Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2012 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Starfshópur um áratug umferðaröryggis skilar tillögum

Starfshópur sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra skipaði fyrir ári í verkefni er snúa að áratug umferðaröryggis 2011 til 2020 hefur skilað ráðherra áfangaskýrslu. Hópurinn fékk það verkefni að leggja fram tillögur varðandi umferðaröryggi í tengslum við heimsátak Sameinuðu þjóðanna í umferðaröryggismálum og standa á til ársins 2020.

Birna Hreiðarsdóttir afhendir Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra skýrslu starfshópsins.
Birna Hreiðarsdóttir afhendir Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra skýrslu starfshópsins.

Hópurinn kom saman mánaðarlega og fulltrúar skiptu sér einnig í minni hópa og unnu afmörkuð verkefni. Síðustu vikur hefur verið unnið að samantekt skýrslunnar og var hún í dag afhent ráðherra. Auk fjölmarga tillagna er varða skipulag, umferðarmannvirki, ökutæki, hegðan vegfarenda og viðbrögð við slysum leggur hópurinn áherslu á að skráningu umferðarslysa verði breytt á þann veg að komið verði á fót gagnagrunni með heildarskrá umferðarslysa með öllum upplýsingum um slysin. Einnig að þriðji sunnudagur í nóvember verði árlega minningardagur um þá sem látist hafa af völdum umferðarslysa og lagt er einnig til að vörugjöld af öryggis- og hlífðarbúnaði sem notaður er í umferðinni verði felld niður. Jafnframt lagði hópurinn til að hliðstæður starfshópur verði skipaður áfram og yrði honum falið að fylgja tillögunum eftir og segja fram nýjar tillögur fyrir starfsárið 2012 til 2013.

Meðal beinna tillagna hópsins má nefna að stjórnvöld hafi arðsemisútreikning að baki ákvörðunum í umferðaröryggismálum, að umferðaröryggi verði ætíð haft að leiðarljósi við hönnun vegna og umferðarmannvirkja, að skerpt verði á reglum um skoðun og skráningu ökutækja og endurskoðaðar verði reglur um breytingar á ökutækjum, að vegfarendur noti ætíð öryggisbúnað sem uppfylli ítrustu kröfur og að kennsla í skyndihjálp verði efld.

Starfshópurinn var skipaður til árs og skyldi hann skilgreina mikilvæg verkefni í átt að auknu umferðaröryggi og setja fram tillögur um verkefni. Formaður hópsins er Birna Hreiðarsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu innviða í innanríkisráðuneytinu, en fulltrúar í hópnum eru meðal annars frá heilbrigðisyfirvöldum, lögreglu, Umferðarstofu, Rannsóknarnefnd umferðarslysa og síðan ýmsum félaga- og hagsmunasamtökum.

Starfshópur um umferðaröryggi skilað innanríkisráðherra skýrslu með tillögum um aðgerðir.

 Nokkrir fulltrúar í starfshópnum skiluðu innanríkisráðherra skýrslunni. Frá vinstri. Gunnar Geir Gunnarsson frá Umferðarstofu, Fjóla Guðjónsdóttir, frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Ágúst Mogensen, forstöðumaður Rannsóknarnefndar umferðarslysa, Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri innviðaskrifstofu innanríkisráðuneytisins, Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, Sindri Kristjánsson, frá velferðarráðuneytinu, Njáll Gunnlaugsson, fulltrúi Sniglanna, Einar Magnús Magnússon, frá Umferðarstofu, og Katrín Þórðardóttir og Birna Hreiðarsdóttir, lögfræðingar í innanríkisráðuneytinu.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra þakkaði starfshópnum fyrir skýrsluna og sagði gagnlegt að fá fram slíkar tillögur sem nú yrðu metnar. Hann sagði mikilvægt að efla áfram umferðaröryggi með öllum ráðum og þar yrðu allir þátttakendur í umferðinni að leggja sitt að mörkum sem og yfirvöld. Nú yrði farið yfir tillögurnar og lagt á ráðin um framhaldið. Ljóst væri þegar að framhald yrði á þessari vinnu og yrði hugað að skipan í starfshóp til þeirrar vinnu.

Tillögurnar má sjá í kafla 3 í skýrslunni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira