Hoppa yfir valmynd
19. desember 2011 Matvælaráðuneytið

16 verkefni fá styrk úr Vaxtarsamningi Suðurnesja

Önnur úthlutun úr Vaxtarsamningi Suðunesja fór fram nýverið og óhætt er að segja að fjölbreytni verkefnana sem hlutu stuðning sé mikil - vinnsla á lífrænt ræktuðum þörungum,
flugvélamálun og stofnun eldfjallagarðs á Reykjanesi svo að fátt eitt sé talið. Markmiðið með Vaxtarsamningi iðnaðarráðuneytisins og Atvinnuþróunarráðs sveitarfélaga á Suðurnesjum er að efla samkeppnishæfni atvinnulífsins og nýsköpun á Suðurnesjum. 

Fyrr góðu ári síðan gerðu Iðnaðarráðuneytið og Atvinnuþróunarráð sveitarfélaga á Suðurnesjum með sér Vaxtarsamning með það að markmiði að efla samkeppnishæfni
atvinnulífsins og nýsköpun á Suðurnesjum. Byggt er á hugmyndafræði klasa enda er eitt af markmiðum vaxtarsamninga um land allt að stofna til og efla klasasamstarf til uppbyggingar atvinnulífs og nýsköpunar. Í fyrstu úthlutun fyrir tæpu ári síðan voru 15 verkefni styrkt og öll byggðu þau verkefni á klasasamstarfi. Verkefnin voru af margvíslegum toga, rannsóknarverkefni, ferðaþjónustuverkefni, verkefni tengd flugstarfsemi og sjávarútvegi svo
eitthvað sé nefnt. All flest hafa verkefnin lokið eða eru um það bil að ljúka þeim verkþáttum sem samningur var gerður um í kjölfar úthlutunar. Í nokkrum þessara verkefna hefur þróunin orðið sú að fyrirtækjum hefur fjölgað sem vilja vera þátttakendur í klasa viðkomandi verkefnis, þannig virkar klasinn best, fleiri fyrirtæki eru virkir þátttakendur, stuðningur við verkefnið verður öflugra og verkefni þróast af festu og öryggi. Fyrirtækin í klasanum geta átt í harðri samkeppni sín á milli en koma hver með sína þekkingu að þróun
einstakra verkefna sem klasinn ákveður að vinna sameiginlega að.

Í annað sinn var auglýst eftir styrkhæfum verkefnum í október sl. 40 umsóknir bárust og er
nú tilkynnt um 16 verkefni sem hljóta stuðning Vaxtarsamnings. Sótt var um verkefnastyrki að fjárhæð kr. 127.856.- milljónir króna. Úthlutað er nú 22,1milljónir króna.  Áætlað heildarverðmæti verkefnanna að mati þátttakenda sjálfra eru 318,9 millj. Eins og áður er sótt til fjölbreyttra verkefna.

Eftir farandi verkefni hljóta styrk að þessu sinni.

Nr. 1. MYR design

Fyrirtækið framleiðir eigin vörulínu í fatnaði og fylgihlutum. Verkefnið lýtur að því að styrkja
markaðssetningu fyrirtækisins í Austurríki. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 500 þúsund.

Nr. 2. Framleiðsla á omega 3 fitusýrum á Reykjanesi.

Verkefnið snýr að þróun og síðar uppsetningu á framleiðslueiningu á Reykjanesi í samstarfi við erlenda samstarfsaðila Matorku. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 500 þúsund.

Nr. 3. Keflavík Music Festival.

Hugmyndin með verkefninu er að setja á laggirnar tónlistarhátíð á Ásbrú. Hátíðin verður
markaðssett erlendis jafnt og á Íslandi. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 500 þúsund.

Nr. 4. Endurnýting fisksalts í hálkuvarnarsalt.

Verkefnið lýtur að rannsóknum og tilraunum á að hreinsa og endurnýta fisksalt með það að markmiði að nýta það sem hálkuvarnarsalt. Verkefnið lýtur styrk að fjárhæð kr. 800 þúsund.

Nr. 5. Reykjanes Culture & Design Tours.

Verkefnið lýtur að því að bjóða erlendum ferðamönnum upp á menningar- og hönnunartengdar verslunarferðir fyrir einstaklinga og hópa og kynna fyrir þeim íslenska
menningu, hönnun, handverk og listir. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 800 þúsund.

Nr. 6. Aircraft Asset Management

Verkefnið lýtur að sérhæfingu á heildarlausn í eigna- og verðmætastýringu fyrir flugvélaeigendur með flugvélar sem lokið hafa líftíma sínum. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1 milljón.

Nr. 7. Hagræn förgun á sorpbrennsluösku

Verkefninu er ætlað að skoða og greina nýja valkosti við förgunarlausnir óbrennanlegra afurða sorpbrennslustöðvar. Verkefnið fékk styrk úr Vaxtarsamningi á sl. ári og er hér um framhald að ræða. Verkefnið hlytur styrk að fjárhæð kr. 1 milljón.

Nr. 8. Research on a variety of seaweed species and their extracts obtained from Suðurnes, for use in certified organic health and skin care products.

Verkefnið lýtur að nýtingu og vinnslu á lífrænt vottuðum þörungum til notkunar í heilsu- og
húsvörum. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1 milljón.

Nr. 9. Sjóstangaveiði á Suðurnesjum.1

Verkefni þetta lýtur að vetrarferðamennsku. Í byrjun er ætlunin að gera út einn bát á Suðurnesjum, frá Sandgerði, Grindavík eða Reykjanesbæ eftir því hvaða höfn hentar best hverju sinni. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1 milljón.

Nr. 10. Umsókn um styrk til uppbyggingar á Auðlindagarði sem vinnur úr afurðum sem tengjast jarðvarma.

Verkefnið lýtur að styrkumsókn til sjöundu rammaáætlunar Evrópusambandsins. Þar verður sótt um styrk til þess að koma á fót skilgreindum Auðlindagarði, sem yrði öndvegissetur í fjölnýtingu afurða úr jarðvarma. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1,5 milljón.

Nr. 11. Hagræn nýting fiskislógs á Suðurnesjum.

Víða er förgun á fiskslógi orðið umhverfislegt vandamál, fyrirtæki standa frammi fyrir untalsverðum flutnings- og förgunarkostnaði. Því er þörf á hentugri lausn á nýtingu slógs til mjöls og lýsisgerðar. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 2 milljónir.

Nr. 12. Kynningarátak á vörum í Whole Foods Marked.

Verkefnið lýtur að markaðsátaki í Bandaríkjunum þar sem fyrirtækið Hafnot ehf hefur komið vörum sínum Söl og Hrossaþara í verslanir Whole Foods Marked verslunarkeðjunnar í Bandaríkjunum. . Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 2 milljónir.

Nr. 13. Flugvirkjabúðir.

Verkefnið lýtur að því að byggja upp alþjóðlegt nám í flugvirkjun við flugakademíu Keilis. Verkefnið hefur verið styrkt af Vaxtarsamningi og er hér sótt um öðru sinni til áframhaldandi þróunar starfseminnar og markaðsvinnu. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 2 milljónir.

Nr. 14. Flugvélamálun

Verkefnið lýtur að málun flugvéla stórra sem smárra. Sambærileg þjónusta er ekki til staðar á
Íslandi og hafa því íslensk flugfélög sótt þjónustuna til annarra landa. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 2 milljónir.

Nr. 15. Grjótkrabbi – rannsóknir og vinnsla á Suðurnesjum.

Verkefnið gengur út á veiðar, vinnslu og markaðssetningu á grjótkrabba sem er ný tegund hér við land en er þekkt nytjategund við NA strönd Ameríku. Um framhaldsumsókn er að ræða. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 2,5 milljónir.

Nr. 16. Eldfjallagarður á Reykjanesi

Verkefnið lýtur að því að koma jarðminjum á framfæri, vernda þær og stuðla að sjálfbærri efnahagslegri þróun með því meðal annars að þróa jarðferðamennsku og eldjallagarð. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 3 milljónir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum