Hoppa yfir valmynd
16. desember 2011 Matvælaráðuneytið

Ríkið og HS Orka hf. undirrita viljayfirlýsingu varðandi samningaviðræður um nýtingu jarðhitaréttinda

 

Í janúar sl. fól ríkisstjórnin fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra að hefja viðræður við Reykjanesbæ og HS Orku hf. um endurskoðun á leigutíma nýtingarréttar jarðhitaauðlinda á Reykjanesi. Þær auðlindir eru í landi jarðanna Kalmanstjarna og Junkaragerðis, en HS Orka nýtir einnig jarðhitaauðlindir í aðliggjandi landi jarðarinnar Staðar, sem er í ríkiseigu.

Sem kunnugt er festi ríkissjóður kaup á hlut Reykjanesbæjar í jarðhitaauðlindum og landi Kalmanstjarnar og Junkaragerðis í sl. mánuði, en þar með eru allar jarðhitaauðlindir á svæðinu í eigu ríkisins. Þeir kaupsamningar voru af hálfu ríkisins gerðir með fyrirvara um samþykki Alþingis um fjárveitingar og af hálfu Reykjanesbæjar með fyrirvara um samþykki stjórnar HS Orku. Þeim fyrirvörum hefur nú verið aflétt og kaupin því staðfest.  

Fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra undirrituðu í dag viljayfirlýsingu milli ríkisins og HS Orku hf., þar sem gert er ráð fyrir að aðilar hefji samningaviðræður um nýtingu jarðhitaréttinda á umræddu svæði, sem taki jafnframt til endurskoðunar gildandi samninga. Er stefnt að því að samningum verði lokið eigi síðar en 1. júlí 2012.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum