Hoppa yfir valmynd
7. júní 2012 Innviðaráðuneytið

Húsnæðisstefna rædd á aðalfundi Búmanna

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra ræddi stefnumótun á sviði húsnæðismála á aðalfundi Búmanna sem haldinn var í gær. Hann sagði meginmarkmið stefnumótunar sem nú er unnið að ver að tryggja landsmönnum fjölbreytta og örugga valkosti í húsnæðismálum með áherslu að efla leigu- og búseturéttarkosti og stuðla að jöfnuði milli búsetuforma:

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherraHúsnæðismál eru í brennidepli, ekki aðeins hjá Búmönnum, heldur líka hjá stjórnvöldum, eins og ykkur er kunnugt um. Nú er ár liðið frá því að samráðshópur sem ég fól að móta drög að húsnæðisstefnu skilaði mér skýrslu sinni og tillögum sem formaður hópsins, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, kynnti á aðalfundi ykkar fyrir réttu ári. Í stuttu máli var þar skilgreint það meginmarkmið að með húsnæðisstefnu skuli tryggja landsmönnum fjölbreytta og örugga valkosti í húsnæðismálum og sérstök áhersla lögð á að efla leigu- og búseturéttarkosti og stuðla að jöfnuði milli búsetuforma.

Síðastliðið ár hefur verið unnið með þann grunn sem samráðshópurinn lagði, til að útfæra nánar hugmyndafræði og tillögur sem þar voru kynntar. Unnið hefur verið að þessu í nokkrum vinnuhópum sem hver um sig hefur haft afmörkuð verkefni og fjallað um upptöku húsnæðisbóta, rekstrar- og skattaumhverfi leigufélaga, gerð opinberrar húsnæðisáætlunar, stóreflda og samræmda skráningu upplýsinga um húsnæðismarkaðinn og miðlun þeirra og loks endurskoðun húsaleigulaga og laga um húsnæðissamvinnufélög. Stefnt er að því að leggja fram frumvörp til breytinga á þessum lögum á Alþingi næsta haust. Síðast en ekki síst hafa lög um húsnæðismál verið endurskoðuð og er frumvarp til breytinga á þeim til meðferðar á Alþingi og verður að líkindum samþykkt fyrir þinglok.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum