Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 14/2012. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 29. júní 2012

í máli nr. 14/2012:

Félag hópferðarleyfishafa

gegn

Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga

og

Fjölbrautaskóla Suðurlands

Með bréfi, dags. 11. júní 2012 sem barst kærunefnd útboðsmála hinn 13. júní 2012, kærði Félag hópferðarleyfishafa útboð Sambands sunnlenskra sveitarfélaga, sem á m.a. rætur að rekja til samnings við Fjölbrautaskóla Suðurlands nr. 12842 „Viðbótarakstur almenningsvagna á Suðurlandi“.  Kröfur kæranda eru orðaðar með eftirfarandi hætti:

„Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi útboð 12842 á „Viðbótarakstri almenningsvagna á Suðurlandi“ með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007, þar til endanlega hefur verið skorið úr öllum kröfum kæranda.

 

Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun Fjölbrautaskóla Suðurlands um að veita SASS heimild til að annast útboð fyrir sína hönd, sbr. heimild í 1. málslið 1. mgr. 97. gr. l. nr. 84/2007.

 

Í öllum tilfellum krefst kærandi þess að nefndin ákveði að varnaraðili greiði kæranda kostnað hans við að hafa kæruna uppi, alls 400.000 kr., sbr. heimild í 3. mgr. 97. gr. l. nr. 84/2007.“

 

Kærðu var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærðu vegna kröfu kæranda um stöðvun á samningsgerð. Með bréfum, dags. 19., 20. og 28. júní 2012, kröfðust kærðu þess aðallega að kröfum kæranda yrði í heild sinni vísað frá nefndinni en til vara að kröfu um stöðvun samningsgerðar yrði hafnað.

 

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva samningsgerð í kjölfar hins kærða útboðs.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.

 

I.

Kærði, Fjölbrautaskóli Suðurlands, hefur gert samning við kærða, Samband sunnlenskra sveitarfélaga, á þann veg að hinn síðarnefndi taki að sér umsjón og rekstur skólaaksturs fyrir hinn fyrrnefnda. Aksturinn mun verða hluti af almenningssamgöngukerfi Sambands sunnlenskra sveitarfélaga á Suðurlandi. Í maí 2012 var svo auglýst útboð nr. 12824 „Viðbótarakstur almenningsvagna á Suðurlandi“.

                       

II.

Kærandi segir að Fjölbrautaskóli Suðurlands sé opinber aðili og umrædd kaup séu yfir þeim mörkum sem leiði til útboðsskyldu samkvæmt lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup. Kærandi segir meginreglu laganna vera að sérhver aðili þurfi sjálfstætt að fullnægja þeim skyldum sem á hann séu lagðar í lögunum, þ.m.t. að framfylgja útboðsskyldu. Kærandi segir einu undantekninguna frá þessu í lögum um opinber innkaup vera í 85. gr. laganna þar sem fram komi að Ríkiskaup geri rammasamninga fyrir hönd ríkisins og annist útboð og önnur innkaupaferli sem fram fari á vegum ríkisstofnana vegna innkaupa. Kærandi segir tilgang þessa lagaákvæðis að gæta jafnræðis milli bjóðenda.

            Kærandi segir að samkvæmt 4. og 4. gr. laga nr. 92/2008 séu framhaldsskólar ríkisstofnanir sem heyri undir ráðherra og því sé hafið undir allan vafa að Ríkiskaup sé eini aðilinn sem hafi heimild samkvæmt lögum til að annast umrætt útboð.

            Kærandi segir að Samband sunnlenskra sveitarfélaga hafi þegar samið við Hópbíla hf. um einkaleyfisakstur á Suðurlandi og að samið hafi verið án útboðs. Kærandi vísar til þess að kærunefnd útboðsmála hafi í úrskurði nr. 39/2011 komist að þeirri niðurstöðu að lög hafi verið brotin við þau innkaup.

Þá segir kærandi að útboð um skólaakstur  Fjölbrautaskóla Suðurlands sé sérsniðið að þeim aðila sem sinni einkaleyfisakstri fyrir Samband sunnlenskra sveitarfélaga og því ómögulegt fyrir aðra að bjóða á jafnréttisgrundvelli. Kærandi segir að í útboðslýsingu komi fram að ekki verði samið um tilboð sem sé hærra en 66 milljónir og telur vafamál að slíkur áskilnaður sé heimill.

 

III.

Kærði, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, segist hafa einkaleyfi á almenningssamgöngum á Suður- og Suðausturlandi. Kærði segist hafa tekið að sér umsjón og rekstur skólaaksturs fyrir Fjölbrautaskóla Suðurlands með því að sameina hann almenningssamgöngum sínum. Kærði segist fá greidda þá fjárhæð sem nemi akstursstyrk Fjölbrautaskólans auk helmings þess umsýslugjalds sem skólinn fái fyrir hvern nemanda.

            Kærði telur kæruna of seint fram komna og auk þess sé kröfugerð með þeim hætti að vísa verði henni í heild frá nefndinni. Kærði segir að Fjölbrautaskólinn hafi ekki veitt sér heimild til að annast um útboð fyrir sína hönd heldur sé hið umþrætta útboð á forræði kærða. Kærði hafi hins vegar gert samning við Fjölbrautaskólann um samnýtingu þjónustunnar en kærunefnd útboðsmála hafi enga heimild til að ógilda slíka samninga milli tveggja opinberra aðila á einkaréttarlegum grundvelli, sbr. 12. gr. laga nr. 84/2007. Kærði segir að 12. gr. laga nr. 84/2007 taki ekki til þjónustusamninga sem gerðir séu við aðila sem sjálfir teljist kaupendur eða á grundvelli einkaréttar sem þeir njóti samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.

            Kærði segir að hið umþrætta útboð lúti ekki að skólaakstri heldur almenningssamgöngum. Þarfir nemenda Fjölbrautaskólans hafi vissulega verið teknar með í reikninginn við skipulagningu akstursins en áætlaður akstur þjóni samt einkum tilgangi almenningssamgangna enda sé hann opinn öllum almenningi, ekki aðeins nemendum skólans. Kærði bendir á að útboðið hefði farið fram hvort sem gert hefði verið samkomulag við skólann eða ekki. Kærði telur það ekki standast að honum og skólanum hafi verið skylt að bjóða út í tvennu lagi akstur sem auðveldlega hafi mátt sameina.

Kærði segir að útboðið hafi farið eftir lögum nr. 84/2007 í hvívetna og að fyllsta jafnræðis hafi verið gætt. Kærði telur að kærandi hafi hefði verið eins settur ef útboðið hefði farið fram í umsjón Ríkiskaupa.

            Kærði, Fjölbrautaskóli Suðurlands, segir að ekki hvíli skylda á framhaldsskólum til þess að sinna skólaakstri en aftur á móti séu námsstyrkir í boði sem eigi m.a. að jafna aðstöðumun vegna búsetu. Kærði segir að samningur við samtökin lúti ekki að opinberum innkaupum heldur einungis ákveðna samvinnu milli kærðu. Kærði segir að samningurinn stuðli að betri nýtingu opinberra fjármuna. Þá segir kærði að kominn sé á bindandi samningur milli hans og samtakanna sem nefndin geti ekki fellt úr gildi, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga um opinber innkaup.

 

IV.

Í 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, segir að kæra skuli borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá því að kærandi vissi eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Alltaf er þó heimilt að bera kæru undir kærunefnd útboðsmála innan 15 daga frá því að rökstuðningur skv. 75. gr. er veittur.

            Auglýsing um hið kærða útboð birtist hinn 12. maí 2012 en útboðsgögn var hægt að nálgast frá og með 14. maí 2012. Verður að líta svo á að kærandi, jafnt sem aðrir, hafi mátt vita um þau atriði sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum frá og með 14. maí 2012. Kæra er dagsett 11. júní 2012 en barst kærunefnd útboðsmála hinn 13. júní 2012. Þegar kæran var borin undir nefndina 13. júní 2012 var fjögurra vikna kærufrestur þannig liðinn.

            Þegar af þeirri ástæðu telur kærunefnd útboðsmála ekki skilyrði til að stöðva samningsgerð þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007.

 

 

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Félags hópferðarleyfishafa, um að stöðvað verði útboð kærðu, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og Fjölbrautasrkóla Suðurlands, nr. 12842 „Viðbótarakstur almenningsvagna á Suðurlandi“, er hafnað.

 

 

                                               Reykjavík, 29. júní 2012.

                                               Páll Sigurðsson

                                               Auður Finnbogadóttir

                                               Stanley Pálsson

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík,                júní 2012.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn