Hoppa yfir valmynd
10. júlí 2012 Utanríkisráðuneytið

Ísland styður gerð alþjóðasamnings um vopnaviðskipti

Fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, Gréta Gunnarsdóttir, ávarpaði hinn 9. júlí ráðstefnu SÞ um gerð alþjóðasamnings um vopnaviðskipti. Hún greindi frá helstu áherslumálum Íslands en íslensk stjórnvöld styðja heils hugar að samstaða náist um viðtækan og metnaðarfullan samning um viðskipti með allar gerðir vopna, skotfæra og tengda þjónustu. Slíkur samningur, sem er ætlað að koma í veg fyrir ólögmæt vopnaviðskipti, muni stórlega auka öryggi og stöðugleika í heiminum. Vopnaviðskipta-samningur tryggi strangt eftirlit með innflutningi, útflutningi og gegnumferð hergagna og stjórnvöld í aðildarríkjum SÞ verði að sýna fullt gagnsæi í vopnaviðskiptamálum og framkvæmd samningsins.

Konur og börn verða oft fyrir þyngri áföllum í styrjöldum vegna kynbundins ofbeldis  og því telja íslensk stjórnvöld mikilvægt að komið sé í veg fyrir vopnaviðskipti ef talin sé hætta á að þau séu notuð til í þeim tilgangi. Samningurinn eigi að taka fullt tillit til mannréttinda og mannúðarsjónarmiða, með sérstakri áherslu á stöðu kvenna.

Ávarp fastafulltrúa má lesa hér.

Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um gerð vopnaviðskiptasamnings stendur yfir í New York 2.-27. júlí 2012. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna hér. Nánari upplýsingar um afstöðu Íslands gagnvart gerð vopnaviðskiptasamnings má finna hér. Ráðstefnan er sótt af fulltrúum Íslands í New York og frá utanríkisráðuneytinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum