Hoppa yfir valmynd
1. október 2012 Utanríkisráðuneytið

Gildistaka fríverslunarsamninga við Hong Kong og Svartfjallaland

Í dag, 1. október, taka gildi fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Hong Kong, Kína, samningur um vinnumál milli sömu aðila og landbúnaðarsamningur milli Íslands og Hong Kong. Sama dag taka gildi fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Svartfjallalands og landbúnaðarsamningur Íslands og Svartfjallalands.

Fríverslunarviðræður EFTA-ríkjanna og Hong Kong hófust í janúar 2010 og var samningur undirritaður í Schaan í Liechtenstein 23. júní 2011. Fríverslunarsamningurinn tekur til vöru- og þjónustuviðskipta, fjárfestinga, verndar hugverkaréttinda, opinberra innkaupa, samkeppni og viðskipta- og umhverfismála. Einnig var hliðstæður samningur um atvinnumál gerður í tengslum við fríverslunarsamninginn. Við sama tilefni var undirritaður tvíhliða landbúnaðarsamningur milli Íslands og Hong Kong, en með honum er felldur niður tollur á íslenskar landbúnaðarafurðir sem fluttar eru til Hong Kong og tollur á innfluttar vörur frá Hong Kong til Íslands verður lækkaður. Viðskipti Íslands og Hong Kong hafa verið töluverð undanfarin ár og hefur útflutningur frá Íslandi til Hong Kong numið um 1 milljarði króna á ári, mest sjávarafurðir. Fyrstu sex mánuði ársins 2012 hafa verið fluttar út vörur til Hong Kong fyrir sömu upphæð sem bendir til verulegrar aukningar milli ára. Helstu innflutningsvörur Íslands frá Hong Kong eru fatnaður og fjarskiptabúnaður.

Fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Svartfjallalands var undirritaður í Genf þann 14. nóvember 2011 eftir stuttar en árangursríkar samningaviðræður sem hófust í mars sama ár. Þá var við sama tilefni undirritaður tvíhliða samningur um landbúnaðarvörur milli Íslands og Svartfjallalands. Fríverslunarsamningurinn tekur til vöruviðskipta, þá helst iðnvarnings, m.a. fisks en grunnur hefur verið lagður að frekari viðræðum um tiltekin fríðindi þegar fram í sækir m.a. með eftirfylgni sameiginlegrar nefndar á framkvæmd fríverslunarsamningsins eftir gildistöku hans. Viðskipti milli Íslands og Svartfjallalands hafa hingað til ekki verið mikil, en helsta útflutningsvara Íslands til Svartfjallalands eru lyfjavörur en Ísland flytur aðallega inn vélar og samgöngutæki frá Svartfjallalandi.

EFTA-ríkin hafa nú gert 24 fríverslunarsamninga við alls 33 samstarfsríki utan Evrópusambandsins. EFTA-ríkin mynda saman níunda stærsta vöruviðskiptaaðila heims og eru einnig umfangsmikil á sviði þjónustuviðskipta og beinnar erlendrar fjárfestingar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum