Hoppa yfir valmynd
Velferðarráðuneytið

Mótvægisaðgerðir gegn skuldavanda, fátækt og atvinnuleysi

Stefán Ólafsson kynnir skýrslu Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands
Stefán Ólafsson kynnir skýrslu Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands

Leiðir stjórnvalda til að milda áhrif kreppunnar á fólk með lágar tekjur og millitekjur með því að beita velferðarkerfinu á markvissan hátt hafa reynst árangursríkar. Þetta eru niðurstöður nýrrar úttektar sem Þjóðmálastofnun Háskóla Íslands vann fyrir velferðarráðuneytið.

Þetta er seinni skýrsla stofnunarinnar af tveimur sem unnar eru í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að láta fara fram óháða rannsókn á áhrifum fjármálahrunsins á lífskjör þjóðarinnar. Skýrsluhöfundar eru Stefán Ólafsson, Arnaldur Sölvi Kristjánsson og Kolbeinn Stefánsson.

Niðurstöðurnar staðfesta þann árangur sem að var stefnt

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir fyrri skýrslu Þjóðmálastofnunar hafa sýnt hvernig aðgerðir stjórnvalda vörðu lágtekju- og millitekjufólk fyrir áhrifum kreppunnar, jöfnuðu kjör í landinu, eins og að var stefnt. „Þar kom meðal annars fram að árin 2008–2010 rýrnuðu kjör lágtekjufólks um 9% á móti 38% rýrnun hjá hæsta tekjuhópnum. Þessi skýrsla styður fyrri niðurstöður stofnunarinnar um að staða hinna tekjulægri hafi verið varin og kjör jöfnuð. Með því að beina niðurskurði einkum að þjónustuliðum en auka á móti tekjutilfærslur til heimilanna hefur tekist að milda áfallið af kreppunni, ekki síst meðal þeirra sem misstu atvinnu og þeirra sem báru þungar skuldabyrðar. Það er líka athyglisvert að í kjölfar efnahagshrunsins fækkaði í hópi þeirra sem eru undir hlutfallslegum fátæktarmörkum. Þetta er sérstaklega áberandi hjá eftirlaunafólki. Um 18–19% þess hóps voru með tekjur undir 60% fátæktarmörkum árin 2006 og 2007 en hlutfallið fór niður í 4,6% árið 2010.“

Almennar niðurstöður:

  • Stærstur hluti skulda- og greiðsluvanda heimilanna var tilkominn fyrir hrun bankanna.
  • Skuldir heimilanna náðu hámarki að raunvirði 2009. Rúmlega 91% af því skuldahámarki var orðið til þegar á árinu 2007 og um 99% í lok árs 2008.
  • Um áramótin 2011–2012 var búið að afskrifa hátt í 15% af heildarskuldum heimilanna og hátt í 5% til viðbótar voru komin í afskriftaferli.
  • Alvarlegur greiðsluvandi heimilanna hefur minnkað um nærri fjórðung eftir að hann náði hámarki árið 2009, vegna úrræða og verulegrar hækkunar vaxtabóta sem var einkum beint til hinna tekjulægstu, samkvæmt gögnum Seðlabanka Íslands.
  • Árið 2010 greiddi ríkið að jafnaði um 31% af vaxtakostnaði húsnæðislána með vaxtabótum. Hjá lægstu tekjuhópunum var niðurgreiðsla vaxtabóta mun meiri, eða allt að 45%.
  • Verulega aukin niðurgreiðsla á vaxtakostnaði vegna húsnæðislána árið 2010 gerði það að verkum að í reynd varð greiðslubyrði fólks að jafnaði meiri vegna annarra lána en húsnæðislána, þ.e. vegna bíla- og neyslulána.
  • Samkvæmt nýjum fjölþjóðlegum könnunum telja Íslendingar að staða þeirra fari batnandi og þeir eru með allra bjartsýnustu þjóðum þegar spurt er um frekari bata á næstu tólf mánuðum. Nærri 80% Íslendinga telja að fjárhagsstaða heimilis síns sé „góð“ eða „frekar góð“ og eru þar í sjöunda sæti í samanburði við aðrar Evrópuþjóðir.

Skýrsluhöfundar benda á að þótt barnabótum hafi í auknum mæli verið beint að allra tekjulægstu hópunum séu þær engu að síður lágar miðað við grannríkin og skerðing þeirra vegna tekna of brött. Þetta sé einn veikasti hlekkurinn í mótvægisaðgerðum stjórnvalda gegn áhrifum kreppunnar. Þá er þess getið að staða hinna tekjulægstu í hópi lífeyrisþega hafi verið vel varin, en bent á að ákvörðun um skerðingu grunnlífeyris vegna tekna úr lífeyrissjóðum 1. júlí 2009 hafi komið illa við marga eldri borgara.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra bendir á að í fjárlagarumvarpi næsta árs sé gert ráð fyrir að verja tveimur og hálfum milljarði króna til hækkunar barnabóta, framlög til húsnæðisbóta verði aukin og einnig framlög til Fæðingarorlofssjóðs. Jafnframt er unnið að breytingum á ellilífeyri þar sem dregið er úr skerðingum og vægi lífeyristekna aukið. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira