Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Vegna umræðu um meðferð skuldbindinga vegna A-deildar LSR í ríkisreikningi 2010

Fréttatilkynning nr. 2/2012, sameiginleg fréttatilkynning fjármálaráðuneytisins og Fjársýslu ríkisins

Undanfarna daga hefur farið fram umræða og verið fluttar fréttir í fjölmiðlum þar sem fram koma  athugasemdir við meðferð á skuldbindingum ríkissjóðs gagnvart A-deild LSR. Er því haldið fram að þær væru vantaldar í ríkisreikningi um sem nemur 47 milljörðum króna miðað við árslok 2010.  Hefur umfjöllun þessi m.a. byggt á nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar um meðferð fjárhagslegra skuldbindinga ríkisins. Í tilefni af þessu vilja fjármálaráðuneytið og Fjársýsla ríkisins gera eftirfarandi athugasemdir.

  1. Í fyrsta lagi er gerð grein fyrir umræddum skuldbindingum í skýringum með ríkisreikningi  2010 þar sem fjallað er um ábyrgðir utan efnahags.  Þar segir m.a.  að heildarstaða sjóðsins sé neikvæð um 47,4 milljarða króna, en það er sú fjárhæð sem falla myndi á ríkissjóð á komandi áratugum miðað við að áfram séu greidd óbreytt iðgjöld vegna núverandi sjóðsfélaga til ellilífeyrisaldurs og að þeir ávinni sér réttindi í samræmi við það. Var þessi skýring sett fram í samráði við Ríkisendurskoðun, sem jafnframt áritaði reikninginn.
  2. Í öðru lagi er rétt að fram komi að samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt á stöðu sjóðsins nam áfallin staða A-deildar LSR, þ.e. skuldbindingar umfram eignir, tæpum 4,2 milljörðum króna í árslok 2010. Sú fjárhæð nemur 2,5% af eignum.  Áfallnar skuldbindingar sýna stöðu sjóðsins á viðkomandi uppgjörsdegi og taka mið af iðgjöldum sem þegar hafa verið greidd.  Það eru áfallnar skuldbindingar sem eru almennt lagðar til grundvallar í reikningsskilum þegar slíkar ábyrgðir eru færðar til til skuldar.
  3. Í þriðja lagi kemur fram í lögunum um A-deild LSR að haga skuli iðgjöldum til sjóðsins í samræmi við skuldbindingar hans.  Það, að heildarstaða sjóðsins sé neikvæð um 47,4 milljarða króna, bendir til að hækka þurfi iðgjöldin í framtíðinni til að mæta auknum skuldbindingum.  Þessi niðurstaða, sem byggir á viðteknum tryggingafræðilegum matsaðferðum, er vitanlega háð óvissu um ávöxtun eigna sjóðsins á komandi áratugum og er breytingum háð.

Mikilvægt er að í opinberri umræðu um skuldbindingar ríkissjóðs, og lífeyrissjóðanna almennt, sé hugtakanotkun skýr og haldið sé til haga þeim grundvallarmun sem gera verður á heildarstöðu annars vegar, og áfallinni stöðu, hins vegar.

Meðfylgjandi er fréttatilkynningin á pdf-skjali og upplýsingar um hvert skal leita eftir nánari skýringum. 

Reykjavík 10. febrúar 2012

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira