Hoppa yfir valmynd
12. desember 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Úttekt á íslenskukennslu í átta framhaldsskólum

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur látið gera úttekt á íslenskukennslu í átta framhaldsskólum. Markmið úttektarinnar var að afla upplýsinga um framkvæmd íslenskukennslu í framhaldsskólum með tilliti til aðalnámskrár, námsefnis, námsgagna, menntunar kennara, árangurs nemenda, stöðu námsgreinarinnar og viðhorfa til hennar. Skýrslu um úttektina má finna á vef ráðuneytisins.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur látið gera úttekt á íslenskukennslu í átta framhaldsskólum. Úttektin er í samræmi við 3. gr. og 42. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008 og þriggja ára áætlun ráðuneytisins um ytra mat en framkvæmd úttektarinnar var í höndum Svanhildar Kr. Sverrisdóttur, Ragnheiðar Guðmundsdóttur og Sigurlínu Davíðsdóttur. Gagna var aflað með viðtölum, vettvangsathugunum og einföldum rafrænum könnunum auk þess sem notuð voru ýmis skrifleg gögn.

Markmið úttektarinnar var að afla upplýsinga um framkvæmd íslenskukennslu í framhaldsskólum með tilliti til aðalnámskrár, námsefnis, námsgagna, menntunar kennara, árangurs nemenda, stöðu námsgreinarinnar og viðhorfa til hennar. Skýrslu um úttektina má finna á vef ráðuneytisins en þar er varpað ljósi á það sem vel er gert og það sem betur má fara auk þess sem settar eru fram tillögur um hvernig bæta megi kennslu og árangur í námsgreininni.

Í skýrslunni er bent á ýmsa þætti sem telja má til styrkleika í íslenskukennslu í skólunum átta. Úttektaraðilar telja kennarana hafa sterkan faglegan grunn, segja þá jákvæða í garð starfsins og bera hag nemenda fyrir brjósti. Viðhorf stjórnenda og forráðamanna til námsgreinarinnar er einnig jákvætt. Nemendur hafa gaman af því að lesa og fjalla um ýmis bókmenntaverk og vilja gjarnan sjá tilgang með íslenskunáminu. Kennarar eru almennt meðvitaðir um mikilvægi þess að nota fjölbreyttar kennsluaðferðir og sérstaklega er tekið fram að góð frásagnargáfa kennara nýtist þeim m.a. til þess að glæða áhuga á bókmenntatexta. Aðalnámskráin hefur töluvert vægi við skipulag kennslunnar.

Úttektaraðilar gerðu ýmsar athugasemdir við framkvæmd kennslunnar og setja fram fimm megin niðurstöður þar sem fram koma tillögur til úrbóta. Í stuttu máli eru þær eftirfarandi:

Aðalnámskrá og skólanámskrá

Vekja þarf betur athygli kennara á ýmsum tilmælum aðalnámskár þar sem bent er á mikilvægi þess að íslenskukennsla snúist um fleira en að fara yfir tiltekið námsefni. Einnig þyrfti að huga að því að endurskoða áfangalýsingar námskrárinnar. Umfjöllun um kennsluaðferðir og námstilhögun í íslensku í skólanámskrá og kennsluáætlunum þyrfti að bæta og leggja áherslu á fjölbreytni og heildstæð verkefni. Í kennslunni þyrfti að leggja meiri áherslu á samræður, hlustun og leiðbeinandi framsögn. Sinna þyrfti betur nemendum með lestrarörðugleika og leggja meiri áherslu á lestur í kennslustundum. Þáttur þýddra bókmennta þyrfti að aukast. Æskilegt væri að hafa íslenskt notendaviðmót í tölvum skólans og hvetja nemendur til að nýta sér það í eigin tölvum.

Námsþættir

Gera þarf meira af því hlusta á ýmiss konar upplestur í tíma, nýta betur upplýsingatækni, hljóð- og myndefni. Einnig þyrfti að gera meira af því að fást við skapandi skrif og leggja áherslu á að ritun sé hluti af hinu daglega skólastarfi. Stafsetningarkennsla gæti nýst mörgum nemendum. Leggja þyrfti áherslu á að skapa lestrarvænt og aðlaðandi námsumhverfi í skólastofum. Handbækur þyrftu að vera sýnilegar í kennslustofunum og nemendur hvattir til að nota þær. Æskilegt væri að finna leiðir til að láta málvísindi styðja betur við bókmenntalestur og ritun.

Námsgögn

Hafa þarf lesefni aðgengilegt í kennslustofum og skapa hefð fyrir því að það sé lesið og rætt um það. Gera þyrfti þær kröfur til nemenda að þeir mættu með viðeigandi námsgögn í kennslustundir. Auka mætti fjölbreytni í flutningi hópverkefna. Ýta þyrfti undir útgáfu rafræns gagnabanka fyrir íslenskukennslu. Nemendur þyrftu að hafa meira val um námsefni og gera ráð fyrir að nemendur læsu ekki allir það sama.

Kennsluhættir

Leggja þarf áherslu á að nemendur séu virkir í kennslustundum. Gæta þarf þess að í hópvinnu fari fram markviss vinna og að allir viti til hvers ætlast er af þeim. Huga mætti að betri nýtingu kennslustunda. Leggja þyrfti meiri áherslu á skapandi og fjölbreytt verkefni. Gera þyrfti ráð fyrir aðstöðu þar sem nemendur geta geymt yfirhafnir sínar. Skilaboð kennara til nemenda í sambandi við heimavinnu þyrftu að vera skýr og þar sem gert er ráð fyrir henni þyrfti að bregðast við með markvissum hætti sé henni ekki sinnt. Námsmat þyrfti að vera fjölbreyttara.

Námskröfur, viðhorf og árangur

Til bóta væri að auka sjálfstæði nemenda í námi, veita þeim svigrúm til að velja viðfangsefni í „samræmi við hæfileika þeirra og áhugamál“, auðvelda nemendum að sjá tilgang með náminu og leggja meiri áherslu á að skapa jákvætt viðhorf þeirra til námsgreinarinnar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum