Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 11/2012. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 24. maí 2012

í máli nr. 11/2012:

Bikun ehf.

gegn

Vegagerðinni

Með bréfi, dags. 14. maí 2012, kærði Bikun ehf. ákvarðanir Vegagerðarinnar um að ganga ekki til samninga við kæranda í kjölfar útboðanna „Yfirlagnir á Norðvestursvæði 2012, klæðning“, „Yfirlagnir á Norðaustursvæði 2012, klæðning“ og „Yfirlagnir á Suðursvæði og Suðvestursvæði 2012 - Klæðning“. Kröfur kæranda eru orðaðar með eftirfarandi hætti:

„1. Þess er krafist að samningagerðir við Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf. og Borgarverk ehf. verði stöðvaðar um stundarsakir eða verkin sjálf.

 

2. Þess er krafist að framangreindar ákvarðanir kærða verði úr gildi felldar og breytt á þann veg að kærða verði gert skylt að ganga til samninga við kæranda vegna framangreindra verka.

 

3. Krafist er viðurkenningar á skaðabótaskyldu kærða vegna framangreindra ákvarðana.

 

4. Krafist er málskostnaðar vegna meðferðar málsins fyrir kærunefndinni.“

 

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun á samningsgerð. Með bréfi, dags. 23. maí 2012, krafðist kærði þess að kröfu um stöðvun samningsgerðar yrði hafnað.

 

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva samningsgerð í kjölfar hins kærða útboðs.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.

  

I.

Í mars 2012 auglýsti kærði útboð á verkunum „Yfirlagnir á Norðvestursvæði 2012, klæðning“, „Yfirlagnir á Norðaustursvæði 2012, klæðning“ og „Yfirlagnir á Suðursvæði og Suðvestursvæði 2012 - Klæðning“.  

            Kærandi var meðal bjóðenda í útboðinu og tilboð voru opnuð hinn 3. apríl 2012. Hinn 11. apríl 2012 tilkynnti kærði að hann hefði ákveðið að ganga til samninga við lægstbjóðanda, Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf., um verkið „Yfirlagnir á Suðursvæði og Suðvestursvæði 2012, klæðning“. Hinn 16. apríl 2012 tilkynnti kærði að hann hefði ákveðið að ganga til samninga við lægstbjóðanda, Borgarverk ehf., um verkið „Yfirlagnir á Norðvestursvæði 2012, klæðning“. Hinn 23. apríl 2012 tilkynnti kærði að hann hefði ákveðið að ganga til samninga við lægstbjóðanda, Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf., um verkið „Yfirlagnir á Norðaustursvæði 2012“, klæðning“.

            Kærði gerði endanlega samning við Borgarverk ehf., um verkið „Yfirlagnir á Norðvestursvæði 2012, klæðning“ hinn 27. apríl 2012. Kærði gerði endanlega samninga við Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf., um verkið „Yfirlagnir á Suðursvæði og Suðvestursvæði 2012 - Klæðning“ hinn 24. apríl 2012 og um verkið „Yfirlagnir á Norðaustursvæði 2012“ hinn 4. maí 2012.

                       

II.

Kærandi telur að Borgarverk ehf. og Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf. uppfylli ekki ákvæði útboðsskilmála þannig að hægt sé að ganga til samninga við félögin. Kærandi segir að Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf. hafi gert nauðasamning við lánardrottna sína og því ekki getað uppfyllt eiginfjárskilyrði. Kærandi telur að kærði hefði átt að krefja Borgarverk ehf. skýringa á endurmati véla í ársreikningum en kærandi segir að endurmat þetta hafi ráðið úrslitum um það hvort Borgarverk uppfyllti skilyrði til þátttöku í útboðinu. Kærandi segir að endurmatið sé svo grunsamlegt að kærða hafi borið að kanna málið betur.     

III.

Kærði segir að endanlegir samningar hafi þegar verið gerðir í kjölfar hins kærða útboðs.

 IV.

Í 1. mgr. 76. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, segir að líða skuli a.m.k. tíu dagar frá því að ákvörðun um val tilboðs er tilkynnt þar til tilboð er endanlega samþykkt. Fyrir liggur að tíu dagar liðu frá því að kærði birti ákvörðun um val tilboða og þar til endanlegir samningar voru gerðir á grundvelli þeirra. Þannig eru bindandi samningar komnir á og verða þeir ekki felldir úr gildi eða þeim breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 84/2007. Þegar af þeirri ástæðu telur kærunefnd útboðsmála ekki skilyrði til að stöðva samningsgerð þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007.

  

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Bikunar ehf., um að stöðvuð verði samningsgerð kærða, Vegagerðarinnar, við Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf. og Borgarverk ehf. um verkin verkin „Yfirlagnir á Norðvestursvæði 2012, klæðning“, „Yfirlagnir á Norðaustursvæði 2012, klæðning“ og „Yfirlagnir á Suðursvæði og Suðvestursvæði 2012 - Klæðning“, er hafnað.

 

 

                                                 Reykjavík, 24. maí 2012.

                                                 Páll Sigurðsson

                                                 Auður Finnbogadóttir

                                                 Stanley Pálsson

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík,                maí 2012.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn