Hoppa yfir valmynd
8. maí 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mælt fyrir frumvarpi um starfsendurhæfingu

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur mælt fyrir á Alþingi frumvarpi til laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að almennt eigi allir einstaklingar rétt til atvinnutengdrar starfsendurhæfingar, hvort sem þeir eru á vinnumarkaði eða standa utan hans, að því gefnu að þeir uppfylli skilyrði frumvarpsins að öðru leyti.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga frá 5. maí 2011 er lögð áhersla á nauðsyn þess að byggja upp markvissa atvinnutengda starfsendurhæfingu með það fyrir augum að draga úr ótímabæru brottfalli launafólks af vinnumarkaði. Líkt og fram kemur frumvarpinu er stefnt að því að atvinnutengd starfsendurhæfing verði einn þáttur í heildstæðu kerfi endurhæfingar þar sem starfsendurhæfingarsjóðir og stofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga starfi saman eins og kostur er. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að einstaklingar sem þurfa aðstoð til að verða virkir í samfélaginu fái þjónustu við hæfi hverju sinni og er því gert ráð fyrir að fagaðilar innan fleiri en eins þjónustukerfis, svo sem heilbrigðiskerfis og félagslega kerfisins, vinni mjög náið saman þegar þess gerist þörf.

Frumvarpið byggist á vinnu samráðsnefndar um framtíðarskipulag starfsendurhæfingar þar sem í áttu sæti fulltrúar fjármálaráðuneytis, Landssamtaka lífeyrissjóða, velferðarráðuneytis og VIRK – starfsendurhæfingarsjóðs sem skipuð var í júní á síðasta ári. Er frumvarpið meðal annars lagt fram í því skyni að vinna að uppbyggingu markvissrar atvinnutengdrar starfsendurhæfingar einstaklinga með skerta starfsgetu í kjölfar veikinda eða slysa svo stuðla megi að þátttöku og virkni þeirra á vinnumarkaði.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum