Hoppa yfir valmynd
23. júlí 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Aukin tryggingavernd með nýrri reglugerð um slysatryggingar við heimilisstörf

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Gildissvið slysatryggingar við heimilisstörf sem Sjúkratryggingar Íslands annast verður aukið með nýrri reglugerð velferðarráðherra sem tekur gildi 1. ágúst.

Reglugerðin felur í sér aukna tryggingavernd þar sem öll viðhaldsstörf og viðgerðir í og við heimili sem ekki eru liður í atvinnustarfsemi falla nú undir trygginguna. Áður féllu eingöngu einföld og almenn viðhaldsverkefni undir trygginguna. Einnig er sú breyting gerð að ekki er útilokað að athafnir eins og símsvörun og það að sækja póst falli undir trygginguna, séu önnur skilyrði tryggingaverndar uppfyllt.

Breytingarnar má meðal annars rekja til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6539/2011 frá 15. mars 2012 , en í álitinu taldi umboðsmaður gildissvið eldri reglugerðar nr. 280/2005 vera of þröngt. Velferðarráðherra lét í kjölfarið endurskoða reglugerðina í samvinnu við Sjúkratryggingar Íslands. Niðurstaðan er umtalsverð réttarbót og aukin vernd fyrir tryggða einstaklinga við störf og framkvæmdir á heimili og í sumarbústað.

Slysatrygging við heimilisstörf er valkvæð og er sótt um hana með því að haka í þar til gerðan reit við útfyllingu á skattframtali. Kostnaður við trygginguna var 450 kr. á árinu 2012. Nýtt tryggingartímabil tekur gildi á sama tíma og reglugerðin og nær hún til allra sem völdu trygginguna á síðasta framtali.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum