Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Samkomulag um að efla grunnmenntun í tækni- og raunvísindum

Mennta- og menningarmálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök iðnaðarins hafa ákveðið að vinna sameiginlega að aðgerðaáætlun um eflingu grunnmenntunar í tækni- og raunvísindum.

Undirritun samkomulags um eflingu grunnnáms
Undirritun samkomulags um eflingu grunnnáms

Mennta- og menningarmálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök iðnaðarins hafa ákveðið að vinna sameiginlega að aðgerðaáætlun um að efla grunnmenntun í tækni- og raunvísindum og hefur verkefnisstjórn verið sett á laggirnar í því skyni.

Tilgangur samstarfsins er að kortleggja stöðu grunnskólanáms á Íslandi m.t.t. skilnings og hæfni nemenda á sviði tækni og raunvísinda og bera saman við kröfur, sem vænta má að gerðar verði í áframhaldandi námi og vinnu.

Markmiðið er að skilgreina leiðir til að styrkja grunnmenntun á þessu sviði og móta aðgerðaáætlun, þar sem þeir sem bera ábyrgð á stefnu og framkvæmd hennar, hafa í samvinnu við aðra hagsmunaaðila skapað sameiginlegan skilning á verkefnunum framundan.

Mikilvægt er að leiða saman vilja stjórnvalda um hærra menntunarstig þjóðarinnar og styrkari starfsmenntun og þörf vinnumarkaðsins á menntuðu starfsfólki, sérstaklega á sviði verk og tæknimenntunar.  Í könnun sem Samtök iðnaðarins framkvæmdu um áramótin 2010-2011 kemur m.a. fram að 39% fyrirtækja í könnuninni telja nokkurn eða mikinn skort á menntuðu eða þjálfuðu fólki til starfa.

Verkefnisstjórnina skipa þau Allyson Macdonald frá menntavísindasviði Háskóla Íslands, Björg Pétursdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Júlíus Björnsson frá Námsmatsstofnun, Katrín Dóra Þorsteinsdóttir frá Samtökum iðnaðarins og Svandís Ingimundardóttir frá  Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Starfsmaður nefndarinnar er Elsa Eiríksdóttir og verkefnisstjóri er Steingrímur Sigurgeirsson, ráðgjafi hjá Capacent.

Yfir verkefninu er stýrihópur sem í sitja Orri Hauksson, Samtökum iðnaðarins, Karl Björnsson, Sambandi ísenskra sveitarfélaga og Ásta Magnúsdóttir, ráðuneytisstjóri.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira