Hoppa yfir valmynd
17. júlí 2012 Dómsmálaráðuneytið

Lagabreytingar vegna samnings Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misnotkun

Alþingi hefur samþykkt frumvarp innanríkisráðherra um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, vegna fullgildingar samnings Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun. Frumvarpið var samið hjá refsiréttarnefnd að beiðni innanríkisráðherra. Lögin tóku gildi 11. júní sem lög nr. 58/2012.

Breytingarnar á lögunum varða fyrningarfrest brota er lúta að vændi barna, þátttöku barna í nektarsýningum og mansalsbrot gegn börnum. Fyrningarfrestur í þessum brotum hefst nú ekki fyrr en við 18 ára aldur þess sem í hlut á. Þá er gert refsivert að mæla sér mót við barn með samskiptum um alnetið eða annarri upplýsinga- eða fjarskiptatækni eða með öðrum hætti í því skyni að hafa við það samræði, önnur kynferðismök, eða áreita barnið kynferðislega með öðrum hætti. Einnig var bætt við almenn hegningarlög sérstöku ákvæði um barnaklám sem fól í sér að eldra ákvæði 4. mgr. 210. gr. hefur fallið brott. Einnig er refsivert að skoða myndir, myndskeið eða aðra sambærilega hluti sem sýna barn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt á netinu eða í gegnum annars konar upplýsinga- og fjarskiptatækni.

Að lokum skal þess getið að með lagabreytingunni var síðari málsliður 3. mgr. 93. gr. og ákvæði 4. mgr. 97. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 felld brott og í stað þeirra kom sérstakt refsiákvæði í almenn hegningarlög varðandi þátttöku barna í nektarsýningum og öðrum sýningum af kynferðislegum toga. Þá er gert refsivert að sækja nektar- eða klámsýningu þar sem börn eru þátttakendur.

Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um fullgildingu á samningi Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun 15. mars sl. Í kjölfar lagabreytinganna getur Ísland því lokið fullgildingarferlinu á samningnum.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum