Hoppa yfir valmynd
14. september 2012 Dómsmálaráðuneytið

Lagafrumvarp um persónukjör lagt fyrir Alþingi á næstunni

Innanríkisráðherra mun á næstunni leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga sem gerir mögulegt að viðhafa persónukjör við sveitarstjórnarkosningar. Með persónukjöri eru kjósendum veitt aukin áhrif um val á frambjóðendum af framboðslistum. Unnt er að kjósa lista eins og verið hefur, beita persónukjöri innan eigin lista eða persónukjöri af öðrum listum.

Óformlegur starfshópur innanríkisráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur kannað mismunandi aðferðir við persónukjör við sveitarstjórnarkosningar. Kannaðar voru aðferðir við persónukjör í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi. Niðurstaða starfshópsins er að sú leið að persónukjöri sem farin er við sveitarstjórnar- og fylkisstjórnarkosningar í Noregi sé þess verð að hún sé skoðuð nánar og útfærð miðað við aðstæður á Íslandi.

Helstu kostir norsku leiðarinnar eru þeir, að ekki þyrfti að umbylta því kosningarkerfi sem Íslendingar búa við. Norska leiðin er einföld að gerð og í framkvæmd en engu að síður yrði nauðsynlegt að gera nokkrar aðlaganir með hliðsjón af aðstæðum hér á landi, svo sem vegna fámennra sveitarstjórna á Íslandi miðað við Noreg. Eftir sem áður yrðu kosningar til sveitarstjórna annað hvort bundnar hlutfallskosningar eða óbundnar kosningar, eins og verið hefur, þ.e. listakosningar eða hreinar persónukosningar. Eini munurinn yrði sá að kjósandi við bundnar listakosningar ætti þess kost að veita einstökum frambjóðendum persónuatkvæði sitt með því að krossa fyrir framan nafn eða nöfn frambjóðenda, bæði á þeim lista sem hann kýs og á öðrum listum. Samanlögð persónuatkvæði hvers og eins frambjóðanda réðu því svo hver endanleg röð hans yrði á listanum miðað við aðra frambjóðendur, að teknu tilliti til þess atkvæðaálags sem hann kynni að njóta frá eigin flokki.

Þeir sem óska geta sent ráðuneytinu athugasemdir og ábendingar til 1. október næstkomandi á netfangið [email protected].

Hér á eftir má sjá helstu einkenni hins nýja kerfis eins og starfshópurinn hefur útfært og lýst því í aðalatriðum:

1. Flokksatkvæði

Kjósandi merkir við þann framboðslista sem hann hyggst kjósa með sama hætti og gert er í dag. Kjósandi velur hvort hann nýtir sér möguleika til persónukjörs eða hvort hann ráðstafi atkvæði sínu eingöngu til ákveðins framboðslista. Með því að merkja aðeins við framboðslista, eftirlætur hann öðrum kjósendum það að raða á listann. Ef aðeins er merkt við frambjóðanda eða frambjóðendur á einum lista en ekki við framboðslistann, fær listinn sem frambjóðandinn er fulltrúi fyrir engu að síður flokksatkvæðið. Ef frambjóðendum af tveim mismunandi framboðslistum eru veitt persónuatkvæði, en ekki er samtímis merk við framboðslista, dæmist seðilinn ógildur þar sem ekki er hægt að greina skýran vilja kjósanda. Flokkur eða listi fær alltaf atkvæði.

2. Persónukjör innan eigin lista

Kjósandi á þess kost að greiða einstökum frambjóðendum innan þess framboðslista sem hann kýs persónulegt atkvæði sitt. Það er gert með því að krossa fyrir framan nafn eða nöfn frambjóðendanna. Enginn takmörk eru á því hversu mörg persónuatkvæði leyfilegt er að veita innan þess framboðslista sem kosið er. Samanlögð persónuatkvæði hvers og eins frambjóðanda ráða því svo hver endanleg röð hans verður á listanum miðað við aðra frambjóðendur, að teknu tilliti til atkvæðaálags.

3. Persónukjör af öðrum listum

Kjósandi má greiða frambjóðendum öðrum framboðslistum en þeim sem hann veitir flokksatkvæði sitt persónuatkvæði. Hvert persónuatkvæði telst frambjóðanda þess framboðslista til tekna sem heilt atkvæði og er því jafngilt og þau persónuatkvæði sem hann fær frá eigin flokksmönnum. Þetta hefur þær afleiðingar að atkvæði þess lista sem kosinn er skerðist við hvert persónuatkvæði sem frambjóðanda af öðrum lista er veitt. Skerðingin miðast við fjölda fulltrúa í sveitarstjórn. Ef fulltrúar í sveitarstjórn eru 9 skerðist atkvæði listans um 1/9 hluta fyrir hvert persónuatkvæði sem frambjóðanda af öðrum lista er veitt. Atkvæðahlutarnir færast yfir á framboðslista þess frambjóðanda sem hlýtur persónuatkvæðið.

Taka þarf mið af því að sveitarstjórnir hér á landi eru fámennari en í Noregi og í ljósi þess er ekki hægt að taka leyfilegan fjölda persónuatkvæða sem heimilt er að veita fulltrúum af öðrum listum beint frá Norðmönnum. Íslensk regla gæti verið að fjöldi persónuatkvæða til fulltrúa af öðrum listum sé u.þ.b. 25% af fjölda fulltrúa í sveitarstjórn. Þar sem 9 fulltrúar sitja í sveitarstjórn má veita tveimur persónuatkvæði til frambjóðenda af öðrum listum og þar sem 15 sitja má veita fjórum frambjóðendum af öðrum listum persónuatkvæði.

Ef kjósandi í sveitarfélagi með 9 fulltrúa í sveitarstjórn nýtir sér að fullu rétt sinn til að veita tveim frambjóðendum af öðrum framboðslistum persónuatkvæði skerðist flokksatkvæðið um 2/9 hluta og færast þeir atkvæðahlutar yfir á lista þeirra frambjóðenda sem hljóta persónuatkvæðið. Ekki er leyfilegt að strika yfir eða breyta röð frambjóðenda að öðru leyti á kjörseðlinum.

4. Atkvæðaálag

Á framboðslistum sem boðnir eru fram gefst kostur á að gefa efstu frambjóðendum á listanum svokallað atkvæðaálag sem nemur 25% af heildaratkvæðum viðkomandi lista og nýtist það þeim sem forskot við uppgjör persónukjörs og við endanlega röðun á listann. Hjá þeim framboðum þar sem menn vilja aftur á móti setja það í hendur kjósenda alfarið að raða frambjóðendum getur sleppt atkvæðaálaginu og raðað á framboðslistann eftir stafrófsröð eða öðrum hætti. Nöfn þeirra sem fá atkvæðaálag frá þeim sem standa að framboði listans skulu standa efst á framboðslista og vera feitletruð.  Þessi leið veitir flokkum svigrúm til að velja frambjóðendur með tilliti til kynjasjónarmiða, búsetu, aldurs og svo framvegis.

Lagt er til að miðað verði við að hámark þess fjölda frambjóðenda á hverjum lista sem getur fengið atkvæðaálag sé einum færri en einfaldur meirihluti í viðkomandi sveitarstjórn. Þar sem 7 sveitarstjórnarfulltrúar sitja geti að hámarki 3 fengið atkvæðaálag, séu 11 fulltrúar í sveitarstjórn geti að hámarki 5 fulltrúar fengið atkvæðaálag og svo framvegis.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum