Hoppa yfir valmynd
22. desember 2011 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttabréf stjórnenda ríkisstofnana 22. desember 2011

Kynjuð fjárlagagerð
Kynjuð fjárlagagerð

Kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð


Kynjuð fjárlagagerðKynjuð hagstjórn og fjárlagagerð (KHF) er eitt af þeim stjórntækjum sem hefur verið að ryðja sér til rúms á undanförnum áratugum. Ísland hóf formlegt innleiðingarferli árið 2009 en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna er kveðið á um að kynjuð hagstjórn skuli höfð að leiðarljósi við fjárlagagerð og efnahagsstjórn. Með KHF hafa stjórnendur betri upplýsingar um hvaða áhrif aðgerðir þeirra hafa og eru þar af leiðandi betur í stakk búnir til að taka upplýstar ákvarðanir í samræmi við stefnu sína og markmið.

Greiningar sem gerðar hafa verið erlendis á áhrifum niðurskurðar á kyn leiða í ljós að niðurskurðaraðgerðir bitna með ólíkum hætti á konum og körlum og hætt er við að kynjamisrétti aukist í kreppu. Það er þróun sem æskilegt er að reyna að koma í veg fyrir með öllum tiltækum ráðum, enda hefur verið sýnt fram á að jafnrétti er grundvallarþáttur í velferð samfélaga.

Á árunum 2010-2011 voru unnin tilraunaverkefni í KHF hjá öllum ráðuneytum og við erum því komin áleiðis í að byggja upp reynslu og þekkingu varðandi hvernig hægt er að beita KHF sem verkfæri. Niðurstöður eða áfangaskýrslur verkefnanna voru kynntar í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012. Meðal verkefna voru úttekt á atvinnuleysisbótum og virkniúrræðum Vinnumálastofnunar. Þá voru biðlistar í hjartaþræðingar og liðskiptaaðgerðir á mjöðm og hné hjá Landspítalanum skoðaðir út frá aðferðum KHF, sem og meðferðarúrræði Barnaverndarstofu og kynjaáhrif millifæranleika persónuafsláttar. Einnig voru nokkur verkefni sem miðuðu að styrkjaúthlutunum og sjóðum. Niðurstöðurnar leiða í ljós margvíslegan kynjamun sem vert er að skoða nánar. Niðurstöðurnar má nálgast í fjárlagafrumvarpi ársins 2012 og á nýjum vef fjármálaráðuneytisins um KHF á slóðinni http://www.fjarmalaraduneyti.is/verkefni/kynjud_fjarlagagerd.  

Þann 27. apríl síðastliðinn samþykkti ríkisstjórnin þriggja ára áætlun um innleiðingu KHF. Stærsti liðurinn í áætluninni er að hvert og eitt ráðuneyti vinni með einn meginmálaflokk samkvæmt aðferðum KHF næstu þrjú árin. Málaflokkarnir sem ráðuneytin völdu eru:

  • Forsætisráðuneytið: Mat á jafnréttisáhrifum stjórnarfrumvarpa
  • Innanríkisráðuneytið: Gjafsóknir og önnur opinber réttaraðstoð
  • Velferðarráðuneytið: Málefni aldraðra
  • Fjármálaráðuneytið: Greining á kynjaáhrifum virðisaukaskattkerfisins
  • Iðnaðarráðuneytið: Styrkjaúthlutun úr sjóðum iðnaðarráðuneytis sem ætlað er að styðja við atvinnulíf og nýsköpun
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið: Háskólar og rannsóknir, sérstaklega rannsóknasjóðir þar sem samkeppni er um fé og umgjörð þeirra
  • Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið: Búnaðarsamningar
  • Umhverfisráðuneytið: Loftslagsmál og kynjaáhrif þeirra, bæði með tilliti til hlýnunar loftslags og annarra þátta
  • Utanríkisráðuneytið: Þróunarsamvinna
  • Efnahags- og viðskiptaráðuneytið: Efnahagsmál


Um þessar mundir er unnið að verkáætlunum fyrir meginmálaflokkana. Að þeim loknum hefst greiningarvinnan og fyrstu áfangaskýrslurnar verða tilbúnar í júní. Gerð verður grein fyrir framvindunni árlega í fjárlagafrumvarpinu. Fjármálaráðuneytið býður upp á kynningar á KHF. Hægt er að bóka kynningu hjá Katrínu Önnu Guðmundsdóttur verkefnisstýru hjá fjármálaráðuneytinu.

Myndin hér ofar var tekin á verkefnisstjórnunarnámskeiði sem var haldið nú í desember fyrir þau sem koma að vinnu við meginmálaflokkana.

Forstöðumannakönnun


Um þessar mundir stendur fjármálaráðuneytið ásamt Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands og Félagi forstöðumanna ríkisstofnana, fyrir endurtekningu á könnun meðal forstöðumanna ríkisstofnana sem fór fram árið 2007.

Markmið fyrirlagnarinnar er að fá upplýsingar um stöðu, starfsskilyrði og kjör forstöðumanna. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands sér um framkvæmd könnunarinnar.

Þátttaka forstöðumanna er mjög mikilvæg til að niðurstöður verði áreiðanlegar. Niðurstöðurnar munu veita dýrmætar upplýsingar sem munu nýtast við mótun áherslna í starfsmannamálum og við þróun stjórnunaraðferða hjá ríkinu. Könnunin hefur einnig fræðilegt gildi á sviði opinberrar stjórnsýslu. Spurt er um flesta þá þætti er snerta verkefni stjórnenda og því geta spurningalistarnir veitt gagnlega yfirsýn yfir stöðu þeirra.

Fjármálaráðuneytið vonast eftir jákvæðum undirtektum og hvetur forstöðumenn til þess að gefa sér tíma og svara könnuninni.

Dagur gegn einelti, þátttaka fjármálaráðuneytisins


Þann 8. nóvember síðastliðinn stóð Verkefnisstjórn í aðgerðum gegn einelti að sérstökum degi gegn einelti. Verkefnisstjórnin samanstendur af fulltrúum fjármálaráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis, og var hún skipuð í kjölfarið á útgáfu greinargerðar um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum sem kom út í júní 2010.

Í tilefni dagsins var undirritaður þjóðarsáttmáli um jákvæð samskipti. Forsætisráðherra er verndari átaksins. Velferðarráðherra, fjármálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra undirrituðu sáttmálann fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og Jón Gnarr borgarstjóri fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Ennfremur eru fjöldi félaga og samtaka aðilar að samningnum. Við undirritunina í Höfða voru einnig afhent gul armbönd sem gerð hafa verið í tilefni dagsins og bera yfirskriftina: Jákvæð samskipti.

Þjóðarsáttmáli um baráttu gegn einelti
Við undirrituð skuldbindum okkur til þess að vinna af alefli og einurð gegn einelti í samfélagi okkar. Við munum standa vörð um rétt fólks til þess að lifa í sátt og samlyndi við umhverfi sitt. Við munum sérstaklega gæta réttar barna og ungmenna sem og einnig allra hópa sem ekki eiga sér málsvara eða sterka rödd. Við munum öll, hvert á okkar sviði, skuldbinda okkur til þess að hafa áhrif til góðs á nánasta umhverfi okkar. Við ætlum að vera góð fyrirmynd og leggja okkar af mörkum til þess að vinna bug á því samfélagslega böli sem einelti er.

Einelti spyr ekki um aldur, þjóðfélagshópa eða kyn og það þrífst einfaldlega allsstaðar þar sem það er látið viðgangast. Ábyrgð okkar allra er því mikil og það er í okkar höndum að vinna bug á þessu þjóðfélagsmeini. Það er ekki flókið ef allir taka höndum saman og sammælast um ákveðna sátt, þjóðarsáttmála um jákvæð samskipti. Hér er hægt að skrifa undir Þjóðarsáttmálann.

Starfsmannaskrifstofa fjármálaráðuneytisins hefur í fræðslu sinni gegn einelti lagt ríka áherslu á ábyrgð stjórnenda á að skapa vinnustaðamenningu sem einkennist af gagnkvæmri virðingu og góðum starfsháttum þar sem einelti líðst ekki. Það er stefna fjármálaráðuneytisins að vinna áfram að fræðslu til stofnana um forvarnir gegn einelti.

Umbætur í ríkisrekstri – vefsíða


Fjármálaráðuneytið gegnir lykilhlutverki þegar kemur að umbótamálum er snerta ríkisreksturinn. Það felst m.a. í umsýslu ýmissa aðferða og tækja sem notuð eru til að gera ríkisreksturinn skilvirkari og hagkvæmari og má hér nefna sem dæmi árangursstjórnun og opinber innkaup.

Umbótaverkefnin innan Stjórnarráðsins eru hins vegar mörg og leidd af mismunandi ráðuneytum eftir eðli verkefna, t.a.m. færðist fyrir skömmu umsýsla upplýsingatæknimála frá forsætisráðuneytinu yfir í innanríkisráðuneytið. Til að ná betur utan um þessi umbótaverkefni, tengiliði, nýlegar úttektir og skýrslur hefur verið settur upp vefur undir heitinu Umbætur í ríkisrekstri. Fjármálaráðuneytið hefur umsjón með vefnum og er honum ætlað að veita upplýsingar um hin ýmsu umbótaverkefni sem nú eru í framkvæmd eða í burðarliðnum. Pétur Berg Matthíasson er tengiliður ráðuneytisins í þessu verkefni.

Árangursstjórnun – endurbætt vefsíða


Vinnuhópur um árangursstjórnun, skipaður fulltrúum frá Félagi forstöðumanna ríkisstofnana og ráðuneytum skilaði af sér tillögum um nýjan ramma um árangursstjórnunarsamninga í lok árs 2010.  Lagði vinnuhópurinn til að gerðar yrðu ákveðnar breytingar á fyrirkomulaginu með það að markmiði að árangursstjórnun verði gerð að öflugra samskiptatæki ráðuneyta og stofnana.

Í byrjun árs tók fjármálaráðuneytið út stöðu og framkvæmd árangursstjórnunar innan Stjórnarráðsins. Niðurstöður þeirrar úttektar leiddu í ljós að frá því árangursstjórnun var fyrst tekin upp hefur mörgu verið áorkað hvað varðar innleiðingu nútíma stjórnunaraðferða og hugsunarháttar. Margar stofnanir gera árlega áætlanir, setja sér markmið, forgangsraða og mæla árangur.  Það hefur m.a. sýnt sig í viðbrögðum stofnana í kjölfar efnahagshrunsins, þegar þær þurftu að skera niður, forgangsraða upp á nýtt, leita nýrra leiða til að halda uppi þjónustu o.s.frv.  Hins vegar mætti framkvæmdin af hálfu ráðuneyta vera betri, þ.e. gerð samninga, eftirfylgni þeirra og samskipti við stofnanir um stefnu og áherslur.

Niðurstöður úttektarinnar má finna á endurbættum vef um árangursstjórnun ásamt upplýsingum um áherslur til ársins 2015, upplýsingum um tengiliði vegna árangursstjórnunar o.fl.  Með endurbættum vef er ætlunin að styðja betur við árangursstjórnunarfyrirkomulagið og er honum ætlað að vera upplýsingagátt fyrir bæði ráðuneyti og stofnanir.

Nýtt efni á vef fjármálaráðuneytisins


Nokkrar breytingar urðu á ákvæðum kjarasamninga í síðustu samningum auk þess sem samið var um ný ákvæði. Sum þessara ákvæða hafa þegar tekið gildi en önnur taka gildi á næsta ári. Fjármálaráðuneytið mun á næstunni setja skýringar vegna þessa inn á vef ráðuneytisins og uppfæra efni á síðunni Spurt og svarað.

  • Umfjöllun um frí í stað yfirvinnu, oftast grein 2.3.8., hefur verið uppfærð á síðunni Spurt og svarað.
  • Þegar eru farnar að berast fyrirspurnir um þær breytingar sem gerðar voru á ákvæði um endurmenntun/framhaldsnám í kjarasamningum Bandalags háskólamanna svo og kjarasamningum Stéttarfélags verkfræðinga, Kjarafélags Tæknifræðingafélags Íslands og Lyfjafræðingafélags Íslands. Greinin breytist 1. júlí 2012 og verða settar leiðbeiningar vegna þessa á vefsíðuna á næstunni.
  • Í mars 2012 breytist grein 2.6.9 um matar- og kaffitíma vaktavinnumanna og ný grein um fæðisfé vaktavinnumanna tekur gildi. Settar verða leiðbeiningar vegna þessa á vefsíðu ráðuneytisins.

Frá félagi forstöðumanna

Traust, undirstaða góðra samskipta


Undanfarið hefur mikið verið fjallað um mikilvægi þess að borgararnir geti treyst stjórnsýslunni á Íslandi og hve skaðlegt það er þegar skortur er á trausti. Við stjórnendur í opinberum rekstri þurfum að gæta að trausti frá ýmsum hliðum. Er okkur t.d. treyst sem stjórnendum, treystum við starfsfólki okkar, treystir starfsfólkið okkur, treystum við ráðuneyti okkar og  ekki síst, treystir almenningur stofnununum okkar. Allir vita að traust er ekki hægt að kaupa heldur er það eitthvað sem hægt er að  ávinna sér og þar koma nokkur lykilatriði við sögu eins og heilindi, fyrirætlanir, hæfni og árangur.

Til þess að vinna traust og ekki síst að halda því þarf að hafa heilindi í hávegum en það vísar til þess fyrir hvað við stöndum. Heilindin birtast t.d. í viðhorfum, aðgerðum og hugrekki til að verja sett gildi þegar á reynir. Fyrirætlanir skipta einnig miklu og afar mikilvægt er að við séum tilbúin að gæta hagsmuna annarra til jafns við okkar eigin. Þá skiptir hæfni stjórnenda og starfsmanna miklu því á endanum er það árangurinn sem sker úr um það hvort við erum traustsins verð. Það er semsagt ekki nóg að segjast ætla að gera hlutina ef við gerum svo ekkert á endanum.

Í samskiptum er mikilvægt að traust ríki milli aðila en ekki er nóg að annar aðilinn sé traustsins verður. Því miður er staðan sú um þessar mundir að traust virðist hafa minnkað mikið á milli forstöðumanna ríkisstofnana og Kjararáðs sem á að vera hlutlaus aðili við að ákvarða laun þeirra. Ástæður þessa eru ýmsar s.s. miklar tafir á afturköllun tímabundinna launalækkana sem ákvarðaðar voru með sérstökum lögum með gildistíma til 1. desember 2010. Því fyrr sem hafist er handa við að byggja aftur upp traust á milli þessara aðila, því betra. Til þess þarf Kjararáð að láta verkin tala

Magnús Guðmundsson
formaður Félags forstöðumanna ríkisstofnana

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum