Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Mál nr. 8/2011

 

Ár 2011, miðvikudaginn 26. október, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 8/2011 kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

Með bréfi dagsettu 15. ágúst 2011, sem barst yfirfasteignamatsnefnd 19. ágúst 2011, kærði Björn Jakob Björnsson hdl., fyrir hönd SMI ehf., kt. 470296-2249, til yfir­fasteigna­mats­nefndar synjun Þjóðskrár Íslands um að endurskoða fasteignamat Blikastaðavegar 2-8, Reykjavík, fyrir árin 2009 og 2010. Krafist er að yfirfasteignamatsnefnd endur­ákvarði fasteignamat eignarinnar fyrir árin 2009 og 2010.

 

Með bréfi 7. september 2011 gaf yfirfasteignamatsnefnd umboðsmanni kæranda tækifæri til að koma á framfæri nánari rökstuðningi vegna gildistíma fasteignamats og varðandi kærufrest. Lögmaður kæranda sendi yfirfasteignamatsnefnd frekari sjónarmiðum um kærufrest með bréfi 20. september 2011.

 

Með bréfi 4. október 2011 gaf yfirfasteignamatsnefnd umboðsmanni kæranda tækifæri til að koma á framfæri nánari rökstuðningi vegna kæruaðildar. Lögmaður kæranda sendi yfirfasteignamatsnefnd umboð skráðs eiganda fasteignarinnar til kæranda, dagsett 14. ágúst 2011, með bréfi 5. október 2011.

 

Málið var tekið til úrskurðar 26. október 2011.

 

Sjónarmið kæranda

Í kæru segir að Þjóðskrá Íslands hafi hinn 12. apríl 2011 hafnað að taka til endur­skoðunar fasteignamat hinnar kærðu eignar fyrir árin 2009 og 2010. Rakið er að kærandi hafi á árinu 2010 gert athugasemdir við fasteignamat fyrir árið 2011 og að loknu endurmats­ferli hafi Þjóðskrá Íslands lækkað fasteignamat eignarinnar fyrir árið 2011 úr 5.792.500.000 kr. í 3.988.000.000 kr. Með vísan til þessa telur kærandi einsýnt að þegar Þjóðskrá Íslands mat eignina í árslok 2008 hafi ekki verið staðið réttilega að mati. Kærandi telur að eignin hafi verið ofmetin vegna áranna 2009 og 2010 og hann hafi greitt of há fasteignagjöld, byggð á röngu fasteignamati fyrir þessi tvö ár.

 

Í viðbótarrökstuðningi kæranda kemur fram að nefndin eigi að taka kæruna til efnis­meðferðar þótt þriggja mánaða kærufrestur hafi verið liðinn, þegar kæran barst nefndinni vegna þess að það hafi verið afsakanlegt að kæran hafi ekki verið send fyrr og að veiga­miklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Vísað er til þess að kæranda hafi ekki verið tilkynnt um synjun Þjóðskrár Íslands, heldur aðeins Verkfræði­stofu Guðmunar G. Þórarinssonar. Þá er vísað til þess að Þjóðskrá Íslands hafi ekki leið­beint um kæruheimild. Hvað veigamiklar ástæður varðar er vísað til þess að fjárhagslegir hagsmunir kæranda séu miklir.

 

Niðurstaða

Í þessu máli var ákvörðun Þjóðskrár Íslands, um að hafna kröfu um endurmat vegna fast­eignamats fyrir árin 2009 og 2010, tilkynnt með bréfi 12. apríl 2011. Bréf þetta sendi Þjóð­skrá Íslands til Verkfræðistofu Guðmundar G. Þórarinssonar, sem hafði hinn 7. mars 2011 gert skriflegar athugasemdir fyrir hönd kæranda og óskað endurmats. Yfirfasteigna­mats­nefnd telur að þessari tilkynningu hafi réttilega verið beint til umboðsmanns kæranda, sama aðila og kom fram fyrir hönd kæranda þegar erindið var sent til stofnunarinnar. Ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 12. apríl 2011 ber hins vegar ekki með sér leiðbeiningar um kæruheimild eða kærufrest. Með vísan til þessa telur yfirfasteignamatsnefnd ekki rétt að vísa málinu frá vegna kærufrests.

 

Skv. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 6/2001 getur eigandi krafist endurskoðunar á skráðu matsverði fasteignar sinnar. Kærandi, SMI ehf., er ekki eigandi fasteignarinnar við Blikastaðaveg 2-8, Reykjavík, fnr. 229-7084. Í málinu hefur kærandi lagt fram umboð til sín frá skráðum eiganda eignarinnar, Stekkjarbrekkum ehf., kt. 701205-2510. Þótt umboð þetta hafi ekki legið fyrir í upphafi máls, þykir aðild málsins og umboð kæranda hafa verið nægilega útskýrt til að efnislega verði um málið fjallað.

 

Í þessu tilviki var krafa kæranda um endurskoðun fasteignamats vegna áranna 2009 og 2010 sett fram 7. mars 2011. Þá var skráð fasteignamatsverð eignarinnar það matsverð sem hafði tekið gildi hinn 31. desember 2010, sbr. 1. mgr. 32. gr. a. laga nr. 6/2001 um gildistíma skráðs fasteignamatsverðs. Að mati yfirfasteignamatsnefndar, með vísan til orðalags 1. mgr. 31. gr., er heimild eiganda til þess að krefjast endurskoðunar á fasteigna­mati bundin við skráð matsverð á þeim tíma sem kæra er fram sett. Heimildin nái hins vegar ekki til endurskoðunar á fasteignamati sem fallið var úr gildi þegar krafan kom fram. Þar sem fasteignamatsverð Blikastaðavegar 2-8 fyrir árin 2009 og 2010 var ekki lengur skráð matsverð eignarinnar þegar kærandi setti fram kröfu sína um endurskoðun, verður að hafna kröfu hans. Samkvæmt framangreindu ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Þjóðskrár Íslands.

 

Úrskurðarorð

 

Staðfest er ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 12. apríl 2011 um að synja um endurskoðun fasteignamats Blikastaðavegar 2-8, Reykjavík, fnr. 229-7084, fyrir árin 2009 og 2010.

 

 

Reykjavík, 26. október 2011,

 

________________________________

Jón Haukur Hauksson

 

________________________________

Inga Hersteinsdóttir

________________________________

Ásta Þórarinsdóttir 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn