Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál 16/2012. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 29. júní 2012

í máli nr. 16/2012:

Íslenska gámafélagið ehf.

gegn

Sorpu bs.

Með bréfi, dags. 19. júní 2012, kærði Íslenska gámafélagið ehf. útboð Sorpu bs. vegna útboðsins „Endurvinnslustöðvar – Gámaleiga, flutningur og losun gáma frá endurvinnslustöðvum SORPU“.  Kröfur kæranda eru orðaðar með eftirfarandi hætti:

„1. Að kærunefnd útboðsmála stöðvi um stundarsakir útboð kærða í samræmi við 1. mgr. 96. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007.

2. Að kærunefnd útboðsmála úrskurði að fella skuli niður ólögmæta skilmála útboðsins í samræmi við 1. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.

Að kærunefnd útboðsmála geri kærða að auglýsa útboðið á nýjan leik í samræmi við 1. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.“

 

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun á samningsgerð. Með bréfi, dags. 21. júní 2012, krafðist kærði þess að kröfu um stöðvun samningsgerðar yrði hafnað.

 

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva samningsgerð í kjölfar hins kærða útboðs.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.

 

I.

Hinn 8. maí 2012 auglýsti kærði útboðið „Endurvinnslustöðvar – Gámaleiga, flutningur og losun gáma frá endurvinnslustöðvum SORPU“. Grein 0.1.4. í útboðinu nefnir „Upplýsingar um bjóðendur“ og þar segir:

            „Bjóðendur skulu leggja fram með tilboði sínu eftirfarandi upplýsingar:

a)      Almennar upplýsingar um bjóðanda, fyrirtæki hans og starfslið.

b)      Nöfn og starfsreynslu helstu stjórnenda sem að verkinu koma.

c)      Upplýsingar um umhverfisstefnu bjóðanda.

d)     Upplýsingar um gæðakerfi.

e)      Upplýsingar um flotastýringarkerfi (kerfi sem gefur upplýsingar um staðsetningu gáma og flutningatækja á hverjum tíma).

 

Verkkaupi áskilur sér rétt til að ganga ekki til samninga við bjóðanda sem ekki leggur fram ofangreindar upplýsingar. Verkkaupi metur tilboð bjóðanda m.a. af ofan­greindum upplýsingum og eru þær bindandi fyrir þann verktaka sem samið verður við og honum óheimilt að víkja frá þeim án samþykkis verkkaupa.

 

Verkkaupi mun kanna fjárhag þeirra bjóðenda sem til álita koma sem verktakar og skulu þeir leggja fram eftirtalin gögn, verði þess óskað:

·         Ársreikning undanfarins árs. Ársreikningur skal áritaður af endurskoðanda.

·         Árshlutareikning yfirstandandi árs.

·         Staðfestingu frá þeim lífeyrissjóðum sem fyrirtækinu ber að greiða iðgjöld til vegna starfsmanna sinna, þar með taldir stjórnendur, um að bjóðandi sé ekki í vanskilum með lífeyrissjóðsiðgjöld.

·         Yfirlýsingu frá viðskiptabanka um bankaviðskipti og greiðsluhæfi bjóðanda.

·         Staðfestingu á að opinber gjöld séu greidd.

 

Ef eitt eða fleiri af eftirtöldum atriðum á við um bjóðanda, verður ekki gengið til samninga hann:

·         Bjóðandi er í vanskilum með opinber gögn.

·         Bjóðandi er í vanskilum með lífeyrissjóðsiðgjöld starfsmanna/stjórnenda.

·         Ársreikningur bjóðanda sýnir neikvætt eigið fé.

·         Bjóðandi er í nauðasamningum eða gjaldþrotaskiptum.“

                       

II.

Kærandi segir að alvarlegir gallar séu á útboðsgögnum og að þau séu í ósamræmi við lög nr. 84/2007, um opinber innkaup. Kærandi segir að í grein 0.1.4. megi sjá upptalningu á þeim upplýsingum sem kærði muni leggja til grundvallar við mat á hagkvæmasta tilboði. Kærandi segir að hvergi í útboðsgögnum sé að finna hlutfallslegt vægi hvers viðmiðs og því sé framsetning valforsendna ólögmæt. Kærandi segir að mat tilboða geti ekki grundvallast á forsendum útboðsgagna.

            Kærandi segir að í útboðsgögnum komi fram að kærði muni kanna fjárhag þeirra bjóðenda sem komi til álita og skuli þeir leggja fram gögn verði þess óskað. Af þessu segir kærandi mega sjá að kærða sé í lófa lagið hvort hann kalli eftir upptöldum gögnum og ekki víst t.d. að lægstbjóðandi muni verða krafinn um gögnin.

            Kærandi segir að verkið sé í raun sex sjálfstæð verk þar sem kærði muni skoða tilboð í hvert og eitt verk. Hins vegar áskilji kærði sér rétt til að hafna hagkvæmasta tilboðinu í hverja endurvinnslustöð á þeim grundvelli að önnur tilboð í aðrar endurvinnslustöðvar séu metin með hliðsjón af öðrum tilboðum. Kærandi segir þetta sé ólögmætt og hvert og eitt tilboð beri að meta sjálfstætt.

 

III.

Kærði segir að ákvæði 0.1.4 í útboðsgögnum feli ekki í sér matslíkan vegna forsendna fyrir vali á tilboðum heldur sé það gert í ákvæði 0.4.1. Kærði segir að ekki hafi verið kallað eftir þeim gögnum og upplýsingum sem nefnd eru í ákvæði 0.1.4 og varða fjárhagslegt hæfi bjóðenda. Kærði segist munu ganga úr skugga um að þeir bjóðendur sem komi til álita séu hæfir. Kærði segir ekki hafa neina hagsmuni af því að staðreyna ekki hvort bjóðendur standist hæfiskröfur.

            Kærði segir að útboðið geri ráð fyrir því að bjóðandi í hinu kærða útboði geti fengið samning um fleiri en einn þjónustuþátt og geti þá veitt afslátt í samræmi við fjölda þjónustuþátta. Kærði segir að matslíkan tilboða sé ekki í andstöðu við lög. Þá segir kærði að ekkert ósamræmi sé í gögnunum, þau séu skýr og gagnsæ.  

 

IV.

Í 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, segir að kæra skuli borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá því að kærandi vissi eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Alltaf er þó heimilt að bera kæru undir kærunefnd útboðsmála innan 15 daga frá því að rökstuðningur skv. 75. gr. er veittur.

            Auglýsing um hið kærða útboð birtist hinn 8. maí 2012 og útboðsgögn var hægt að nálgast frá og með sama degi. Verður að líta svo á að kærandi, jafnt sem aðrir, hafi mátt vita um þau atriði sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum frá og með 8. maí 2012. Kæra er dagsett 19. júní 2012. Þegar kæran var borin undir nefndina var fjögurra vikna kærufrestur þannig liðinn.

            Þegar af þeirri ástæðu telur kærunefnd útboðsmála ekki skilyrði til að stöðva samningsgerð þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007.

 

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Íslenska gámafélagsins ehf., um að stöðvað verði útboð kærða, Sorpu bs., í útboðinu „Endurvinnslustöðvar – Gámaleiga, flutningur og losun gáma frá endurvinnslustöðvum SORPU“, er hafnað.

 

 

                                              Reykjavík, 29. júní 2012.

                                              Páll Sigurðsson

                                              Auður Finnbogadóttir

                                              Stanley Pálsson

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík,                júní 2012.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn