Hoppa yfir valmynd
Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Könnun á starfsumhverfi forstöðumanna

Í árslok 2011 fór fram könnun á starfsumhverfi forstöðumanna ríkisstofnana og ráðuneytisstjóra.

Sambærileg könnun var gerð meðal forstöðumanna ríkisstofnana á árinu 2007 og voru niðurstöður hennar birtar í skýrslu í þremur hlutum sem gefnar voru út á vefnum frá október 2007 til mars 2008. Í könnun þeirri sem hér er kynnt voru notaðir sömu spurningalistar og 2007 þó lítillega breyttir.

Könnunin skiptist í tvo hluta. Fyrri spurningalistinn innihélt staðreyndaspurningar og var svarað undir heiti stofnunarinnar. Seinni listinn innhélt eingöngu viðhorfaspurningar og var nafnlaus. Niðurstöður forstöðumannakönnunarinnar eru gefnar út í tvennu lagi. Viðhorfalistinn kom út í lok apríl 2011, staðreyndarlistinn kemur út í september 2011. Nánar er fjallað um könnunina hér fyrir neðan.

Könnun þessi meðal forstöðumanna er hluti af rannsóknum sem gerðar hafa verið á síðustu árum sem felast í því að kortleggja starfsumhverfi ríkisstarfsmanna. Rannsóknirnar hafa margvíslegt gildi eins og lesa má um í skýrslu fjármálaráðuneytisins og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála frá apríl 2007 og þremur skýrslum forstöðumannakönnunar sem birtar voru í október 2007 til mars 2008. Þar var í fyrsta skipti safnað heildstæðum upplýsingum um flesta þá þætti sem varða stjórnun og stjórnunartengda þætti meðal ríkisstofnana. Sjá allar þessar skýrslur á vef fjármálaráðuneytisins.

Upplýsingar fengnar úr þessum rannsóknum hafa þegar nýst við mótun stefnu í starfsmannamálum og þróun stjórnunaraðferða hjá ríkinu. Þá gefa þær mikilvægt stöðumat á styrkleika og áskorunum í ríkisrekstri sem nýtist til samanburðar þegar skoðað er hvernig stjórnunarhættir ríkisins þróast. Jafnframt hafa þessar rannsóknir fræðilegt gildi á sviði opinberrar stjórnsýslu og mannauðsstjórnunar.

Könnunin var samstarfsverkefni fjármálaráðuneytisins, Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands og Félags forstöðumanna ríkisstofnana.

Forstöðumannahluti


Fyrsti hluti


Fyrsta skýrsla af tveimur með niðurstöðum úr könnun á starfsumhverfi forstöðumanna kom út í lok apríl 2011.
Fyrsta skýrslan fjallar um niðurstöður úr viðhorfahluta forstöðumannakönnunarinnar. Umfjöllun um niðurstöður skiptist í tíu hluta. Greint er frá menntun forstöðumanna og fyrri störfum, viðhorfi til eigin starfs og launa, upphafi starfs og starfsþróun, stjórnunarhætti og ímynd stofnunar, mat forstöðumanna á fyrirkomulagi launaákvarðana og fræðsluþörf starfsmanna, mat forstöðumanna á samskiptum við ráðuneyti, fjárhagslegt og faglegt svigrúm í starfi, mat á stofnanasamningum og skipun og tilflutning í starfi. Talnaefni sem fjallað er um í kaflanum kemur fram í viðauka III, sem birtur er í sérstöku skjali á vefsvæðum fjármálaráðuneytisins og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála. Víða er gerður samanburður við könnun sem gerð var meðal forstöðumanna árið 2007.

Uppbygging skýrslunnar er í svipuðum dúr og í könnuninni frá 2007. Sundurgreiningu á einstökum niðurstöðum er haldið í lágmarki. Áhersla er lögð á að lýsa talnaefni á myndrænu formi. Sundurgreiningu eftir stofnana- og stærðarflokkum er að finna í töflum í viðauka skýrslunnar. Einnig er að finna í viðauka spurningalista viðhorfahluta könnunarinnar.

Niðurstöður voru kynntar á morgunverðarfundi þann 25. apríl 2011 sem fjármálaráðuneytið, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands og Félag forstöðumanna stóðu fyrir. Skýrslan og erindi fyrirlesara eru aðgengileg hér fyrir neðan.


Annar hluti


Þessi skýrsla er hin síðari af tveimur skýrslum um niðurstöður könnunar sem framkvæmd var meðal forstöðumanna ríkisstofnana og ráðuneytisstjóra í lok árs 2011. Sambærileg könnun var gerð meðal sömu aðila á árinu 2007 og voru niðurstöður hennar birtar í skýrslum í þremur hlutum sem gefnar voru út á vefnum frá október 2007 til mars 2008. Í könnun þeirri sem hér er kynnt voru notaðir sömu spurningalistar og 2007, þó lítillega breyttir.

Síðari skýrslan sem hér birtist fjallar m.a. um stjórnun mannauðsmála hjá ríkisstofnunum, nánar tiltekið skipulag starfsmannamála, starfsmannastefnu, starfslýsingar, upphaf starfs, þar með talið ráðningarferil, starfsþróun og starfsmannasamtöl. Þá er greint frá mati forstöðumanna á gildi aðferða við mannauðsstjórnun. Að lokum er fjallað um verkefni forstöðumanna og hvernig þau hafa breyst á liðnum árum. Nánari úrvinnsla rannsóknargagna mun fara fram í fjármála- og efnahagsráðuneyti og hjá Háskóla Íslands. Víða er gerður samanburður við könnun sem gerð var meðal forstöðumanna árið 2007.

Í viðauka I er fjallað um þátttökustofnanir. Í viðauka II er spurningarlistinn. Í viðauka III er yfirlit yfir töflur viðauka III.
Uppbygging skýrslunnar er í svipuðum dúr og í könnuninni frá 2007. Sundurgreiningu á einstökum niðurstöðum er haldið í lágmarki. Áhersla er lögð á að lýsa talnaefni á myndrænu formi.

Niðurstöður voru kynntar á morgunverðarfundi þann 2. október 2012 sem fjármála- og efnahagsráðuneytið, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands og Félag forstöðumanna stóðu fyrir. Skýrslan og erindi fyrirlesara eru aðgengileg hér fyrir neðan.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira