Hoppa yfir valmynd
19. júlí 2012 Dómsmálaráðuneytið

Breytingar á lögum um útgáfu lagasafns

Alþingi samþykkti í maí frumvarp innanríkisráðherra um breytingu á lögum nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað. Breytingunum er ætlað að treysta grundvöll útgáfu lagasafns sem gefið hefur verið út í prentuðu formi frá árinu 1931 og sem birt hefur verið á vefsvæði Alþingis.

Tilefni þessara lagabreytinga er að í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5112/2007 var á það bent að meinbugir væru á lögum þar sem ósamræmi væri á milli ákvæða laga nr. 48/1929, um laganefnd,annars vegar og hins vegar 17. tölul. 3. gr. reglugerðar nr. 177/2007, um Stjórnarráð Íslands og áralangrar stjórnsýsluframkvæmdar á útgáfu prentaðs lagasafns. Mæltist umboðsmaður til  þess að afstaða yrði tekin til þess hvort tilefni væri til að endurskoða lög nr. 48/1929, um laganefnd og/eða umrætt ákvæði reglugerðar um Stjórnarráð Íslands með það í huga að útgáfu prentaðs lagasafn yrði búin skýrari og samræmdari lagaumgjörð og að afstaða væri einnig eftir atvikum tekin til þess hvaða reglur skyldu gilda um tekjur og útgjöld vegna slíkrar útgáfu.

Með breytingum er brugðist við athugasemdum umboðsmanns Alþingis um útgáfu prentaðs lagasafns. Rráðherra getur ákveðið hvort gefið verði út lagasafn í prentuðu formi að fenginni tillögu ritstjórnar lagasafns sem ráðherra skipar til fimm ára í senn. Er jafnframt gert ráð fyrir að kostnaður af útgáfu prentaðs lagasafns greiðist úr ríkissjóði en að tekjur af sölu þess renni að sama skapi til þess að greiða kostnað við undirbúning og útgáfu hins prentaða lagasafns.

Lögin öðluðust gildi 11. maí sl. sem lög nr. 38/2012. Á sama tíma voru felld úr gildi lög um laganefnd nr. 48/1929.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum