Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2012 Félagsmálaráðuneytið

Atvinnutorg – nýtt úrræði fyrir unga atvinnuleitendur

Frá undirritun verkefnis um atvinnutorg í Reykjavík
Frá undirritun verkefnis um atvinnutorg í Reykjavík

Atvinnutorg fyrir unga atvinnuleitendur á aldrinum 16-25 ára voru opnuð í Reykjavík og Reykjanesbæ í dag. Verkefnið er samstarfsverkefni velferðarráðuneytisins, Vinnumálastofnunar, Reykjavíkurborgar, Reykjanesbæjar, Hafnarfjarðarbæjar og Kópavogsbæjar og hefur að markmiði að veita ungu fólki sem hvorki er á vinnumarkaði né í námi ráðgjöf og stuðning og finna úrræði við hæfi.

Verkefnið markar tímamót þar sem boðin verða úrræði fyrir ungt fólk án tillits til réttinda þess innan atvinnuleysistryggingakerfisins.  

Aðdraganda verkefnisins má rekja til þess að ríkisstjórnin samþykkti í júní á liðnu ári að verja 100 milljónum króna í vinnumarkaðsaðgerðir fyrir ungt fólk sem ekki er tryggt innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Í kjölfarið var settur á laggir vinnuhópur með fulltrúum Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarbæjar, Kópavogsbæjar og Reykjanesbæjar, Vinnumálastofnunar og velferðarráðuneytisins, til að samræma þjónustu Vinnumálastofnunar og sveitarfélaga við þennan hóp. Atvinnutorgin í Reykjavík og Reykjanesbæ eru fyrst til að hefja starfsemi en á næstunni verða einnig opnuð atvinnutorg í hinum bæjarfélögunum tveimur; Hafnarfirði og Kópavogi.

Áætlað er að rúmlega 400 ungmenni muni að jafnaði njóta þjónustu hjá atvinnutorgum umræddra sveitarfélaga.  Mikilvægur hluti verkefnisins felst í að hafa uppi á þeim hluta hópsins sem stendur utan kerfisins og þarf því að leita að, en þá er átt við ungmenni sem hvorki eru skráð með fjárhagsaðstoð sveitarfélags né atvinnuleysisbætur og eru ekki í vinnu eða námi.

Miðað er við að bjóða öllum þessum ungmennum úrræði sem geta falist í starfsþjálfun eða atvinnu, námi eða námstengdum úrræðum, áfengis- eða vímuefnameðferð eða starfsendurhæfingu. Samstarf verður við símenntunarmiðstöðvar, skóla, meðferðaraðila og VIRK starfsendurhæfingarsjóð um framkvæmd þjónustunnar. Hluti hópsins mun mögulega geta nýtt sér hefðbundin vinnumarkaðsúrræði Vinnumálastofnunar en sveitarfélögin leggja sjálf til störf við hæfi fyrir þau ungmenni sem um ræðir eða pláss í starfsþjálfun.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sagði við opnun atvinnutorgsins í Reykjavík í dag að atvinnuleysi og erfiðleikar á vinnumarkaði snerti fólk misjafnlega en bitnaði hvað harðast á ungu fólki, sérstaklega þeim sem hafa stutta skólagöngu að baki og litla sem enga reynslu á vinnumarkaði:

„Sá hópur sem atvinnutorgin eiga að sinna er ungt fólk sem hefur átt erfitt með að fóta sig við núverandi aðstæður í samfélaginu og þarf á miklum stuðningi að halda. Það gengur ekki að þessi hópur sé afskiptur, - okkur ber skylda til þess að hjálpa þessu unga fólki til að standa á eigin fótum, skapa sér sjálfstætt líf og taka virkan þátt í samfélaginu með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir.

Þetta er markmiðið með stofnun atvinnutorganna. Sú ráðgjöf og aðstoð sem í boði verður þarf að taka mið af einstaklingsbundnum þörfum þeirra sem í hlut eiga. Þess vegna er miðað við að hver ráðgjafi sinni miklum mun færri einstaklingum en alla jafna í hefðbundinni ráðgjöf Vinnumálastofnunar. Ráðnir hafa verið 12 starfsmenn til að sinna ráðgjöf hjá atvinnutorgunum í sveitarfélögunum fjórum. Helmingur þeirra eru starfsmenn Vinnumálastofnunar og helmingurinn starfsmenn viðkomandi sveitarfélaga.

Ég bind miklar vonir við þetta verkefni og hef trú á að það eigi eftir að skipta sköpum fyrir ungt fólk sem nú er í erfiðri aðstöðu og þarf svo nauðsynlega á leiðsögn og liðsinni að halda.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira