Dómsmálaráðuneytið

Bakgrunnsskoðanir ólögráða einstaklinga verði heimilar

Innanríkisráðuneytið hefur í bréfi til ríkislögreglustjóra farið þess á leit að embættið hlutist til um að unnt verði að bakgrunnsskoða ólögráða einstaklinga eins fljótt og unnt er. Telur ráðuneytið  ekkert því til fyrirstöðu að bakgrunnsskoða ólögráða einstaklinga að því skilyrði uppfylltu að samþykki forráðamanna liggi fyrir eftir atvikum.

Þetta álit ráðuneytisins hefur verið sent ríkislögreglustjóra en embættið hafði í bréfi til ráðuneytisins 4. maí haft efasemdir um að heimilt væri að bakgrunnsskoða ólögráða einstaklinga sem sækja um störf á haftasvæði flugverndar.

Forsaga málsins er fyrrgreint bréf ríkislögreglustjóra þar sem greint er frá að embættinu hafi borist ósk um að bakgrunnskoða nokkra tugi ólögráða einstaklinga sem starfa muni á haftasvæði flugverndar í sumar. Embættið dregur í efa að ólögráða einstaklingur geti veitt upplýst samþykki sitt fyrir slíkri athugun. Telur embættið að leita verði annarra leiða ef ráða eigi til sumarafleysinga ólögráða einstaklinga svo sem með breytingu á löggjöf.

Gerð er krafa um, lögum samkvæmt, að þeir sem sinna störfum sem hér um ræðir gangist undir bakgrunnsskoðun, óháð aldri þeirra sem í hlut eiga. Innanríkisráðuneytið telur hins vegar að ekki sé þörf á sérstakri lagaheimild til að krefja forsjáraðila þessara einstaklinga um samþykki vegna bakgrunnsskoðana barna þeirra eins og ríkislögreglustjóri fór fram á. Heimilt sé að bakgrunnsskoða einstaklinga undir lögaldri óháð slíkum lagaáskilnaði, með vísan til loftferðalaga og reglugerðar um flugvernd.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn