Hoppa yfir valmynd
9. maí 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Velferðarvaktin fjallar um stöðu aldraðra og hvað megi betur fara

Vaktin fékk góða gesti á fund sinn þann 8. maí síðast liðinn þar sem fjallað var um þau atriði sem helst brenna á öldruðum.  Á fundinn komu Eyjólfur Eysteinsson formaður Félags eldri borgara á Suðurnesjum, Unnar Stefánsson formaður Félags eldri borgara í Reykjavík. og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir formaður Landssambands eldri borgara, sem flutti meðfylgjandi erindi.

Erindi Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur
á fundi velferðarvaktarinnar 8. maí 2012

Góðir fundarmenn, ég þakka  fyrir að fá tækifæri til að koma á fund ykkar og fjalla um málefni aldraðra.

Nú nýlega var ráðstefna  á vegum velferðarráðuneytis sem bar yfirskriftina lífskjör aldraðra.

Því miður var ég á öðrum fundi og  náði aðeins síðari hluta ráðstefnunnar.  Ég náði þó síðari hluta af ræðu Guðbjartar ráðherra.  Hann leggur mikið upp úr því að tekist  hafi að verja þá lægstlaunuðu í lífeyriskerfinu með aðgerðum 2008 og 2009.  Það má vissulega til sanns vegar færa að það tókst að forða sárustu fátækt.  En það er líka á kostnað þeirra sem höfðu það aðeins betra, því að með tengingu  lífeyrisgreiðslna við grunnlífeyri  1. júlí 2009,  hafði það í för með sér að þeir sem höfðu lífeyristekjur upp að kr. 60-70.000 á mánuði nutu einskis af þeim aðgerðum sem gerðar voru með hinni svokölluðu framfærsluuppbót.  Þeim hinum sömu var  haldið í þeirri gildru að komast ekkert upp fyrir það þak, sem framfærsluuppbótin gaf öðrum.  Ég er ekki að leggjast gegn því að hífa þetta fólk upp,  við í Landssambandinu fögnum þvi þegar þeir lægst launuðu fá betri kjör.  En mér finnst að þeir sem hafa greitt í lífeyrissjóð eigi að njóta þess að einhverju leyti. Þetta skapar líka verulega óánægju í samfélaginu sem mætti laga með því að draga til baka tengingu lífeyrisgreiðslna við grunnlífeyri.    Þess vegna höfum við lagt mikið upp úr því að fá til baka þá skerðingu sem gerð var með tengingu lífeyrisgreiðslna við grunnlífeyri 2009.  Okkur í LEB  finnst það vera prinsipmál að allir hafi eitthvað frá TR.  Almannatryggingar eiga að vera fyrir alla, þannig var  það lagt upp  í upphafi tryggingarkerfisins, þannig er það í Danmörku og Noregi.  Og erum við ekki að reyna að vera eins og nærræn velferðarkerfi.

Það sakar ekki að rifja upp tildrög almannatrygginga.  Alþyðuflokkurinn sem í dag er hluti af Samfylkingunni gerði það að skilyrði fyrir  þátttöku í Nýsköpunarstjórninni sem sat að völdum 1944-1946 að sett yrðu lög um almannatryggingar.  Og Ólafur Thors sem þá var forsætisráðherra samþykkti tillögu Alþýðuflokksins.  Í ræðu  sem hann  flutti um það mál sagði hann að almannatryggingar ættu að vera fyrir alla  án tillits til efnahags.  Hugsunin var að þetta væri hluti af eftirlaunum ekki fátækraframfærsla.   Fólk væri búið að  leggja  inn þessi réttindi með sköttum sínum.  Þegar síðan  lífeyrissjóðakerfinu var komið á   í kringum 1969 með samkomulagi  milli  ríkissstjórnarinnar ,  Vinnuveitendasambandsins  og Dagsbrúnar, þar sem launþegar greiddu ákveðna prósentu og vinnuveitendur framlag á móti, þá átti það að vera til viðbótar við almannatryggignarkerfið svokallaðan grunnlífeyri.  Þennan grunnlífeyri áttu allir að fá án tillits til annarra lífeyrissjóðstekna. 

Á þessu byggjum við í LEB okkar kröfur. 

En  það hefur reyndar verið hringlað með þennan grunnlífeyri og hann ekki  látinn fylgja almennum launahækkunum,  smátt og smátt var hann skertur og aðrir bótablokkar komu inn til að fólk hefði  framfærslu.   lífeyrissjóðir eigi alfarið að taka við þessu hlutverki að fólk hafi framfærslu er síðan verið að halda fram í vaxandi mæli. , það gengur hins vegar þvert á upprunalegu hugsunina um almannatryggingakerfið og  líka hvernig framkvæmdin er á Norðurlöndunum og hefur til skamms tíma verið hér en var afnumið með lögum 1 júlí 2009 með því að  tekjutengja grunnlífeyri  við aðrar tekjur frá lífeyrissjóðum.  Látum nú vera þó það hefði verið gert þá, sem reyndar var ekkert borið undir okkur bara skellt á fyrirvaralaust,   ef það  yrði síðan lagfært aftur þegar batnaði í ári í fjármálum ríkisins.  Nu hafa opinberir starfsmenn fengið til baka sínar skerðingar frá 2009, en ekkert bólar á leiðréttingu þessari til okkar eldri borgara Þetta viljum við að sé leiðrétt og er okkar stærsta krafa. 

Hjúkrunarheimilin.

Annað er það sem okkur er hugleikið og það eru  málefni hjúkrunarheimilanna.   Bæði það að fólk geti komist á hjúkrunarheimili þegar þess er þörf og þurfi ekki að bíða of lengi á sjúkrahúsi eftir plássi, enda  er það  líka  kostnaðarsamt fyrir samfélagið. Ríkisstjórnin tók myndarlega á þessu máli með því að ákveða byggingu 9 hjúkrunarheimila í landinu og það ber að þakka, enda nánast einu opinberu framkvæmdirnar í landinu.   Mikið er unnið að því að breyta tvíbýlum í einbýli, á þeim hjúkrunarheimilum sem fyrir eru,  annað er heldur ekki bjóðandi fullorðnu fólki. En við höfum rekið okkur á það í þjónustunefnd LEB að færni-og heilsumat sem gert  er  áður en folk flyst á hjúkruanrheimili er í mörgum tilvikum allt of strangt og þungt í vöfum. Undan því kvarta margir og þar er umbóta þörf.   Þá viljum við að greiðslufyrirkomulaginu verði breytt þannig að fólk  sjái fyrir hvað það er að greiða.  Fólk fái sinn lífeyri og greiði til hjúkrunarheimilisins það sem þarf, en ég tek það fram að ég tel að fólk eigi ekki að greiða fyrir hjúkrunina.  Það tel ég vera samfélagsmál alveg sama hvort  viðkomandi er á sjúkrahúsi eða hjúkrunarheimili.  Síðan verður að finna ásættanlega lausn á öðrum liðum og alveg eins og er í dag þá  geri ég ráð fyrir að Tryggingarstofnun þurfi að koma að því máli., því ekki fá allir svo mikinn lífeyri að .það dugi  fyrir kostnaði.  Í dag er  kostnaðurinn yfir 600 þúsund krónur á mánuði á hjúkrunarheimilum og það eru fæstir  sem hafa þær lífeyristekjur.

En það þarf að fara vel yfir þetta mál, skoða reynslu Dana t.d. sem hafa haft þannig fyrirkomulag í 20 ár.  Síðan vil ég taka fram að mér finnst sú stefna að  fækka dvalarheimilisplássum  vera röng.  Það er alltaf einhver hópur  eldri borgara sem þarf á því að halda að geta flutt að heiman og í öruggari dvalarstað jafnvel þó hann þurfi ekki hjúkrun að neinu ráði.  Þess vegna verða að vera fleiri valkostir en  annaðhvort að búa heima eða fara á hjúkrunarheimili.Og í dag kvíðir fólk  því að þurfa á hjúkrunarheimili að halda.   Eins konar Sambýli í anda þess sem var hjá fötluðum finnst mér koma til greina. En nú er víst stefnan sú að allir fatlaðir geti búið á eigin heimili,  ég verð að segja að þó það sé ágætt fyrir ýmsa og sjálfsagt að hafa þann valkost, þá voru það mistök að leggja niður sambýli fatlaðra. Búsetukostir þurfa að vera af ýmsum toga, og við viljum að það séu bæði  til íbúðir fyrir aldraða  til leigu og eignar á viðráðanlegu verði, sambýli, dvalarheimili, og  hjúkrunarheimili.

Að lokum

Málefni aldraðra er stór málaflokkur, öldruðum fjölgar á næstu árum, það er staðreynd og fleiri ná háum aldri.  Við í LEB erum vel meðvituð um það, og þá skiptir líka máli bæði að fólk sé virkt í samfélaginu eins lengi og mögulegt er,  taki ábyrgð á eigin heilsu og sem flestir  geti tekið ábyrgð á sinni lífsafkomu.  Við í Landssambandinu vinnum að því.  Lífeyrisjóðakerfið okkar er gott og við þurfum að standa vörð um það.  Gæta þess að  það fari ekki villur vegar í hendi óvarkárra  fjármálaspekúlanta.

Og almannatryggingakerfið var hugsað fyrir alla sem ein stoðin í afkomutryggingu. En skerðingarákvæði þar eru allt of þröng. En við vitum að það verða líka alltaf einhverjir sem fara halloka í lífsbaráttunni og þá bregst kerfið við með meiri stuðningi og þannig á það að vera.  

Takk fyrir 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum