Velferðarráðuneytið

Mál nr. 40/2012

Miðvikudaginn 30. maí 2012

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

 Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

Með bréfi, dags. 31. janúar 2012, kærir A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu sérstaks framlags vegna fermingar. Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með umsókn, dags. 3. nóvember 2011, fór barnsfaðir kæranda fram á milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu sérstaks framlags vegna fermingar sonar þeirra. Meðfylgjandi umsókninni var úrskurður sýslumannsins í Hafnarfirði, dags. 28. október 2011, sem kveður á um skyldu kæranda til að greiða barnsföður sínum 83.000 kr. vegna fermingarinnar. Með bréfi, dags. 4. nóvember 2011, var kæranda tilkynnt um að stofnunin hafi samþykkt umsókn barnsföður hennar og var hún krafin um greiðslu að fjárhæð 83.000 kr. í samræmi við úrskurð sýslumanns.

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir m.a. svo:

 „Erindi mitt er að kæra úrskurð Sýslumannsins í Hafnarfirði varðandi beiðni B [...] um sérstakt framlag vegna sonar okkar [...]. Ég vil gera athugasemdir varðandi kvittanir þær sem hann leggur fram. Sumar kvittanir eru ógreinilegar og sést ekki hvað er verið að versla. Svo er kvittun upp á 6.000 kr. sem er “herraklippingar”. Einnig er óvenju mikið magn af kjöti verslað.

Sjálf lagði ég út fyrir fermingargjaldi hjá Sr. D og ber B að greiða helming af því.“

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi, dags. 14. febrúar 2012. Í greinargerðinni, dags. 14. mars 2012, segir:

 „Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar um að samþykkja að verða við beiðni barnsföður kæranda, B, um að hafa milligöngu um greiðslu sérstaks framlags til hans vegna fermingar sonar þeirra E að fjárhæð kr. 83.000.

Málavextir eru þeir að Tryggingastofnun tilkynnti kæranda með bréfi dags. 4. nóvember 2011 að stofnunin hefði samþykkt að hafa milligöngu um greiðslu sérstaks framlags vegna fermingar til barnsföður kæranda að fjárhæð kr. 83.000.  Tryggingastofnun hafði borist umsókn barnsföður kæranda dags. 3. nóvember 2011 ásamt úrskurði sýslumannsins í Hafnarfirði dags. 28. október 2011 þar sem kom fram að kærandi ætti að greiða barnsföður sínum kr. 83.000 vegna fermingar barns þeirra E.

Í kæru kemur fram að kærandi geri athugasemdir við kvittanir þær sem barnsfaðir hennar lagði fram vegna úrskurðar um sérstakt framlag. Sjálf hafi kærandi lagt út fyrir fermingargjaldi hjá sr. D og segir kærandi að B beri að greiða helming af því. Kærandi fari því fram á að beiðni B um sérstakt framlag vegna fermingar verði endurskoðuð.

63. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 kveður á um það að hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 er Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna skv. IV. og IX. kafla, sem búsettur er hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setja.

Í úrskurði Félags- og tryggingamálaráðuneytisins dags. 16. febrúar 2010 segir að hlutverk Tryggingastofnunar sé eingöngu að hafa milligöngu um greiðslu meðlags þegar ákvörðun hefur verið tekin með lögmætum hætti. Ef foreldri leggur fram samkomulag um greiðslu meðlags sem staðfest er af sýslumanni beri Tryggingastofnun skv. 1. mgr. 63. gr. almannatryggingalaga og 67. gr. barnalaga að hafa milligöngu um greiðslu meðlags. Lög veiti Tryggingastofnun ekki heimild til að taka önnur gögn en talin eru upp í framangreindum ákvæðum til greina við milligöngu um greiðslu meðlags. Þar sem sömu lagagreinar gilda um sérstakt framlag og meðlag, þá á þetta einnig við um milligöngu Tryggingastofnunar á sérstöku framlagi.

Í málinu liggur fyrir úrskurður sýslumanns um greiðslu sérstaks framlags dags. 28. október 2011, en í honum kemur fram að kærandi skuli greiða barnsföður sínum Marteini kr. 83.000 vegna fermingar. Þá liggur fyrir umsókn Marteins dags. 3. nóvember 2011, um milligöngu Tryggingastofnunar um greiðslu framlagsins. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið, tilvitnuðum lagaákvæðum og fyrirliggjandi gögnum, bar Tryggingastofnun að hafa milligöngu um greiðslu framlagsins til barnsföður kæranda. Tryggingastofnun hefur ekki heimild til þess að breyta þeirri ákvörðun sinni.“

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 21. mars 2012, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um greiðslu sérstaks framlags vegna fermingar samkvæmt úrskurði sýslumanns.

Í kæru til úrskurðarnefndar gerir kærandi m.a. efnislegar athugasemdir við úrskurð sýslumannsins í Hafnarfirði um greiðslu sérstaks meðlags vegna fermingar.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er vísað til 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar og 67. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þá er greint frá því að úrskurður sýslumanns um greiðslu sérstaks framlags hafi legið fyrir auk umsóknar barnsföður kæranda um milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu framlagsins. Með hliðsjón af framangreindu hafi stofnuninni borið að hafa milligöngu um greiðslu framlagsins. 

Í 1. málsl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir svo:

 „Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga, nr. 76/2003, getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum.“

Í 60. gr. barnalaga nr. 76/2003, sem er að finna í IX. kafla laganna, er kveðið á um að heimilt sé að úrskurða meðlagsskylt foreldri um að inna af hendi sérstakt framlag vegna útgjalda við fermingu barns.

Með úrskurði sýslumannsins í Hafnarfirði, dags. 28. október 2011, hefur verið staðfest að kæranda beri að greiða barnsföður sínum 83.000 kr. í sérstakt framlag vegna fermingar sonar þeirra. Í samræmi við þann úrskurð hefur Tryggingastofnun ríkisins fallist á umsókn barnsföður kæranda um milligöngu um greiðslu framlagsins.

Hlutverk Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við greiðslu sérstaks framlags vegna fermingar markast af ákvæðum viðeigandi laga. Samkvæmt fyrrnefndri 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar ber stofnunin lögbundna skyldu til að hafa milligöngu um greiðslu sérstaks framlags vegna fermingar í tilvikum þar sem úrskurður sýslumanns liggur fyrir. Í ákvæðinu segir nánar tiltekið að hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga geti snúið sér til Tryggingastofnunar og fengið fyrirframgreiðslu samkvæmt úrskurðinum.

Með hliðsjón af framangreindu, fyrirliggjandi úrskurði sýslumanns og 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er það mat úrskurðarnefndar almannatrygginga að Tryggingastofnun ríkisins beri lögbundna skyldu til að hafa milligöngu um greiðslu sérstaks framlags vegna fermingar. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að krefja kæranda um 83.000 kr. vegna framlagsins er því staðfest.

Í kæru gerir kærandi efnislegar athugasemdir við úrskurð sýslumannsins í Hafnarfirði. Að því virtu telur úrskurðarnefnd almannatrygginga rétt að árétta hlutverk nefndarinnar sem hefur verið markað í lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar. Samkvæmt 7. gr. laganna leggur úrskurðarnefndin úrskurð á mál rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta samkvæmt lögunum. Með hliðsjón af því hefur úrskurðarnefnd almannatrygginga enga heimild lögum samkvæmt til að taka til endurskoðunar efnislegan ágreining um úrskurð sýslumannsins í Hafnarfirði. 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um greiðslu sérstaks framlags vegna fermingar til barnsföður A, er staðfest.

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn