjóðlegum mannréttindasáttmálum og vettvangur sem leiðir saman fulltrúa félagasamtaka, fræðasamfélagsins og stjórnvalda.

Ráðuneytið mun í því sambandi leggja áherslu á að viðhaft verði víðtækt og markvisst samráð við aðila innan stjórnarráðsins og undirstofnana þess, sem og við hagsmunaaðila, fræðasamfélagið og frjáls félagasamtök. Áhersla verður lögð á nýja sýn varðandi mannréttindamál í samfélaginu, þ.e. ekki aðeins mannréttindavinnu á grundvelli alþjóðasamninga og stjórnarskrár heldur einnig á þá áherslu að mannréttindasjónarmið séu undirstaða allrar stefnumörkunar í samfélaginu og vinnu stjórnvalda.

Ráðuneytið hyggst í tengslum við ofangreinda vinnu efna til mánaðarlegra morgunverðafunda þar sem fjallað verður um mannréttindi í víðum skilningi. Efni þeirra funda verður bæði nýtt sem innlegg í mótun mannréttindastefnu hér á landi og til að varpa ljósi á það hvernig best verður brugðist við ábendingum varðandi framkvæmd og stöðu alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að og þróun mannréttindamála almennt hér á landi. 

Áætlun kynnt 9. desember

Lagt er til að stefnumótunarferlið hefjist með fundi föstudaginn 9. desember í tengslum við alþjóðlega mannréttindadaginn, sem er daginn eftir. Á fundinum verður kynnt áætlun ráðuneytisins um vinnu við stefnumótun í mannréttindamálum og fjallað um helstu viðfangsefni hennar. Stefnt er að því að hinni eiginlegu stefnumótunarvinnu ljúki með stefnumótunarskjali sem lagt verður fram sem þingmál á Alþingi í október 2012. Fundurinn verður nánar auglýstur síðar.

Á fundinum 9. desember verður einnig greint frá helstu niðurstöðum og ábendingum sem komu í kjölfar fyrirtöku Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála á Íslandi sem fram fór í Genf í október síðastliðnum en innanríkisráðherra leiddi sendinefnd Íslands. Þar koma fram áhyggjur alþjóðasamfélagsins af kynbundnu ofbeldi á Íslandi. Því mun fundurinn þann 9. desember næstkomandi ennfremur fjalla um samning Evrópuráðsins um bann við kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi og þær aðgerðir sem íslensk stjórnvöld þurfa að grípa til svo fullgilda megi samninginn. Fundurinn yrði þar með framlag ráðuneytisins til 16 daga átaksins gegn kynbundnu ofbeldi, en síðasti dagur þess er 9. desember.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum