Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 32/2011. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 5. mars 2012

í máli nr. 32/2011:

Logaland ehf.

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi, dags. 16. nóvember 2011, kærði Logaland ehf. útboð Ríkiskaupa nr. 15066 „Rammasamningsútboð – Ýmsar gerðir af nálum, vökva- og blóðgjafasettum o.fl. fyrir heilbrigðisstofnanir“. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:

„1. Að kærunefndin stöðvi þegar í stað innkaupaferli/gerð samnings á grundvelli útboðsins þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

 

2. Að kærunefndin leggi fyrir kærða að auglýsa útboðið á nýjan leik.

 

3. Að kærunefndin láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda.

 

4. Að kærunefndin ákveði að kærða verði gert að greiða kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi.“

 

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Með bréfi og gögnum, sem bárust kærunefnd útboðsmála 5. desember 2011, upplýsti kærði að hið kærða útboð hefði verið fellt niður.

 

Með ákvörðun, dags. 15. desember 2012, hafnaði kærunefnd útboðsmála að stöðva útboð kærða nr. 15066 „Rammasamningsútboð – Ýmsar gerðir af nálum, vökva- og blóðgjafasettum o.fl. fyrir heilbrigðisstofnanir“.

 

I.

Í júlí 2011 auglýsti kærði útboð nr. 15066 „Rammasamningsútboð – Ýmsar gerðir af nálum, vökva- og blóðgjafasettum o.fl. fyrir heilbrigðisstofnanir“.

            Kærandi var meðal bjóðenda í útboðinu og kærði tilkynnti um val tilboða hinn 7. nóvember 2011. Sama dag fékk kærandi bréf með upplýsingum um það hvernig tilboð kæranda var metið. Kom þar í ljós að tilboðum kæranda í vöruflokkum I, II, III og IV var vísað frá en í vöruflokki V fékk kærandi ekki hæstu einkunn.

Með bréfi, dags. 2. desember 2011, tilkynnti kærði öllum þátttakendum í hinu kærða útboði að gildistími tilboða hafi runnið út 4. október 2011 án þess að óskað hefði verið eftir framlengingu tilboða. Þar með hafi öll tilboð verið fallin úr gildi þegar tilkynnt var um val á tilboðum. Kærði afturkallaði því val á tilboðum og felldi niður útboðið.

           

II.

Kærandi segir að mat kærða á tilboðum sé áfátt í verulegum atriðum. Athugasemdir kæranda lúta aðallega að því að hópur sérfræðinga hafi átt að meta vörurnar en aðferðarfræði þeirra sé ekki lýst nánar og svo virðist sem kærði hafi talið sig hafa frjálst val.

            Kærandi segir að við mat á vöruflokki I hafi helstu athugasemdir kærða verið átta talsins en hverri þeirra hafi verið lýst með stuttri setningu sem hver og ein hafi verið afar huglæg að efni til. Nefnir kærandi m.a. að lágmarkskrafa nr. 4 hafi verið þannig orðuð: „Nálarnar skulu vera hannaðar þannig að þær valdi sem minnstum óþægindum fyrir sjúkling“. Í athugasemdum sérfræðingahópsins segi orðrétt „sjúklingar kvarta yfir sársauka“. Kærandi segir að engar útskýringar sé að finna á því hvernig samanburðarhæfni boðinna vara hafi verið tryggð. Þá nefnir kærandi einnig önnur atriði sem hann telur afar huglæg eins og t.d. skilyrðið „Leggurinn skal ekki vera stamur, hvorki of né van. Leggurinn skal vera sveigjanlegur og úr efni sem ekki eru ertandi fyrir æðavegg“ og athugasemdir eins og „Tappi á loki allt of laus, snýst í hringi“.

            Kærandi segir að helstu athugasemdir kærða við vöruflokk II hafi verið þær að stíll hafi ekki náð fram úr plastleggnum. Kærandi segir að ekki hafi verið gerð krafa um þetta í lágmarkskröfum vöruflokks II. Þá segir kærandi að kærði hafi ekki framkvæmt prófun á boðnum nálum í þessum vöruflokki og því sé frávísun á tilboði kæranda markleysa.

            Kærandi segir að helstu athugasemdir kærða við vöruflokk III hafi verið að vara kæranda hafi ekki staðist kröfu útboðsgagna um að vera skerandi, ef stungið sé í gegn um tappa fari arða úr tappanum í innihaldið. Umbúðir á vörunum hafi verið það harðar að starfsfólk hafi skorið sig á þeim. Kærandi telur þetta afar huglægt mat og telur að t.d. hafi verið nær að kanna lyfjaglasið sem stungið var í enda sé mun líklegra að um hafi verið að ræða galla í sjálfum lyfjaglösunum.

            Kærandi segir að helstu athugasemdir kærða við vöruflokk IV hafi verið verulega huglægar eins og t.d. „stimpill er allt of liðugur á stærri sprautum“, „stimpillinn of stífur á minni sprautum“, „erfitt að tæma ampúllu“, „stimpill of laus“, „á sprautum með kathiter enda er opið of lítið á endanum“.

            Kærandi segir að munur á boðnum verðum í vöruflokki V sé gríðarlegur og svo mikill að ætla megi að lægri verðtilboðin hafi í raun ekki falið í sér alla þá vöruliði sem hærri tilboðin hafi að geyma. Kærandi segir að tilboðin séu þannig ekki samanburðarhæf en kærði hafi engar frekari upplýsingar gefið um þetta.      

 

III.

Kærði segir að útboðið hafi verið fellt niður en hefur að öðru leyti ekki fjallað um kæruna eða rökstutt frekar mat sitt á tilboðum.

 

IV.

Kærði hefur fellt niður hið kærða útboð og hafið nýtt innkaupaferli. Þegar af þeirri ástæðu er óþarft að beina því til kærða að bjóða hin kærðu innkaup út að nýju.

Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda. Í 1. mgr. 101. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, er mælt fyrir um skaðabótaskyldu vegna tjóns sem hlotist hefur vegna brota kaupanda á lögum og reglum um opinber innkaup. Samkvæmt ákvæðinu eru sett tvenns konar skilyrði fyrir skaðabótaskyldu. Annars vegar þarf að vera um að ræða brot á lögum eða reglum um opinber innkaup. Hins vegar þarf bjóðandi að sanna að hann hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valinn af kaupanda og að möguleikar hans hafi skerst við brotið.

Gildistími tilboða í hinu kærða útboði rann út áður en kærði valdi tilboð og kærði hefur nú fellt niður útboðið. Þeirri aðstöðu verður jafnað til þess að kærði hafi hafnað öllum tilboðum. Kaupendur í opinberum innkaupum þurfa að hafa málefnalegar ástæður fyrir því að hafna öllum tilboðum og er ekki frjálst að taka slíka ákvörðun án mögulegrar bótaábyrgðar jafnvel þótt þeir hafi áskilið sér rétt til þess í útboðsgögnum. Kaupendum er eingöngu heimilt að hafna öllum tilboðum þegar valforsendur helga slíka niðurstöðu eða þegar forsendur útboðsins eru brostnar. Ástæður fyrir því að kaupandi hafnar öllum tilboðum þurfa þannig að hafa verið bjóðendum ljósar fyrirfram til að slík ákvörðun sé lögmæt.

Kærði hefur ekki sýnt fram á málefnalegar ástæður fyrir þeirri ákvörðun að hafna öllum tilboðum. Kærunefnd útboðsmála telur ljóst að höfnun kærða á öllum tilboðum hafi verið mistök og hvorki byggð á valforsendum útboðsins né því að forsendur útboðsins hafi brostið. Var ákvörðun kærða um höfnun allra tilboða þannig ólögmæt.

Kærandi hefur gert fjölmargar athugasemdir við niðurstöður kærða en kærði hefur að engu leyti látið mál þetta til sín taka og ekki rökstutt mat sitt frekar. Við þessar aðstæður verður að líta svo á að kærandi hafi a.m.k. átt raunhæfan möguleika á að verða valinn af kaupanda og að möguleikar hans hafi skerst við brotið. Skilyrði 1. mgr. 101. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, fyrir skaðabótaskyldu eru þannig til staðar.

Kærandi hefur krafist þess að kærða verði gert að greiða honum kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. fyrri málslið 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007. Með hliðsjón af úrslitum málsins og umfangi þess þess verður kærða gert að greiða kæranda kr. 200.000 í kostnað við að hafa kæruna uppi.

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda, Logalands ehf., um að kærunefnd útboðsmála beini því til kærða, Ríkiskaupa, að bjóða að nýju út innkaup á ýmsum gerðum af nálum, vökva- og blóðgjafasettum o.fl. fyrir heilbrigðisstofnanir, er hafnað.

 

Það er álit kærunefndar útboðsmála að kærði, Ríkiskaup, sé skaðabótaskyldur gagnvart kæranda, Logalandi ehf., vegna þátttöku kæranda í útboði nr. 15066 „Rammasamningsútboð – Ýmsar gerðir af nálum, vökva- og blóðgjafasettum o.fl. fyrir heilbrigðisstofnanir“.

 

Kærði, Ríkiskaup, greiði kæranda, Logalandi ehf, kr. 200.000 í málskostnað.

 

 

                                              Reykjavík, 5. mars 2012.

                                              Páll Sigurðsson

                                              Auður Finnbogadóttir

                                              Stanley Pálsson

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík,                mars 2012.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum