Hoppa yfir valmynd
14. desember 2011 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Rammaáætlun ESB fyrir rannsóknir og nýsköpun 2014-2020

Tillögur framkvæmdastjórnar ESB um nýja rammaáætlun fyrir rannsóknir og nýsköpun 2014-2020. Stefnt að enn markvissara samstarfi og auknum fjárframlögum til samstarfsverkefna.

Þann 30. nóvember 2011 kynnti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tillögur sínar um nýja rammaáætlun fyrir rannsóknir og nýsköpun 2014-2020, sem nefnist á ensku  Horizon 2020 –Framework Programme for Research and Innovation in the European Union“.

Markmið Horizon 2020 er að auka samkeppnishæfni Evrópu og skapa störf og stuðla að því að fleiri góðar hugmyndir komist á markað.  

Horizon 2020 endurspeglar grundvallarmarkmið Evrópu 2020 áætlunar ESB um að styðja sjálfbæran hagvöxt í Evrópu. Áætlunin verður máttarstólpi Nýsköpunarsambandsins (e. Innovation Union) sem er eitt af sjö flaggskipum ESB.

 Nýja áætlunin sameinar undir einum hatti 7. rannsóknaáætlun ESB (7RÁ), nýsköpunarhluta samkeppnisáætlunar ESB (CIP) auk þess að fjármagna Evrópsku nýsköpunar- og tæknistofnunina (EIT).

horizon 2020


Horizon 2020 skiptist í þrjár undiráætlanir eftir áhersluþáttum:


  1. Framúrskarandi rannsóknir (e. Excellent Science)


    Áætlunin mun stuðla að framúrskarandi rannsóknum í Evrópu með því að styðja bestu hugmyndirnar, veita evrópskum vísindamönnum tækifæri til að þróa hæfileika sína, byggja upp og styrkja rannsóknarinnviði á heimsmælikvarða og auka aðdráttarafl Evrópu sem valkost alþjóðlegra vísindamanna.

    Áætlunin skiptist í:
    • Styrki á vegum Evrópska rannsóknaráðsins
    • Stuðning við framtíðartækni
    • Styrki til þjálfunar, starfsþróunar og hreyfanleika ungs vísindafólks (Marie Curie styrkir)
    •  Stuðning við rannsóknarinnviði í Evrópu

  2. Samkeppnishæfur iðnaður (e. Industrial Leadership)


    Áætlunin mun efla markaðsdrifnar rannsóknir og nýsköpun. Markmiðið er að hraða tækniþróun til uppbyggingar framtíðarfyrirtækja, að stuðla að frekari fjárfestingum í rannsóknum og nýsköpun og aðstoða lítil og meðalstór fyrirtæki við að verða leiðandi á alþjóðamarkaði.

    Áætlunin skiptist í:
    • Forysta í tækniþróun.
    • Nýsköpun í litlum og meðalstórum fyrirtækjum.
    • Aðgangur að áhættufjármagni

3. Betra samfélag (e. Societal Challenges)

Áætlunin mun styrkja rannsóknir með það að markmiði að auka þekkingu á mismunandi sviðum vísinda. Áhersla verður lögð á að koma niðurstöðum rannsókna á markað með stuðningi við tilraunaverkefni, opinber innkaup og markaðssetningu nýsköpunar.

Áætlunin skiptist niður í eftirtalin svið:


  1. Heilbrigði og lýðheilsa.
  2. Fæðuöryggi, sjálfbær landbúnaður, sjávarrannsóknir og líftækni.
  3. Orka.
  4. Samgöngur.
  5. Loftlagsmál, auðlindir og hráefni.
  6. Samfélög framtíðar.

 Að auki mun Horizon 2020 fjármagna Evrópsku nýsköpunar- og tæknistofnunina (EIT) og Sameiginlegu rannsóknamiðstöðina (e. Joint Research Centre, JRC).

 

Evrópska nýsköpunar- og tæknistofnunin (EIT)

EIT, sem stofnuð var árið 2008, mun gegna lykilhlutverki við að leiða saman háskóla í fremstu röð, rannsóknastofnanir og atvinnulíf í þekkingarþríhyrning á heimsmælikvarða og mennta frumkvöðla. EIT hefur þegar sett upp þrjá s.k. þekkingar- og nýsköpunarklasa (KIC) um loftlagsbreytingar, sjálfbæra orkuframleiðslu og upplýsingatækni og stefnt er að því að setja upp sex til viðbótar á tímabilinu 2014-2020, sem enn sem komið er hafa einungis ensk heiti:  Healthy Living, Raw Materials, Food for the Future, Urban Mobility, Added Value Manufacturing and Smart Secure Societies. Framkvæmdastjórnin hefur kynnt áherslur sínar fyrir EIT til næstu ára þar sem markmiðið er að skapa aðstæður fyrir stofnun 600 nýrra fyrirtækja og styðja við menntun og þjálfun um 25.000 nemenda og 10.0000 doktorsnema fyrir árið 2020.

 

Sameiginlega rannsóknamiðstöðin (JRC)

JRC, mun vera hluti af Horizon 2020 og er ætlað að styðja við stefnumótun ESB á sviði rannsókna og nýsköpunar.

Evrópska rannsóknasvæðið (ERA)

Horizon 2020 mun jafnframt stuðla að því að Evrópska rannsóknasvæðið verði að einu markaðssvæði rannsókna og nýsköpunar.

Euratom

Kjarnorkuáætlunin Euratom 2014-2018 verður áfram sértök ára áætlun utan við Horizon 2020. 1.58 milljörðum evra verður varið til Euratom. 

Fjármagn og innleiðing

Framkvæmdastjórnin hefur lagt til að 80 milljörðum evra verði varið til áætlunarinnar sem er um 46% aukning frá núverandi áætlunum (7 RÁ og CIP)

Horizon 2020 80 milljarðar evra
1. Framúrskarandi rannsóknir

24.6 milljarðar evra

Þar af:

13.2 milljarðar evra til Evrópska rannsóknaráðsins (sem er 77% aukning)

3.1 milljarðar evra í tækniþróun

5.75 milljarðar evra (sem er 21% aukning) til Marie Curie og

2.4 milljarðar evra í evrópska rannsóknainnviði.

2. Samkeppnishæfur iðnaður

17.9 milljarðar evra

Þar af:

13.7 milljarðar evra í lykiltækni

3.5 milljarðar evra í nýjum sjóðum eða aðgang að áhættufjármagni

 

Horizon 2020 mun í heild leggja um 8.6 milljarðar evra til lítilla og meðalstórra fyrirtækja

3. Betra samfélag (6 svið)

1.   Heilbrigði og lýðheilsa

2.   Fæðuöryggi, sjálfbær landbúnaður, sjávarrannsóknir og

3.   Orka

4.   Samgöngur

5.   Loftlagsmál, auðlindir og hráefni

6.   Samfélög framtíðar

31.7 milljarðar evra

8 milljarðar evra

4.1 milljarðar evra

 

5.7 milljarðar evra

6.8 milljarðar evra

3.1 milljarðar evra

3.8 milljarðar evra

Evrópska nýsköpunar- og tæknistofnunin (EIT) 2.8 milljarðar evra
Sameiginlega rannsóknamiðstöðin (JRC) 1.9 milljarðar evra

 

Helstu nýjungar:

Áætluninni er ætlað að verða einfaldari og aðgengilegri en núverandi áætlanir og styðjast við eitt samræmt en þó sveigjanlegt regluverk. Hægt verður að sækja um stuðning fyrir hvert stig í nýsköpunarferlinu allt frá grunnrannsóknum til markaðssetningar. Gert er ráð fyrir að umsækjendur geti fengið allar upplýsingar og aðstoð á einum stað. Stefnt er að færri úttektum og að styrkumsóknir verði afgreiddar innan 100 daga frá umsókn.

Leitað hefur verið leiða að samhæfa Horizon 2020 og Samheldnistefnu ESB (e. Cohesion policy). Horizon 2020 mun styðja öndvegissetur á svæðum sem þurfa að bæta frammistöðu sína á sviði rannsókna og nýsköpunar og stoðkerfissjóðir ESB mun styrkja innviði og tækjabúnað.

Helstu áfangar

  • Í júní 2010 var stefnumörkunin Evrópa 2020 samþykkt.
  • Í október 2010 var Nýsköpunarsambandið, sem er eitt af flaggskipum Evrópu 2020, kynnt til sögunnar.
  • Í nóvember 2010 voru niðurstöður áfangamats á 7. rannsóknaáætluninni birtar.
  • Í febrúar 2011 birti framkvæmdastjórnin grænbókina „Towards a Common Strategic Framework“.
  • Í júní 2011 kynnti framkvæmdastjórnin nýjan fjárhagsramma fyrir 2014-2020

Horizon 2020 er opin fyrir þátttöku aðildarríkjanna 27, umsóknarríkja, samstarfsríkja þ.m.t. Íslands, Noregs og Liechtenstein, auk þriðju ríkja.

Næstu skref

Nú fer tillaga framkvæmdastjórnarinnar fyrir ráðið þar sem hún verður rædd af aðildarríkjunum 27. Ráðið og Evrópuþingið munu svo taka lokaákvörðun um áætlunina fyrir árslok 2013.

Framkvæmdastjórnin mun kynna tillögur sínar á næstu misserum. Þann 5. desember var fyrsta nýsköpunarþingið haldið í Brussel og 6. desember var Horizon 2020 kynnt fyrir ráðherrum vísinda- og samkeppnismála.


Nánari upplýsingar:



 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum