Hoppa yfir valmynd
Félagsmálaráðuneytið

Um 1.000 störf fyrir atvinnuleitendur byggð á átakinu Vinnandi vegur

Guðbjartur Hannesson ráðherra á ársfundi VinnumálastofnunarÞegar hafa orðið til um 1.000 ný starfstækifæri fyrir atvinnuleitendur á grundvelli átaksverkefnisins Vinnandi vegur. Vonir standa til að með samvinnu atvinnurekenda, sveitarfélaga, stéttarfélaga og ríkisins verði unnt að ráða um 1.500 manns af atvinnuleysisskrá í ný starfstengd vinnumarkaðsúrræði um allt land. Þetta kemur fram í grein velferðarráðherra um vinnumarkaðsúrræði sem birtist í Fréttablaðinu um helgina.

Velferðarráðherra rekur í grein sinni helstu verkefni sem ráðist hefur verið í síðustu misseri til að sporna við atvinnuleysi og alvarlegum afleiðingum þess, s.s. Ungt fólk til athafna, verkefnið ÞOR – Þekking og reynsla, verkefnið Nám er vinnandi vegur og átaksverkefnið Vinnandi vegur sem hófst nýlega, ætlað atvinnuleitendum sem hafa verið án vinnu í eitt ár eða lengur: „Með góðri samvinnu atvinnurekenda, sveitarfélaga, stéttarfélaga og ríkisins standa vonir til að unnt verði að ráða um 1.500 manns af atvinnuleysisskrá í ný starfstengd vinnumarkaðsúrræði um allt land. Viðbrögð atvinnurekenda hafa verið afar góð og þegar þetta er skrifað hafa þegar orðið til um 1.000 ný starfstækifæri fyrir atvinnuleitendur á grundvelli þessa nýja átaks.“

Í greininni segir ráðherra einnig frá Atvinnutorgum sem eru nýtt úrræði fyrir fólk á aldrinum 16-25 ára, en fjögur slík voru opnuð nýlega í Reykjavík, Reykjanesbæ, Hafnarfirði og Kópavogi í samstarfi sveitarfélaganna velferðarráðuneytisins og Vinnumálastofnunar: „Markmiðið er að veita ungu fólki sem hvorki er á vinnumarkaði né í námi, ráðgjöf og stuðning og finna því úrræði við hæfi sem geta falist í starfsþjálfun eða atvinnu, námi eða námstengdum úrræðum, áfengis- eða vímuefnameðferð eða starfsendurhæfingu. Úrræði standa til boða óháð rétti þessara einstaklinga innan atvinnuleysistryggingakerfisins og er það nýmæli.

Reynslan sýnir að erfiðleikar á vinnumarkaði snerta fólk misjafnlega en bitna hvað harðast á ungu fólki, sérstaklega því með stutta skólagöngu að baki og litla reynslu á vinnumarkaði. Mikilvægur hluti af verkefnum atvinnutorganna felst í því að hafa uppi á þeim sem standa utan kerfisins, þ.e. ungmennum sem hvorki eru skráð með fjárhagsaðstoð né atvinnuleysisbætur og eru ekki í vinnu eða námi.“

Vinnumálastofnun hefur stýrt þeim átaksverkefnum sem ráðist hefur verið í, jafnframt því að annast hefðbundin vinnumarkaðsúrræði á vegum stofnunarinnar. Verkefnin eru að stærstum hluta fjármögnuð úr Atvinnuleysistryggingasjóði en ríkið hefur einnig lagt fram verulega fjármuni og það gera einnig sveitarfélög og aðrir atvinnurekendur sem leggja til störf og starfstengd úrræði: „Þessum fjármunum er tvímælalaust vel varið þar sem markmiðið er að vinna gegn neikvæðum áhrifum atvinnuleysis með því að gefa fólki kost á að byggja sig upp til framtíðar með þátttöku í verðugum verkefnum eða námi. Ávinningurinn er ótvíræður, ekki aðeins fyrir þá sem taka þátt heldur samfélagið í heild sinni.“

Þann 14. mars birtist einnig grein í Fréttablaðinu eftir velferðarráðherra um vinnumarkaðsúrræði undir fyrirsögninni; Þegar allir leggjast á eitt er árangurinn vís. Báðar þessar greinar eru aðgengilegar á vef ráðuneytisins.

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira