Hoppa yfir valmynd
10. desember 2011 Forsætisráðuneytið

Aðbúnaður fatlaðra barna sem vistuð hafa verið á vegum opinberra aðila hér á landi verði skoðaður

Ríkisstjórnin fjallaði á fundi sínum í gær um 3. áfangaskýrslu nefndar skv. lögum nr. 26/2007 (vistheimilanefndar) um könnun á starfsemi Upptökuheimilis ríkisins og unglingaheimilis ríkisins á árunum 1945 - 1994 og meðferðarheimilisins að Smáratúni og síðar á Torfastöðum á árunum 1979-1994. Skýrslan er sú síðasta sem unnin verður samkvæmt erindisbréfi frá 11. apríl árið 2008.

Í skýrslu vistheimilanefndar kemur fram að nefndinni hafi borist ábendingar um ofbeldi í dvöl á sveitaheimilum, Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, Upptökuheimilinu Dalbraut, Vöggustofunni Hlíðarenda, vistheimilinu Kumbaravogi 1945-1956 og heimavist Laugarnesskóla, auk nokkurra annarra ábendinga sem beinast að heimavistarskólum sumardvalarheimilum, umönnun fatlaðra/þroskahamlaðra og fósturráðstöfunum. Þá barst vistheimilanefnd formlegt erindi frá Þroskahjálp varðandi rannsókn á aðbúnaði fatlaðra barna sem vistuð hafa verið á vegum opinberra aðila hér á landi.

Í skýrslu vistheimilanefndar koma fram tillögur um áframhaldandi könnun á frásögnum um illa meðferð eða ofbeldi og á fundi sínum í gær samþykkti ríkisstjórnin, að tillögu forsætisráðherra,

  1. að velferðarráðherra taki til sérstakrar umfjöllunar og meðferðar þær ábendingar sem vistheimilanefnd greinir frá í skýrslu sinni varðandi meðferð á öðrum opinberum stofnunum, sumardvalarheimilum, umönnunarheimilum, fósturheimilum og sveitaheimilum, sem verið hafa undir opinberu eftirliti, og meti og útfæri í samráði við forsætisráðherra og innanríkisráðherra m.a. hvort styrkja megi lagagrundvöll í því skyni í samræmi við ábendingar vistheimilanefndar,
  2. að nú þegar verið metið umfang hugsanlegrar rannsóknar á aðbúnaði fatlaðra barna sem vistuð hafa verið á vegum opinberra aðila hér á landi, þar sem skoðað verði hvort ofbeldi hafi verið beitt, eða fötluð börn sætt illri meðferð, á meðan á stofnanavistuninni stóð, en beiðni þar að lútandi hefur legið fyrir frá Landssamtökunum Þroskahjálp.

„Ég færi vistheimilanefnd þakkir fyrir afar viðamikil og vel unnin störf við að rannsaka aðbúnað á stofnunum hér á landi. Afar mikilvægt er að þeir sem telja sig hafa verið beittir ofbeldi fái tækifæri til þess að segja sögu sína og sækja bætur á grundvelli laga um sanngirnisbætur, sem verða nú áfram í gildi. Við ætlum okkur að halda áfram og taka næst til vandaðrar skoðunar aðbúnað fatlaðra og aðrar ábendingar sem borist hafa.“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum