Dómsmálaráðuneytið

Breyting á lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili

Lagafrumvarp innanríksiráðherra um breytingu á lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili, nr. 85/2011, var samþykkt á Alþingi í lok maí. Með lagabreytingunni var 15. gr. laganna breytt á þann hátt að ný málsgrein bættist við sem mælir fyrir um heimild til þess að kæra úrskurð héraðsdóms um nálgunarbann og eða brottvísun af heimili til æðri dóms.

Breytingartillögur frumvarpsins voru lagðar til í framhaldi af dómi Hæstaréttar frá 14. október 2011 í máli nr. 557/2011. Í dóminum er vísað til þess að sérstaka kæruheimild sé ekki að finna í lögum nr. 85/2011. Þá segir að þótt ákvæði laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, skuli gilda um málsmeðferð samkvæmt lögunum eftir því sem við á, sbr. 18. gr. þeirra, falli hinn kærði úrskurður ekki undir neina af kæruheimildum 192. gr. laga nr. 88/2008 og slík heimild yrði heldur ekki fundin annars staðar í lögum. Var það því niðurstaða Hæstaréttar að ekki væri fyrir hendi heimild til kæru úrskurðarins og var málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Lögin öðluðust þegar gildi sem lög nr. 39/2012.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn