Velferðarráðuneytið

Vinnandi vegur - átak gegn langtímaatvinnuleysi

Vinnumál
Vinnumál

Stefnt er að því að ráða til starfa allt að 1.500 manns af atvinnuleysisskrá í tengslum við sameiginlegt átak atvinnurekenda, sveitarfélaga, stéttarfélaga og ríkisins gegn langtímaatvinnuleysi. Vinnumálastofnun stýrir átakinu sem beinist einkum að fólki sem verið hefur án atvinnu í eitt ár eða lengur. 

Með átakinu Vinnandi vegur er áhersla lögð á sameiginlegan ávinning þátttakenda þar sem atvinnurekendum er auðveldað að ráða fólk til starfa og atvinnuleitendum gefst tækifæri til þátttöku í atvinnulífinu. Með ráðningu starfsmanns samkvæmt skilyrðum átaksins fær viðkomandi fyrirtæki eða stofnun ráðningarstyrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem nemur fullum atvinnuleysisbótum, þ.e. 167.176 krónum á mánuði, auk 8% framlags í lífeyrissjóðs. Starfsmanninum eru tryggð laun samkvæmt kjarasamningi og greiðir atvinnurekandinn það sem á vantar.

Ef ráðinn er starfsmaður sem verið hefur án atvinnu í tólf mánuði eða lengur er greiddur 167.176 kr. ráðningarstyrkur í allt að eitt ár. Hafi viðkomandi verið án atvinnu í skemmri tíma er greiddur ráðningarstyrkur sem miðast við bótarétt starfsmannsins í allt að sex mánuði.

Átakið er tímabundið og þurfa atvinnurekendur sem vilja ráða fólk til starfa á grundvelli þess að ganga frá ráðningum fyrir 1. júní næstkomandi. Við ráðningu starfsmanns skrifar atvinnurekandi undir þríhliða ráðningarsamning sem gerður er milli atvinnuleitanda, atvinnurekanda og Vinnumálastofnunar. Ráðningarmiðlunin vottar samninginn og sendir Vinnumálastofnun til staðfestingar og afgreiðslu styrks.   

Ráðist er í átaksverkefnið Vinnandi vegur á grundvelli laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir og byggjast skilyrði fyrir þátttöku í verkefninu á þeim eins og nánar er lýst á vef Vinnumálastofnunar.  

Atvinnutengd úrræði skila mestum árangri

Guðbjartur Hannesson ráðherra á ársfundi VinnumálastofnunarGuðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir liggja fyrir að atvinnutengdu vinnumarkaðsúrræðin skili mestum árangri og séu líklegust til að hjálpa atvinnuleitendum út á vinnumarkaðinn á nýjan leik. „Um 63% atvinnuleitenda sem taka þátt í slíkum úrræðum eru jafnan farnir af atvinnuleysisskrá um þremur mánuðum eftir að þátttöku lýkur á móti 25-35% þeirra sem taka þátt í öðrum úrræðum á borð við þátttöku í ýmsum menntunarnámskeiðum og klúbbastarfi samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar.“  

Guðbjartur segir að allar aðgerðir sem miða að því að hjálpa atvinnuleitendum inn á vinnumarkaðinn á ný krefjist víðtækrar samvinnu margra aðila, virkrar þátttöku stofnana og fyrirtækja og síðast en ekki síst öflugrar forystu þar sem verkefni eru skipulögð og þeim fylgt eftir. „Vinnumálastofnun býr yfir mikilli reynslu og þekkingu á þessu sviði og hefur haldbærar á hverjum tíma ítarlegar upplýsingar um aðstæður á vinnumarkaði eftir landsvæðum, atvinnuástand eftir starfsgreinum, fjölda atvinnuleitenda og hvernig hópurinn greinist, svo sem eftir kyni, aldri, þjóðerni og menntun. Þar er einnig yfirsýn yfir hve lengi fólk hefur verið í atvinnuleit, þátttöku þess í vinnumarkaðsúrræðum og fleira sem mikilvægt er til að greina markhópa og skipuleggja vinnumarkaðsúrræði við hæfi.“

Guðbjartur segir ómetanlegt hve stofnanir ríkisins, sveitarfélög og fyrirtæki á almennum vinnumarkaði hafa verið reiðubúin til þátttöku í þeim fjölmörgu átaksverkefnum á sviði vinnumarkaðsaðgerða sem efnt hefur verið til á síðustu misserum. „Verkefnið Vinnandi vegur er gott dæmi um þetta, eins má nefna Ungt fólk til athafna, verkefnið ÞOR og nýtt verkefni um opnun atvinnutorga í fjórum sveitarfélögum sem kynnt var í liðinni viku og markar tímamót þar sem sem boðin eru úrræði fyrir ungt fólk án tillits til réttinda þess innan atvinnuleysistryggingakerfisins.“  

Nánari upplýsingar um einstök verkefni:

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn