Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 10/2012. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 1. ágúst 2012

í máli nr. 10/2012:

Jökulfell ehf.

gegn

Reykjavíkurborg

Með bréfi, dags. 25. apríl 2012, sem barst kærunefnd útboðsmála 30. sama mánaðar, kærir Jökulfell ehf. útboð Reykjavíkurborgar nr. 12788 „Sæmundargata – 2. áfangi: Gatnagerð og veitur“. Kærandi gerir eftirfarandi kröfur:

1.        Að kærunefnd útboðsmála stöðvi innkaupferli og/eða samningsgerð á grundvelli útboðsins þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup.

2.        Að nefndin felli úr gildi ákvörðun kærða um val á tilboði í útboðinu og leggi fyrir kærða að auglýsa og bjóða verkið út að nýju að viðlögðum dagsektum, sbr. 4. og 5. mgr. 97. gr. sömu laga.

3.        Að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.

4.        Að nefndin ákveði að kærði greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.

Kærða var kynnt kæran þegar hún barst og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Með bréfi, dags. 7. maí 2012, sem barst nefndinni sama dag, krefst kærði þess að málinu verði vísað frá kærunefnd útboðsmála, en kröfu kærða um stöðvun innkaupaferlis og/eða samningsgerðar ellegar hafnað. Með bréfi, dags. 29. júní 2012, áréttar kærði gerðar kröfur og krefst þess aðallega að kröfum kæranda veðri vísað frá nefndinni, en til vara þess að kröfum hans verði hafnað. Þá krefst hann þess að kæranda verði gert að greiða málskostnað, sbr. síðari málslið 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.

Bjóðandanum Urð og grjóti ehf. var kynnt kæran og athugasemdir kærða og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum bjóðandans vegna kröfu kæranda um stöðvun. Engar athugasemdir bárust frá bjóðandanum.

Með ákvörðun 24. maí 2012 hafnaði kærunefnd útboðsmála kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar í tengslum við útboðið. Verður nú leyst úr öðrum efnisatriðum kærunnar.

Kæranda var kynnt greinargerð kærða og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Nefndinni bárust nánar tiltekin viðbótargögn frá kæranda með bréfi, dags. 7. júní 2012, og frekari athugasemdir kæranda með bréfi, dags. 20. júlí sama ár.

 

I.

Kærði auglýsti í mars 2012 útboð nr. 12778 „Sæmundargata 2. áfangi: Gatnagerð og veitur“. Með auglýsingunni óskaði innkaupastofa kærða, fyrir hönd framkvæmda- og eignasviðs kærða, eftir tilboðum í verk um nýbyggingu 2. áfanga Sæmundargötu í Reykjavík við nýja stúdentagarða með tilheyrandi veitukerfum, en í kafla kafla 0.2.1 í útboðsgögnum hins kærða útboðs eru verkkaupar tilteknir framkvæmda- og eignasvið Reykjavíkurborgar og Orkuveita Reykjavíkur. Í köflum 0.1.4 og 1.0.2 í útboðsgögnum kemur meðal annars fram að í verkinu felist að grafa fyrir götum, gangstéttum og nýjum veitulögnum, leggja fráveitu og vatnsveitu, fylla undir og yfir veitulagnir og í götustæði, setja upp lýsingu og ganga frá götu með malbiki. Samkvæmt 0.1.7 kafla útboðsgagna skal verkinu að fullu lokið fyrir 1. september 2012.

Í kafla 0.1.3 í útboðsgögnum hins kærða útboðs er kveðið á um upplýsingar um bjóðendur og þar eru meðal annars tilteknar þær upplýsingar sem bjóðendum bar að leggja fram með tilboðum sínum í hinu kærða útboði. Þar segir enn fremur:

„Eftir opnun og yfirferð tilboða skulu þeir bjóðendur sem koma til álita sem verktakar, láta í té innan tilskilins frests, eftirtaldar upplýsingar, sé þess óskað. Farið verður með þessar upplýsingar sem trúnaðarmál. Ef þessar upplýsingar eru ekki lagðar fram á tilskildum tíma áskilur verkkaupi sér rétt til að semja ekki við viðkomandi.

-          Síðast gerðum endurskoðuðum/árituðum ársreikningi árituðum án fyrirvara um rekstrarhæfi félags af löggiltum endurskoðanda. Sé síðasti ársreikningur ekki endurskoðaður af löggiltum endurskoðanda eða hann sýnir neikvæða eiginfjárstöðu er heimilt að leggja fram yfirlýsingu án fyrirvara um jákvæða eiginfjárstöðu frá löggiltum endurskoðanda. Slík yfirlýsing skal miða við stöðu bjóðanda eigi fyrr en viku fyrir opnunardagsetningu tilboða.

-          Staðfestingu frá viðkomandi yfirvöldum um að bjóðandi sé, á opnunardegi tilboða, hvergi í vanskilum með opinber gjöld.

-          Staðfestingu (frumriti) frá lífeyrissjóði/lífeyrissjóðum að greiðslur á eigin lífeyrissjóðsiðgjöldum eða iðgjöldum vegna starfsmanna séu ekki í vanskilum á opnunardegi tilboða. Tilgreina skal síðast greiddan mánuð.

-          Yfirlýsingu frá banka/tryggingafélagi, um að bjóðandi muni fá verktryggingu vegna verksins, án skilyrða.

-          Staðfestingu um að undirverktakar og iðnmeistarar sem taka þátt í verkefninu séu í skilum með opinber gjöld ásamt því að vera í skilum með eigin lífeyrissjóðsiðgjöld og iðgjöld starfsmanna sinna á opnunardegi tilboða. Tilgreina skal síðast greiddan mánuð.

[...] Ef um bjóðendur gildir eitt eða fleiri af eftirtöldum atriðum, á opnunardegi tilboða, áskilur verkkaupi sér rétt til að ganga ekki til samninga við þá:

-          Bjóðandi (hér átt við helstu stjórnendur og stjórnarmenn fyrirtækisins) hefur verið sakfelldur með endanlegum dómi fyrir spillingu, sviksemi, peningaþvætti eða þátttöku í skipulögðum brotasamtökum.

-          Endurskoðaður ársreikningur bjóðanda sýnir neikvætt eigið fé.

-          Bjóðandi er í vanskilum með opinber gjöld.

-          Bjóðandi er í vanskilum með eigin lífeyrissjóðsiðgjöld eða iðgjöld starfsmanna.

-          Bjóðandi er í nauðasamningum eða gjaldþrotaskiptum.

-          Viðskiptasaga bjóðanda þykir vafasöm. [...].“

Í kafla 0.4.6 í útboðsgögnum áskildi kærði sér rétt til að taka lægsta tilboði eða hafna þeim öllum.

Útboðið var svo sem áður greinir auglýst í mars 2012. Tilboðsfrestur var til 2. apríl sama ár kl. 10.00 og voru tilboð opnuð við það tímamark. Átta bjóðendur skiluðu tilboðum, þ. á m. kærandi og Urð og grjót ehf. Samkvæmt gögnum málsins var kostnaðaráætlun þess verks, sem hið kærða útboð varðar, að fjárhæð 48.012.200 krónur. Kærandi var lægstbjóðandi í hinu kærða útboði og átti jafnframt eina tilboðið sem var undir kostnaðaráætlun útboðsins, en tilboð bjóðandans Urðar og grjóts ehf. var hið næstlægsta.

Með tölvubréfi 2. apríl 2012 óskaði kærði eftir því við kæranda að hann legði fram þær upplýsingar sem tilteknar eru í kafla 0.1.3 í útboðsgögnum hins kærða útboðs, eigi síðar en 10. sama mánaðar kl. 16.00. Samkvæmt gögnum málsins skilaði kærandi umbeðnum gögnum til kærða í kjölfarið. Með tölvubréfi 3. sama mánaðar gerði bjóðandinn Urð og grjót ehf. kærða viðvart um að kærandi uppfyllti ekki hæfisskilyrði útboðsgagna þar sem hann hefði skuldað opinber gjöld á opnunardegi tilboða. Með tölvubréfi 11. sama mánaðar upplýsti Sýslumaðurinn á Höfn um það að kærandi hefði ekki verið í skilum með opinber gjöld fyrr en kl. 13.01 hinn 2. apríl 2012.

Með tölvubréfi 11. apríl 2012 var kæranda tilkynnt að hann uppfyllti ekki hæfisskilyrði útboðsgagna, annars vegar með vísan til þess að ársreikningur kæranda og yfirlýsing hans uppfylltu ekki áskilnað útboðsgagna og hins vegar að kærandi hefði verið í vanskilum með opinber gjöld á opnunardegi tilboða kl. 10.00 2. apríl 2012. Hinn 12. apríl 2012 lagði kærandi fram nýjan ársreikning, en kærði taldi hann haldinn sama annmarka og sá hinn fyrri og áréttaði niðurstöðu sína um tilboð kæranda með tölvubréfi til hans sama dag.

Með bréfi 20. apríl 2012 var bjóðendum í hinu kærða útboði tilkynnt að gengið hefði verið að tilboði bjóðandans Urðar og grjóts ehf. og að samkvæmt 19. gr. laga nr. 65/1993 um framkvæmd útboða væri kominn á bindandi samningur milli aðila. Samkvæmt gögnum málsins var verksamningur sendur bjóðandanum Urð og grjóti ehf. til undirritunar með tölvubréfi 28. sama mánaðar.

 

II.

Kærandi mótmælir frávísunarkröfu kærða, sem heldur því fram að málið falli utan lögsögu kærunefndar útboðsmála. Kærandi heldur því fram að óumdeilt sé að samningur sá, sem hið kærða útboð varði, sé verksamningur í merkingu laga nr. 84/2007. Kærandi vísar til þess að innkaup þau sem útboðið lýtur að séu undir viðmiðunarfjárhæðum vegna opinberra innkaupa á Evrópska efnahagssvæðinu og samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um opinber innkaup, en heldur því fram að þar sem verkið hafi ekki verið boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu sé vandséð að ákvæði III. kafla laga nr. 84/2007 eigi við í þessum efnum og telur nærtækara að fara að IV. kafla sömu laga um innlendar viðmiðunarfjárhæðir í hinu kærða útboði. Því til stuðnings vísar kærandi til athugasemda með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 84/2007, nánar tiltekið 91. gr. laganna, en þar segir að undanþága sé veitt frá skilyrði um viðmiðunarfjárhæðir þegar um sé að ræða brot gegn lögunum.

Kærandi hafnar því að tilboð hans í hinu kærða útboði hafi ekki uppfyllt hæfisskilyrði útboðsgagna. Kærandi bendir á að að tilboðsgögn þau er hann skilaði inn með tilboði sínu til kærða hafi uppfyllt áskilnað útboðsgagna og að hann hafi áður skilað inn samsvarandi gögnum án athugasemda. Kærandi bendir á að kærði hafi engu að síður túlkað sömu gögn, er stöfuðu frá kæranda í fyrra útboði og í hinu kærða útboði, með ólíkum hætti þá og nú og að kærði hafi í engu gert reka að því að skýra hvernig þau gögn kæranda sem áður voru talin fullnægjandi, séu að mati kærða ófullnægjandi nú.

Kærandi mótmælir þeirri staðhæfingu kærða að kærandi hafi verið í vanskilum með opinber gjöld á opnunardegi tilboða. Kærandi heldur því fram að á opnunardegi tilboða hafi fyrirsvarsmaður kæranda greitt gjaldfallna skuld og fengið staðfestingu þess efnis frá Sýslumanninum á Höfn að kærandi væri skuldlaus. Sams konar staðfestingu hafi kærandi aflað frá lífeyrissjóði og viðskiptabanka sínum, auk þess sem hinn síðastgreindi ábyrgðist verkábyrgð vegna verksins. Þá skilaði kærandi ársreikningi vegna ársins 2011. Loks bendir kærandi á að í útboðsgögnum hins kærða útboðs hafi verið áskilið að bjóðandi skuli vera í skilum á opnunardegi og að það skilyrði hafi kærandi uppfyllt. Kærandi bendir sérstaklega á í þessu samhengi að hann hafi verið lægstbjóðandi í hinu kærða útboði, að fjárhagsleg staða hans sé sterk og að áðurgreind skuld hafi verið greidd á opnunardegi, svo sem áskilið var í útboðsgögnum, en um hafi verið að ræða minniháttar yfirsjón af hálfu kæranda sem hann hafi bætt úr um leið og hann fékk vitneskju um hana. Kærandi mótmælir harðlega þeirri túlkun kærða að kærandi hafi verið í vanskilum með opinber gjöld á opnunardegi útboðsins.

Kærandi mótmælir einnig þeirri staðhæfingu kærða að ársreikningur kæranda hafi ekki verið endurskoðaður/áritaður af löggiltum endurskoðanda svo sem áskilið var í útboðsgögnum. Í því samhengi bendir kærandi á að hann hafi áður gert tilboð í verk og það verið samþykkt af hálfu kærða, þ. á m. vegna 1. áfanga Sæmundargötu 2, þar sem tilboðsgögn hafi öll verið eins úr garði gerð og í hinu kærða útboði.

Að síðustu telur kærandi einsýnt að kærði hafi brotið gegn lögum nr. 84/2007 við framkvæmd hins kærða útboðs og að ákvörðun kærða um val á tilboði hafi verið ólögmæt. Því áréttar kærandi kröfur sínar, þ. á m. um málskostnað samkvæmt 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.

 

III.

Kröfur sínar byggir kærði  á því að innkaup á grundvelli hins kærða útboðs falli ekki undir lögsögu kærunefndar útboðsmála, en að því frágengnu að kærði hafi með lögmætum og fyrirsjáanlegum hætti framkvæmt mat á hæfi lægstbjóðanda í hinu kærða útboði, kæranda, og komist að réttri niðurstöðu í kjölfar þess um að vísa tilboði hans frá og ganga að tilboði þess bjóðanda er átti næst lægsta tilboð í útboðinu.

Kærði heldur því fram að samningur á grundvelli hins kærða útboðs sé verksamningur í merkingu 2. mgr. 4. gr. laga nr. 84/2007 og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/18/EB um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga, sbr. I. viðauka tilskipunarinnar. Kærði bendir á að samkvæmt reglum nr. 299/2010 um viðmiðunarfjárhæðir vegna opinberra innkaupa á Evrópska efnahagssvæðinu og samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (e. WTO) um opinber innkaup sé viðmiðunarfjárhæð vegna skyldu til útboðs á Evrópska efnahagssvæðinu 649.230.000 krónur þegar um verksamninga er að ræða, sbr. 3. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar. Kærði bendir einnig á að hið kærða útboð sé undir áðurgreindri viðmiðunarfjárhæð, sbr. kostnaðaráætlun vegna þess verks sem hið kærða útboð varðar. Loks bendir kærði á að innkaup sveitarfélaga undir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins falli ekki undir lögsögu kærunefndar útboðsmála, sbr. 2. mgr. 91. gr. laga nr. 84/2007. Samkvæmt því falli hið kærða útboð utan valdsviðs nefndarinnar. Því beri að vísa máli kæranda frá kærunefnd útboðsmála í heild sinni, en að öðrum kosti hafna kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar.

Fari svo að kærunefnd útboðsmála fallist ekki á áðurgreind sjónarmið um frávísun kærunnar telur kærði að nefndinni beri að hafna öllum kröfum kæranda þar sem ákvæði laga nr. 84/2007, og reglna settum samkvæmt þeim, hafi ekki verið brotin við framkvæmd útboðsins. Kærði heldur því fram, svo sem á undan er rakið, að hann hafi með lögmætum og fyrirsjáanlegum hætti framkvæmt mat á hæfi kæranda í útboðinu. Sú skoðun hafi leitt í ljós að kærandi hafi ekki staðist kröfur útboðsgagna um fjárhagslegt hæfi af tvennum ástæðum.

Í fyrsta lagi hafi ársreikningur sem kærandi lagði fram í útboðinu hvorki verið endurskoðaður né áritaður af löggiltum endurskoðanda, en í kafla 0.1.3 í útboðsgögnum hafi það verið áskilið. Kærði bendir á að í sama kafla útboðsgagna hafi bjóðendum, sem ekki lögðu fram ársreikninga sem uppfylltu áðurgreind skilyrði, verið heimilað að leggja fram yfirlýsingu löggilts endurskoðanda um jákvæða eiginfjárstöðu. Kærandi hafi lagt fram yfirlýsingu viðskiptafræðings, dags. 4. apríl 2012, sem ekki uppfyllti fyrrgreinda kröfu útboðsgagna. Honum hafi því á nýjan leik verið veitt tækifæri til að bæta úr fyrrgreindum annmörkum og hafi við það tækifæri lagt fram yfirlýsingu löggilts endurskoðanda, dags. 11. apríl 2012, þess efnis að ársreikningur hans sýndi jákvæða eiginfjárstöðu. Kærði heldur því fram að í yfirlýsingunni hafi hvergi verið getið um að endurskoðandinn hafi skoðað bókhald kæranda og því hafi hann ekki staðfest áreiðanleika þeirra upplýsinga sem fram komu í ársreikningnum, heldur einungis að eiginfjárstaða kæranda væri jákvæð að því gefnu að upplýsingar í ársreikningnum væru réttar. Samkvæmt því telur kærði að kæranda hafi ekki tekist að sýna fram á áreiðanleika upplýsinga um eiginfjárstöðu sína svo sem útboðsgögn gerðu kröfu um og að tilkynning kærða til kæranda 11. apríl 2012, þess efnis að hann hefði ekki staðist fjárhagsskoðun, hefði því verið réttmæt. Kærði vísar enn fremur til þess að kærandi hafi tveimur dögum síðar, 13. apríl 2012, lagt fram áritun endurskoðanda, en það breyti í engu áðurgreindri niðurstöðu um að vísa tilboði kæranda frá, einkum með vísan til sjónarmiða um jafnræði bjóðenda sem nánar eru rakin hér á eftir.

Í öðru lagi hafi í útboðsgögnum verið áskilið að bjóðendur legðu fram staðfestingu um að þeir væru í skilum með opinber gjöld. Samkvæmt yfirlýsingu Sýslumannsins á Höfn hefði kærði verið í vanskilum með opinber gjöld við opnun tilboða 2. apríl 2012 kl. 10.36. Kærði vísar til þess að í gögnum málsins liggi fyrir staðfesting sýslumanns um að kærandi hafi verið í skilum með opinber gjöld 2. apríl 2012, en hafnar því að það eitt og sér dugi til. Þannig vísar kærði því á bug að unnt sé að túlka skilyrðið um að bjóðandi sé hvergi í vanskilum með opinber gjöld á opnunardegi, sbr. kafla 0.1.3 útboðsgagna og f. lið 2. mgr. 47. gr. laga nr. 84/2007, þannig að miða skuli við hefðbundinn almanaksdag. Með því móti væri bjóðanda, sem væri á opnunarfundi upplýstur um tilboð annarra bjóðenda, fært að bæta stöðu sína samdægurs eftir opnun tilboða, en slíkt sé í andstöðu við jafnræðisreglu opinberra innkaupa, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 84/2007. Slík túlkun leiddi óhjákvæmilega til þess að opnun tilboða þyrfti að fara fram við lok opnunardags, eftir kl. 23.55, til að tryggja að bjóðendur hefðu ekki tök á að bæta stöðu sína eftir á, á opnunardegi. Af þessu leiddi að túlka bæri skilyrðið á þann veg að bjóðandi þyrfti að uppfylla það á því tímamarki er opnun tilboða ætti sér stað. Kærði áréttar að opnunarfundur tilboða í hinu kærða útboði var kl. 10 hinn 2. apríl 2012 og að kærandi hafi verið í vanskilum með opinber gjöld kl. 10.36 þann dag. Kærandi hafi ekki greitt skuld sína fyrr en kl. 13.23 sama dag, eftir að opnunardegi lauk og hafi því ekki uppfyllt áðurgreint skilyrði útboðsgagna.

Með því sem á undan er rakið telur kærði að sér hafi verið heimilt að vísa frá tilboði kæranda, þar sem hann uppfyllti ekki hæfisskilyrði útboðsgagna.

Að síðustu gerir kærði kröfu um að kærandi verði gert að greiða sér málsksotnað á grundvelli síðari málsliðar 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007, með vísan til þess að kæran sé tilefnislaus og að kæranda hafi mátt vera það ljóst er hann hafði hana uppi. Því séu skilyrði ákvæðisins fyrir hendi.

 

V.

Kærandi krafðist þess upphaflega að stöðvað yrði innkaupaferli og samningsgerð við bjóðandann Urð og grjót ehf. á grundvelli hins kærða útboðs. Kærunefnd útboðsmála hafnaði kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar með ákvörðun 24. maí 2012, enda verður bindandi samningur ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 84/2007. Krefst kærandi þess nú að ákvörðun kærða um val á tilboði í útboði um framkvæmdir við nýbyggingu við Sæmundargötu í Reykjavík verði felld úr gildi, að kærunefnd útboðsmála leggi fyrir kærða að auglýsa og bjóða verkið út að nýju að viðlögðum dagsektum og að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda.

Kærði í málinu er sveitarfélag, en um innkaup sveitarfélaga gilda sérstakar reglur. Í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 84/2007 segir að ákvæði 2. þáttar laganna, sem fjalla um opinber innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins, taki ekki til innkaupa sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila á þeirra vegum. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 84/2007 segir meðal annars að 19. gr. frumvarpsins svari til 75. þágildandi laga um opinber innkaup. Þar segir meðal annars um ákvæðið:

Í framkvæmd hefur kærunefnd útboðsmála skýrt 2. mgr. [75. gr. þágildandi laga] svo að innkaup sveitarfélaga undir viðmiðunarfjárhæðum EES falli ekki undir lögsögu nefndarinnar, þ.e. að í þeim tilvikum sé ekki um að ræða ætluð brot gegn lögunum. Felur frumvarpið ekki í sér breytingu á þessari túlkun nefndarinnar. Eiga fyrirtæki sem telja á sér brotið við innkaup sveitarfélaga undir viðmiðunarfjárhæðum EES það úrræði að leita til almennra dómstóla með kröfur sínar.

Kærunefnd útboðsmála telur þannig ljóst að nefndinni sé ekki heimilt að fjalla um innkaup sveitarfélaga sem eru undir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins og skipti þá ekki máli þótt sveitarfélög hafi kosið að beita lögunum í viðkomandi innkaupum. 

Í umræddum innkaupum var stefnt að því að koma á verksamningi og kostnaðaráætlun verksins í heild var að fjárhæð 48.012.200 krónur. Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 229/2010, um viðmiðunarfjárhæðir vegna opinberra innkaupa á Evrópska efnahagssvæðinu og samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um opinber innkaup, eru viðmiðunarfjárhæðir vegna skyldu sveitarfélaga til útboðs á Evrópska efnahagssvæðinu 649.230.000 krónur ef um verksamninga er að ræða. Fjárhæð útboðsins er undir framangreindri viðmiðunarfjárhæð. Telur nefndin því að útboðsferlið sem mál þetta lýtur að falli ekki undir lögsögu nefndarinnar.

Af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar telur kærunefnd útboðsmála óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá nefndinni.

Kærði hefur krafist þess að kæranda verði gert að greiða málskostnað til ríkissjóðs. Samkvæmt síðari málslið 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007 getur kærunefnd útboðsmála úrskurðað kæranda til að greiða málskostnað sem rennur til ríkissjóðs ef kæra er bersýnilega tilefnislaus eða höfð uppi í þeim tilgangi að tefja fyrir framgangi opinberra innkaupa. Með hliðsjón af öllu framangreindu er skilyrðum ákvæðisins ekki fullnægt og verður því að hafna kröfunni.

 

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda, Jökulfells ehf., vegna útboðs kærða, Reykjavíkurborgar, vegna útboðs kærða nr. 12778 „Sæmunargata 2. áfangi: Gatnagerð og veitur“, er vísað frá kærunefnd útboðsmála.

Hafnað er kröfu kærða um málskostnað úr hendi kæranda.

                

              Reykjavík, 1. ágúst 2012.

 

Páll Sigurðsson,

        Auður Finnbogadóttir

Stanley Pálsson

 

Rétt endurrit staðfestir,

 

Reykjavík, 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn