Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 31/2011. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 15. desember 2011

í máli nr. 31/2011:

AIH ehf.

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi, sem barst kærunefnd útboðsmála hinn 16. nóvember 2011, kærði AIH ehf. ákvörðun Ríkiskaupa um að vísa frá tilboði AIH ehf. vegna útboðs nr. 15066 „Rammasamningsútboð – Ýmsar gerðir af nálum, vökva- og blóðgjafasettum o.fl. fyrir heilbrigðisstofnanir“. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:

„1. Að kærunefnd útboðsmála stöðvi þegar í stað umrætt innkaupaferli á grundvelli ofangreinds útboðs í samræmi við 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup þar til endanlega hefur verið skorið úr öllum kröfum kæranda.

 

2.Að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun kærða að ganga til samningaviðræðna við Actavis annars vegar og Íslensk Ameríska hinsvegar, sbr. heimild í 1. málslið 1. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007 og beini því til Ríkiskaupa að taka tilboði kæranda.

 

Fallist kærunefnd útboðsmála ekki á framangreindar kröfur gerir kærandi eftirfarandi kröfur:

 

3. Að nefndin beini því til kærða að bjóða verkið út að nýju, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.

 

4. Að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.

 

5. Í öllum tilvikum er þess krafist að nefndin ákveði að kærði greiði kæranda kostnað hans við að hafa kæruna uppi.“

 

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun á samningsgerð. Með bréfi og gögnum, sem bárust kærunefnd útboðsmála 5. desember 2011, krafðist kærði þess að kröfu um stöðvun samningsgerðar yrði hafnað.

 

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva samningsgerð í kjölfar hins kærða útboðs.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.

 

I.

Í júlí 2011 auglýsti kærði útboð nr. 15066 „Rammasamningsútboð – Ýmsar gerðir af nálum, vökva- og blóðgjafasettum o.fl. fyrir heilbrigðisstofnanir“. Kærandi var meðal bjóðenda í útboðinu og kærði tilkynnti um val tilboða hinn 7. nóvember 2011. Kærði vísaði kæranda frá ferlinu þar sem hann taldi að kærandi hefði ekki sýnt fram á að hann uppfyllti skilyrði útboðsgagna um jákvætt handbært fé frá rekstri og jákvætt eigið fé í lok árs 2010.

            Með bréfi, dags. 2. desember 2011, tilkynnti kærði öllum þátttakendum í hinu kærða útboði að gildistími tilboða hafi runnið út 4. október 2011 án þess að óskað hefði verið eftir famlengingu tilboða. Þar með hafi öll tilboð verið fallin úr gildi þegar tilkynnt var um val á tilboðum. Kærði afturkallaði því val á tilboðum og felldi niður útboðið.

           

II.

Kærði hefur fellt niður hið kærða innkaupaferli og er ferlinu þannig lokið. Þegar af þeirri ástæðu er ekki hægt að stöðva hið kærða innkaupaferli

 

 

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, AIH ehf., um að útboð kærða, Ríkiskaupa, nr. 15066 „Rammasamningsútboð – Ýmsar gerðir af nálum, vökva- og blóðgjafasettum o.fl. fyrir heilbrigðisstofnanir“ verði stöðvað þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, er hafnað.

 

                                                   Reykjavík, 15. desember 2011.

                                                   Páll Sigurðsson

                                                   Auður Finnbogadóttir

                                                   Stanley Pálsson

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík,                desember 2011.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn