Hoppa yfir valmynd
15. desember 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Unnið að endurbótum vegna samninga velferðarráðuneytisins

Ýmislegt hefur áunnist sem miðar að því að bæta samningsgerð og umgjörð hennar þegar kemur að þjónustusamningum á vegum velferðarráðuneytisins. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins til Ríkisendurskoðunar sem óskaði í haust eftir upplýsingum um framkvæmd, eftirlit og eftirfylgni með þjónstusamningum þess.

Að fengnum upplýsingum  hefur Ríkisendurskoðun sent frá sér skýrslu vegna samninga sem ráðuneytið og undirstofnanir þess hafa gert. Alls er fjallað um 37 samninga í skýrslunni. 

Velferðarráðuneytið er í aðalatriðum sammála ábendingunum og telur að þær muni nýtast vel við greiningu og endurbætur á fyrirkomulagi og verklagi vegna samningamála ráðuneytisins. Áfram er unnið að því að færa samningsgerð og umgjörð hennar til betri vegar.

Meðal þess sem Ríkisendurskoðun gagnrýnir er að ákvæði um eftirlit með samningum og verkaskipting eftirlitsaðila séu víða óljós og að ekki sé ávallt unnið í samræmi við slík ákvæði.  Bent er á að ekki séu gildir samningar um öll verkefni sem ráðuneytið greiði fyrir. Ljúka þurfi gerð verklagsreglna um gerð og umsýslu samninga og bæta yfirsýn um þá.

Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að í samningum komi skýrt fram að hverju sé stefnt og hvernig eigi að meta árangur. Ákvæði um slík atriði séu víða í samningum sem velferðarráðuneytið og undirstofnanir þess hafa gert en þau þurfi að samræma og tryggja þurfi eftirfylgni með þeim. Enn fremur telur stofnunin að tengja eigi greiðslur við árangur eða frammistöðu verksala. Loks þurfi að móta reglur um úttekir á framkvæmd samninga og endurskoðun þeirra á samningstíma og fylgja þeim eftir.

Stefnumótun nýs ráðuneytis

Velferðarráðuneytið bendir í svarbréfi til Ríkisendurskoðunar á að unnið er að stefnumótun fyrir nýtt ráðuneyti velferðarmála, sem stofnað var í byrjun þessa árs og sameinaðist undir einu þaki í apríl sl. Innleiðing gæðastjórnunar er hluti af þeirri vinnu sem m.a. felur í sér gerð verklagsreglna um samninga.  Unnið er að því að finna tæknilegar leiðir til að fylgjast með samningum.

Sett var á fót verkefnisstjórn sem farið hefur yfir eftirlit með allri velferðarþjónustu og metið fýsileika þess að setja á fót sérstaka starfseiningu sem eingöngu sinni eftirliti.  Verkefnisstjórnin hefur þegar skilað ráðherra tillögum til úrbóta.

Ráðuneytið hefur lagt áherslu á að samningar byggist á kröfulýsingu til að tryggja betur þjónustukaup og eftirlit með þeim. Á grundvelli þeirra er mögulegt að gera formlegar úttektir hvenær sem er, áður en samningur kemst á, á samningstíma eða í  lok hans. Niðurstöður úttektanna eru notaðar til að laga það sem betur má fara.

Í september 2008 var Sjúkratryggingastofnun sett á fót sem var ætlað veigamikið hlutverk við samningsgerð og umsjón og eftirlit með þjónustusamningum um heilbrigðisþjónustu. Enn er unnið að því að móta vinnuferli vegna samstarfs SÍ og ráðuneytis vegna samningsgerðar, tengsla hennar við stefnumótun og eftirlit með samningum.

Um mitt síðasta ár var sett reglugerð um samninga um heilbrigðisþjónustu sem veitt er utan heilbrigðisstofnana sem ríkið rekur. Markmið reglugerðarinnar er að tryggja samræmd vinnubrögð, auka skilvirkni, hagkvæmni og gæði við undirbúning, gerð, framkvæmd, eftirlit og endurnýjun samninga á sviði heilbrigðisþjónustu.  
Ráðuneytið stefnir á að nýta ábendingar og þá vinnu við úrbætur sem stendur yfir til að móta skýra stefnu um gerð samninga, framkvæmd og eftirfylgni með þeim.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum