Hoppa yfir valmynd
13. júlí 2012 Innviðaráðuneytið

Fimmta lægsta dánartíðni af völdum umferðarslysa

Ísland er fimmta landið í röð þeirra ríkja í Evrópu sem hafa lægstu dánartíðni í umferðinni. Banaslysum í umferðinni hérlendis hefur fækkað á síðustu árum og árið 2010 var dánartíðnin sú lægsta í öllum ríkjum OECD ríkja eða 2,5 á hverja 100 þúsund íbúa. Þessi þróun á sér stað á sama tíma og umferð hefur aukist verulega.

Umferðarstofa tók nýverið saman tölur um fjölda þeirra sem látast í umferðinni og samanburð við 28 lönd í Evrópu. Borinn er saman fjöldi látinna og miðað við milljón íbúa til samanburðar við önnur ríki og kemur þá í ljós að hér á landi létust árlega að jafnaði 40,6 einstaklingar í umferðinni á hverja milljón íbúa á tímabilinu 2007 til 2011. Holland sýnir bestan árangur með 37,6 einstaklinga en á eftir þeim kemur Bretland með 38,8, Svíþjóð með 39, Malta með 39,8 og síðan Ísland með 40,6 eins og fyrr sagði. Í Litháen létust 131,8 einstaklingar á hverja milljón íbúa en þar er fjöldi banaslysa mestur.

Betri árangur en hjá flestum Evrópuríkjum

Banaslysum hér á landi hefur fækkað á síðustu árum en árin 2002 til 2004 létust yfir 20 á ári, 19 árið 2005 en hins vegar lést 31 árið 2006. Síðan hefur fjöldi banaslysa verið undir 20 eða allt á milli 8 og 17 og í fyrra voru þau 12. Sama þróun hefur verið uppi á teningnum í flestum Evrópulöndum. Í samantekt Umferðarstofu kemur fram að árin 2002 til 2006 létust að meðaltali 84,4 einstaklingar á hverja milljón íbúa hér á landi eða rúmlega tvöfalt fleiri en á fimm ára tímabilinu þar á eftir. Fækkunin er mun meiri hér á landi en hjá flestum öðrum Evrópulöndum þar sem Ísland hefur færst úr níunda sæti upp í það fimmta eins og fyrr sagði.

Þá kemur fram í skýrslu International Transport Forum sem tekin var saman í tengslum við árlegan alþjóðafund samgönguráðherra í vor að á Íslandi eru fæst banaslys í umferðinni miðað við ekna kílómetra. Þannig létust hérlendis árið 2010 2,6 á hvern milljarð ekinna km, 3,2 í Svíþjóð, 3,7 í Bretlandi, 4,5 á Írlandi og 4,9 í Noregi.

Bent skal á að tölur um fjölda banaslysa hérlendis eru lágar og þær sveiflast mikið milli ára. Þrátt fyrir það er ljóst þegar tekin eru saman fimm ára meðaltöl síðustu ára að þróunin er sú að slysatíðnin fer lækkandi.

Margvíslegar skýringar

Skýringar á fækkun banaslysa síðustu árin eru margþættar. Nefna má meiri aga og betri hegðun í umferðinni, endurbætur á stöðum á vegakerfinu þar sem slys hafa verið tíð og að einhverju leyti betri bílar og öruggari. Með öðrum orðum: Betri ökumenn, betra vegakerfi og betri bílar.

Umferðaröryggisáætlun samgönguyfirvalda er hluti af samgönguáætlun. Markmið stjórnvalda um  aukið umferðaröryggi árið 2022 eru að fjöldi látinna í umferð á hverja 100.000 íbúa verði ekki meiri en það sem lægst gerist hjá öðrum þjóðum á sama tímabili. Einnig að fjöldi látinna og alvarlega slasaðra í umferð lækki að jafnaði um ekki minna en 5% á ári til ársins 2022. Þessi markmið hafa náðst hvað varðar banaslys en betur má ef duga skal hvað varðar fjölda alvarlega slasaðra.

Með umferðaröryggisáætlun er hrint í framkvæmd fjölmörgum aðgerðum til að draga úr slysahættu. Haldið verður áfram að lagfæra staði þar sem mörg slys hafa orðið og bæta umhverfi vega til að draga úr hættu á alvarlegum slysum við útafakstur. Jafnframt verður lögð áhersla á að aðgreina akstursstefnur á umferðarmestu vegunum, fjölga löggæslumyndavélum og að könnuð verði sú leið að tekjur af sektargreiðslum standi undir kostnaði vegna myndavéla. Aukið eftirlit og aðhald vegna hraðaksturs með fleiri löggæslumyndavélum og auknu eftirliti lögreglu hefur orðið til þess að dregið hefur úr hraðakstri og þar með slysahættu.

Margir samverkandi þættir hafa leitt til fækkunar slysa eins og hér hefur verið rakið en ökumaðurinn sjálfur á ekki minnstan þátt í þessari þróun og er það vel.

Á þessari mynd Umferðarstofu má sjá samanburð á slysatíðni í 28 ríkjum Evrópu.

Banaslys---medaltal-2007-2011 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum