Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2012 Innviðaráðuneytið

Rætt um tólf ára og fjögurra ára samgönguáætlanir daglangt á Alþingi

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra mælti á Alþingi í dag fyrir tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun 2011 til 2022 og 2011 til 2014. Hóf hann mál sitt um klukkan 11 og að lokinni framsöguræðu tóku fjölmargir þingmenn til máls og stóð umræðan fram á kvöld með hléum.

Samgönguáætlanir voru ræddar á Alþingi í dag.
Samgönguáætlanir voru ræddar á Alþingi í dag.

Ráðherra lýsti í upphafi ræðu sinnar hvernig staðið hefði verið að undirbúningi við gerð áætlunarinnar. Tólf ára áætlunin er stefnumarkandi samgönguáætlun fyrir árin 2011–2022 en hin er verkefnaáætlun fyrir árin 2011-2014 sem er hluti af og innan ramma stefnumarkandi áætlunarinnar. Þá fór ráðherra yfir helstu áherslubreytingar frá tillögu að síðustu tólf ára samgönguáætlun sem eru eftirfarandi:

  • Markmið um hámark ferðatíma til höfuðborgarsvæðisins er lagt til hliðar. Áhersla er lögð á styttri ferðatíma til næsta atvinnu- og þjónustukjarna. Þá er áhersla á að bæta greiðfærni þar sem hún er hvað verst s.s. á sunnanverðum Vestfjörðum.
  • Aukinn þungi er lagður á greiðari samgöngur með öðrum ferðamátum en einkabíl, einkum í þéttbýli.
  • Aukin áhersla er lögð á aukna hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri samgöngukerfisins, að meta samfélagslegan kostnað og ávinning framkvæmda, auk þess að auka hagkvæmni notenda kerfisins.
  • Aukin áhersla er lögð á umhverfismál. Stefnt er að breyttum ferðavenjum, orkusparnaði og notkun umhverfisvænni orkugjafa fyrir samgöngutæki.
  • Meta á áhrif þess að taka formlega upp svokallaða „núllsýn“ í umferðaröryggismálum og bera hana saman við aðrar leiðir sem þær þjóðir hafa farið er fremst standa í öryggismálum.
  • Áhersla er lögð á samþættingu samgönguáætlunar við aðrar áætlanir í þeim tilgangi að efla einstök atvinnu- og þjónustusvæði.

Aðrar áherslur í tillögu að samgönguáætlun 2011-2022 eru meðal annars:

  • Gerð verði félagshagfræðileg úttekt á framtíð áætlunarflugs innanlands. Teknar verði upp viðræður milli ríkisins og Reykjavíkurborgar og tryggt að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt.
  • Horft verði á samgöngukerfið sem eina heild. Nýir innviðir verði skipulagðir og forgangsraðað með hliðsjón af félagshagfræðilegri greiningu.
  • Á áætlunartímabilinu verði breytt skipan á gjaldtöku fyrir umferð á vegum könnuð. Greindir verði kostir og gallar þess að í framtíðinni greiði ökutæki í samræmi við ekna vegalengd þar sem tillit yrði tekið til ytri kostnaðar jafnhliða því að núverandi kerfi sérstakra eldsneytisskatta yrði lagt niður.
  • Dregið verði úr neikvæðum umhverfisáhrifum samgangna með það að markmiði að þær verði umhverfislega sjálfbærar. Stefnt verði að því að losun gróðurhúsalofttegunda vegna samgangna verði undir 750 þúsund tonnum árið 2020, sem er 23% samdráttur frá 2008. Markmiðið er í samræmi við aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum.
  • Áætlun um sjálfbærar samgöngur verði unnin í samvinnu við sveitarfélög með aukna áherslu á almenningssamgöngur, göngu og hjólreiðar með þau markmið að leiðarljósi að draga úr umhverfisáhrifum, samgöngukostnaði og auka nærþjónustu við borgarana.

Eftirtaldir þingmenn tóku þátt í umræðunni með andsvörum og/eða ræðum: Ásbjörn Óttarsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Helgi Hjörvar, Tryggvi Þór Herbertsson, Birgir Ármannsson, Ólína Þorvarðardóttir, Ásmundur Einar Daðason, Kristján Þór Júlíusson, Birkir Jón Jónsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Arna Lára Jónsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, KRistján L. Möller, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Árni Þór Sigurðsson og Álfheiður Ingadóttir.

Laust fyrir klukkan 19 voru enn 9 þingmenn á mælendaskrá vegna umræðunnar um samgönguáætlun. Á dagskrá þingfundarins voru þá enn tillaga til þingsályktunar um fjarskiptaáætlun, lagafrumvörp um Farsýsluna, Vegagerðina, breyting á loftferðalögum og breyting á siglingalögum. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum